Málstofa 7

Stofa L201

Rannsóknarkennslustund sem leið til starfsþróunar

Guðbjörg Pálsdóttir, lektor við HÍ
Guðný Helga Gunnarsdóttir, lektor við HÍ 

Í fyrirlestrinum verða kynntar rannsóknir á notkun rannsóknarkennslustundar (lesson study) í stærðfræðikennaranámi. Árin 2009 – 10 var hugmyndin um rannsóknarkennslustund kynnt og prófuð í námskeiðum í stærðfræðimenntun og það ferli rannsakað.  Haustið 2012 var gerð viðtalsrannsókn þar sem rætt var við stærðfræðikennara sem tekið höfðu þátt í þessum námskeiðum og höfðu starfað við kennslu í 1-2 ár. Markmiðið með því að vinna með rannsóknarkennslustund var að kennaranemar kynntust í námi sínu leiðum til starfsþróunar í námssamfélagi. Þeir fengu tækifæri til að prófa rannsóknarkennslustund og í seinni rannsókninni var kannað hvernig þessi reynsla hefði nýst þeim í starfi. Niðurstöður benda til að rannsóknarkennslustund sé góð leið til að efla faglega umræðu og ígrundun um kennslu og undirbúning hennar. Einnig kom fram í viðtölum að nýútskrifuðu kennararnir töldu sig hafa upplifað kosti þess að vinna saman að undirbúningi kennslu.  Þeir töldu rannsóknarkennslustund góða leið til starfsþróunar þar sem tækifæri gefst til að tengja saman fræði og framkvæmd.


 

Að byggja upp námssamfélög stærðfræðikennara

Guðný Helga Gunnarsdóttir, lektor við HÍ 

Sænsk menntamála yfirvöld hafa ákveðið að verja um 650 milljónum sænskra króna til að efla og styrkja stærðfræðikennslu í Svíþjóð á næstu þremur árum (http://matematiklyftet.skolverket.se ). Átakið er unnið í samráði við háskóla víða um landið og stærðfræðisetrið í Gautaborg (Nationelt Centrum for Matematikutbildning – http://www.ncm.gu.se/ ). Stærðfræðisetrið (NCM) hefur sett upp vef með margs konar stuðningsefni fyrir kennara og þá sem taka að sér að leiðbeina kennurum úti í skólunum. Áhersla er lögð á námssamfélög kennara á þeirra eigin vettvangi og skipulögð hafa verið námsferli sem hópar geta valið úr og notað til að dýpka þekkingu sína. Stuðst er m.a. við hugmyndir um rannsóknarkennslustundir (lesson study) og í hverju námsferli er gert ráð fyrir að kennarar undirbúi kennslu þar sem þeir prófa í starfi þær hugmyndir sem þeir hafa verið að kynna sér og ræða. Í fyrirlestrinum verður þetta átaksverkefni kynnt, markmið þess og skoðuð dæmi um það efni sem útbúið hefur verið til að styðja við starfsþróun kennaranna.


 

Efling stærðfræðihugsunar með heimspeki

Halla Jónsdóttir, aðjúnkt við HÍ

Fjallað verður um hvernig rannsóknarniðurstöður sænska stræðfræðingsins Gudrun Malmer og próf hennar til að athuga lestrarskilning hjá nemendum með stærðfræðiörðugleika annars vegar og hins vegar niðurstöður bandaríska heimspekingsins Matthew Lipmanns sem sýndu að nemendur sem unnið hefðu með heimspeki í grunnskóla sýndu miklar framfarir í stærðfræði. Þessar fræðilegu forsendur voru síðan notaðar í þróunarverkefni með elstu nemendum í grunnskóla á Íslandi.

Sagt verður frá þróunarverkefni í 9. bekk grunnskóla þar sem verkfærakista Malmer var notuð til greiningar og gerð grein fyrir niðurstöðum sem í ljós komu þegar greiningartæki hennar var beitt. Einnig hvernig leitað var í smiðju Lipmanns um hvernig styrkja megi og vinna með rökhugsun. Sagt verður frá helstu niðurstöðum þróunarverkefnisins, hvaða þættir styrktust einkum við þessa nálgun og því velt upp hvort vinna megi með fleiri þætti stærðfræðinnar á sama hátt.