Málstofa 1.3

Málstofa 1.3 

Leikjavæðing náms

Arnar Elísson, kennari í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ (arnar@fmos.is)

Leikjavæðing náms hefur verið áberandi í kennslufræði umræðunni síðastliðin ár. Leikjavæðing er kennsluaðferð sem tekur aðferðir leikja og tölvuleikja og hannar námsefni út frá aðferðum þeirra. Tölvuleikir eru einn stærsti afþreyingariðnaðurinn í dag, milljónir einstaklinga sækjast eftir að spila tölvuleiki sem eru flestir byggðir á kerfi þar sem spilarinn sækist eftir verkefnum til að klára, fá umsögn og bæta sig. Leikjavæðing miðar að því að nýta það sem gerir leiki svo skemmtilega og krefjandi í almennt nám á öllum skólastigum. Ég mun leitast við að útskýra hversvegna leikjamiðað nám getur hentað nær öllum námgreinum og gert nemendur virkari og áhugasamari. Hvernig staða leikjamiðaðs náms er í heiminum og hvað fræðimenn segja að virki best í slíkri nálgun. Einnig mun ég segja frá minni eigin reynslu við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ við notkun leikjamiðaðs náms. Þar bjó ég til leik úr áfanga með tilheyrandi ævintýraferðum, leynilegum verkefnum og reynslustigum sem nemendur unnu sér inn yfir önnina.


 

Rafrænt nám í Brekkuskóla

Helena Sigurðardóttir, kennari í Brekkuskóla (helenas@akmennt.is), og Margrét Þóra Einarsdóttir, kennari í Brekkuskóla (m@islandia.is)

Í málstofunni munu Helena Sigurðardóttir og Margrét Þóra Einarsdóttir kennarar úr Brekkuskóla, Akureyri, kynna þróunarverkefnið: ,,Rafrænt nám í Brekkuskóla", sem hófst haustið 2012. Markmið verkefnisins er að þróa aðferðir til að auka fjölbreytni í námi og kennslu með aðstoð tölvu og upplýsingatækni. Helena og Margrét munu segja frá því hvernig þær hafa nýtt ýmis forrit til kennslu eins og Book-creator, Imovie, Thinklink, Linoit, Video star, Kahoot og Foxit reader. Þær munu greina frá því hvernig þessi námsaðferð stuðlar að því að vekja áhuga nemenda á námsefninu, auka sjálfstæði í vinnubrögðum og koma til móts við mismunandi námsþarfir nemenda. Einnig munu þær segja frá því hvernig unnið var að sáttmála um notkun snjalltækja í skólanum með því að halda skólaþing með fulltrúum nemenda, starfsfólks, foreldra og ýmissa samtaka og hvernig unnið var að námskrá um upplýsingatækni í öllum bekkjum skólans.


 

Viðmið um gæði náms og kennslu

Kristinn Svavarsson, aðstoðarskólastjóri í Laugarnesskóla (kristinn.svavarsson@reykjavik.is)

Árið 2010 hóf Laugarnesskóli, í samstarfi við Álftamýrarskóla og Hamarskóla í Reykjavík, þátttöku í verkefninu Viðmið um gæði náms og kennslu. Verkefnið var unnið undir leiðsögn John Morris skólastjóra Ardleigh Green Junior School í Hornchurch í Bretlandi og í umsjón Nönnu Kristínar Christiansen. John hafði unnið sér gott orð í heimalandi sínu fyrir afburða árangur í skólastarfi og höfðu nemendur hans sýnt miklar framfarir í námi. Horft var til þess að skoða hvað það væri í starfsháttum Ardleigh Green sem orsakaði þennan afburða árangur nemenda. Skólastjórar skólanna þriggja heimsóttu Ardleigh Green og kynntu sér áherslur og starfshætti. Það sem vakti athygli var að allir, kennarar sem nemendur, höfðu skilgreint hvaða megin þættir römmuðu inn gott skólastarf og hvað einkenndi góða nemendur, námsumhverfi og kennara. Samræmi var í starfsháttum allra kennara um uppbyggingu kennslustunda, námsmat og verkefni. Nemendur voru upplýstir um tilgang kennslustunda og inntak, aðferðir til að ná árangri og hvað væri góður árangur. Það sem vakti sérstaka athygli var hversu nemendur tóku virkan þátt í öllum kennslustundum og hversu tíminn var vel nýttur. Eftir að ákveðið var að stuðla að álíka aðferðum í skólastarfi hér heima fyrir var það því eitt fyrsta verkefni skólanna þriggja að skilgreina viðmið um gæði náms og kennslu.