Málstofa 2.2

Málstofa 2.2

 

Lykilhæfni í list- og verkgreinum

Rannveig Sigurðardóttir, deildarstjóri í Oddeyrarskóla (rannvei@akmennt.is), Ragnheiður Ásta Einarsdóttir, kennari í Oddeyrarskóla (ragnheidura@akmennt.is), og Sigrún Finnsdóttir, kennari í Oddeyrarskóla (sifi@akmennt.is)

Í erindinu verður sagt frá því hvernig fyrirkomulag kennslu í list- og verkgreinum á yngsta stigi hefur þróast undanfarin tvö ár og hvernig við sjáum það þróast áfram í takt við nýja Aðalnámskrá grunnskóla. Í Oddeyrarskóla hefur fyrirkomulag kennslu almennt breyst töluvert undanfarin ár. Mikið er unnið í kennarateymum og einnig er unnið töluvert með aldursblandaða hópa. Fyrirkomulag í sumum kennslugreinum hefur breyst í þá átt að kennt er í smiðjum þar sem börnin fá samfellda kennslu í ákveðinni grein í nokkrar vikur og svo er skipt á milli greina. Með þessu móti verður markmiðssetning skýr og mat á framvindu og framförum einfaldara og skýraraí framkvæmd.

Í kjölfar útgáfu á nýrri Aðalnámskrá fór starfsfólk skólans strax að vinna að þeim lykilþáttum sem þar birtast. Lykilhæfni nemenda er auðvitað grundvallarþáttur þar og eru smiðjurnar m.a. þáttur í að efla þá hæfni. Matið á smiðjum byggir því að einhverju leyti á þáttum lykilhæfninnnar.  Almenn ánægja er meðal nemenda og kennara á þessu skipulagi og innihaldi námsins og kemur það m.a. fram í sjálfsmati nemenda og foreldraviðtölum.


 

Sjónrænt skipulag – hvatning til góðrar vinnu

Elín Sigurbjörg Jónsdóttir, sérkennsluráðgjafi við Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar (elins@akureyri)

Skipulögð kennsla (structured teaching) er kennsluaðferð sem var þróuð í Norður- Karólínufylki í Bandaríkjunum og er hluti af TEACCH hugmyndafræðinni (Treatment and Education of Autism and related Communication handicapped Children).

Aðalsmerki þessarar aðferðar er skýrleiki í skipulagi og að öll verkefni eru skýrt fram sett þannig að það sé alveg ljóst hvað á að gera, hvar á að byrja og hvenær verkefnið er búið. Nemandinn fær alltaf sjónrænan stuðning með fyrirmælunum t.d. með hlutum, myndum, stikkorðum eða skriflegum leiðbeiningum. Nemandanum er þannig gert sem allra auðveldast að átta sig á umhverfi sínu og þeim kröfum sem gerðar eru til hans um vinnu og hegðun.

Þessi kennsluaðferð hefur verið í notkun í leik- og grunnskólum á Akureyri og nágrenni í um tvo áratugi. Lengst af hefur hún fyrst og fremst verið  notuð við kennslu einhverfra barna. Eftir því sem meiri reynsla hefur fengist af gagnsemi aðferðarinnar hafa kennarar í auknum mæli tekið upp ýmsa þætti aðferðarinnar og notað í almennri kennslu. Mesta reynslan er af því að setja allt skipulag fram í aðgengilegu sjónrænu formi fyrir alla nemendur. Aukin reynsla er að fást af því að setja verkefnin í þennan búning. Þetta á við jafnt um verkefni í bóklegum sem verklegum greinum.