Byrjendalæsi í umræðunni

Við hjá miðstöð skólaþróunar hörmum þá óvægnu fjölmiðlaumræðu sem dunið hefur yfir síðustu daga og hvernig niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum frá 38 Bl skólum, sem birtar eru í minnisblaði Menntamálastofnunar, eru settar fram og ályktanir dregnar af þeim langt umfram efni. Framsetning myndarinnar í minnisblaði Menntamálastofnunar nú, þar sem niðurstöður eru settar fram, er afar ruglingsleg og hefur gefið tilefni til rangtúlkana.

Miðstöðin hefur sent frá sér yflýsingar vegna þessa. Í þeim kemur meðal annars fram að umræddur munur sé óverulegur eða 0.9 stig af 60. Venjubundin sveifla innan skóla, milli ára getur verið allt að 4 stig svo erfitt er að draga af þessu einu saman ályktanir um aðferðir BL. Gera þarf greinarmun á orsakasambandi og fylgni en í blöðum og umræðum hefur þess ekki alltaf verið gætt. Reglubundið mat með skimunarprófum fer fram BL skólum  1. og 2. bekk og gögn miðstöðvar skólaþróunar sýna fram á framfarir nemenda og ánægju með verkefnið. Ítarlegar niðurstöður ligga fyrir um framvindu verkefnisins milli ára, skóla og kynja. Skammt er að bíða lokaniðurstaðna úr stórri rannsókn á BL og lestarkennslu í landinu en fyrstu niðurstöður hafa verið kynntar á ráðstefnum bæði innan lands og utan. Margir skólar sem kenna eftir aðferðum BL eru meðal þeirra skóla sem hvað best standa á samræmdum könnunarprófum í 4. bekk.

Rektor Háskólans á Akureyri sá sig knúinn til að koma sjónarmiðum HA á framfæri, en óalgengt er að rektor geri slíkt, en alvarleiki málsins var metinn þannig. Viðtalið er aðgengilegt á Sarpinum á slóðinni: http://www.ruv.is/node/929883

Einnig er hér hlekkur á grein sem birtist á Kjarnanum í gærkvöldi, en þar ræða Kjartan Ólafsson og Þóroddur Bjarnason um málið http://kjarninn.is/2015/08/tilraunir-a-bornum/  

Þar kemur m.a. fram að Menntamálastofnun hefur fengið fjárveitingu frá ríkinu til að ráða fjölda starfsmanna til að taka við lestrarráðgjöf í öllum skólum landsins. Menntamálastofnun er því beggja vegna borðsins sem hagsmunaaðili og óháður matsaðili, auk þess að hafa á höndum útgáfu námsgagna. Hvergi er gert ráð fyrir að nýta krafta eða reynslu HA í læsismálum.

Ýmsir skólar hafa skrifað á heimasíðu sína um reynslu af BL og sett inn upplýsingar um aðferðina. Við erum þakklát fyrir það því við skiljum vel ef foreldrar hafa áhyggjur og spurningar. Slóð á kynningarmynd um Byrjendalæsi  er hér https://www.youtube.com/watch?v=145lNe5nH-k, en margir skólar hafa einnig sett þennan link á heimasíður sínar.

Við bendum einnig á viðtal við Jennýju Gunnbjörnsdóttur í útvarpsþættinum Sjónmáli frá því í febrúar 2014 og var útvarpað aftur í þættinum Samfélagið 25. ágúst 2015 en þar segir hún segir ítarlega frá Byrjendalæsi og er viðtalið á tímabilinu 22.15–33.12 og slóðin er http://www.ruv.is/frett/byrjendalaesi-eda-hljodaadferd  

Í bókinni Fagmennska í skólatarfi (2013) er ritrýnd grein eftir Rósu Eggertsdóttur þar sem hún fjallar um Byrjendalæsi í ljósi fræða um starfsþróun. Hægt er hægt nálgast greinina hér.

Í desember 2013 birtist ritrýnd grein eftir Eygló Björnsdóttur dósent við kennaradeild HA og Sígríði Margréti Sigurðardóttur dósent við HA í tímaritinu Netlu um viðhorf og reynslu kennara af innleiðingu Byrjendalæsis. Slóðin á greinina er http://netla.hi.is/greinar/2013/ryn/011.pdf

Tvær greinar hafa birst um Byrjendalæsi í Skímu tímariti Samtaka móðurmálskennara og hægt er að nálgast þær hér Byrjendalæsi. Lestur eða læsi? Greinin er frá árinu 2010 og höfundar hennar eru Rósa Eggertsdóttir, Jenný Gunnbjörnsdóttir og Þóra Rósa Geirsdóttir. Hin greinin er Byrjendalæsi frá árinu 2007 og höfundur hennar er Rósa Eggertsdóttir.  

Ykkur er velkomið að hafa samband við okkur ef spurningar vakna.