Málstofa 1.1

Málstofa 1.1

Ekki hvað við kennum: Efling læsis og þróun kennsluhátta á unglingastigi

Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla (omar@hagaskoli.is)

Í Hagaskóla hefur verið unnið markvisst að því undanfarin ár að efla læsi nemenda með fjölbreyttum leiðum. Síðastliðið haust fór af stað þróunarverkefnið Efling læsis og þróun kennsluhátta í Hagaskóla sem er m.a. styrkt af Erasmus+ áætluninni. Fræðilegir ráðgjafar verkefnisins eru Ingvar Sigurgeirsson og Guðmundur Engilbertsson. Í málstofunni verður verkefnið kynnt stuttlega en aðaláhersla verður á að kynna leiðir við þróun aðferða og innleiðingu nýrra hugmynda tengdum læsi og fjölbreyttum kennsluháttum.

Vinna við læsisstefnu allra grunnskóla í Vesturbænum fór af stað skólaárið 2011-2012 en hún var fullgerð vorið 2013. Ýmis verkefni tengd læsisstefnunni eru hluti af skólastarfi í Hagaskóla meðal annars lesstund á hverjum degi þar sem allir í skólanum lesa. Kennarar hafa fengið fræðslu um mismunandi leiðir til læsis sem þeir nýta í sinni kennslu auk þess sem gripið er inn í lestrarvanda á fjölbreyttan hátt og eru snjalltæki meðal annars nýtt sem stuðningstæki. Samkvæmt Skólapúlsinun mælist ánægja af lestri á unglingastigi hvergi meiri en í Hagaskóla.

Árangursríkar aðferðir í námi og kennslu: Rannsóknir og námsárangur

Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA (ge@unak.is)

Rannsóknir gegna mjög mikilvægu hlutverki við að efla þekkingu á aðferðum í námi og kennslu sem skila góðum námsárangri. Rannsóknirnar eru hins vegar tíðar, framkvæmdar mjög víða og rannsóknarefnin oft á frekar afmörkuðum sviðum. Það getur því verið erfitt fyrir starfandi kennara að fylgjast með niðurstöðum þeirra og gera sér grein fyrir hvaða ljósi þær varpa á „hvað virkar best“ í námi og kennslu. Það er því afar gagnlegt fyrir kennara þegar rannsóknir eru dregnar saman með það að leiðarljósi að fá heildstæðri mynd af niðurstöðum þeirra. Slíkar yfirlitsrannsóknir (e. meta-analysis) sem einnig eru nefndar safngreiningar eða eftirgreiningar verða æ tíðari og gefa oft skýra mynd af tengslum aðferða og námsárangurs. Í málstofuerindinu verður fjallað um slíkar rannsóknir og sjónum beint að stærstu yfirlitsrannsókn á sviði menntunar (Hattie, 2009) og rætt um hvaða aðferðir í námi, kennslu og námsmati hafa hvað sterkust tengsl við námsárangur, samkvæmt henni.

Samvinnunám og skóli án aðgreiningar

Særún Magnúsdóttir, kennari í Naustaskóla (saerun@akmennt.is), og Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA (ge@unak.is)

Menntastefna um skóla án aðgreiningar og útkoma síðustu aðalnámskrár grunnskóla kalla á ýmsar breytingar í skólastarfi, m.a. ríkari áherslu á hæfnimiðað skólastarf en hingað til. Rétt er að huga vel að þeim náms- og kennsluaðferðum sem geta stuðlað að slíkum breytingum. Samvinnunám er vænleg leið til þess. Það stuðlar í senn að náms- og félagsfærni nemenda og fellur undir hæfnimiðað skólastarf. Það hæfir vel stefnu um skóla án aðgreiningar, þar sem fjölbreytileika nemenda er hampað og lögð er áhersla á að allir geti lært þó með ólíkum hætti sé. Niðurstöður rannsókna greina frá jákvæðum áhrifum samvinnunáms á náms- og félagslega þætti hjá ólíkum nemendahópum. Náms- og kennsluaðferðir undir hatti samvinnunáms ýta undir gagnrýna hugsun og stuðla að færni sem nauðsynleg er í námi og samskiptum við annað fólk í flóknu samfélagi. Í málstofunni verður sjónum beint að gildi samvinnunáms í skóla án aðgreiningar og hvernig samvinnunám stuðlar að æskilegum námsvenjum, byggir upp jákvæð samskipti milli nemenda sem skapa þeim reynslu sem þroskar þá félagslega, vitsmunalega og andlega. Þá verður velt upp þeirri spurningu hvernig innleiða megi samvinnunám á markvissan hátt í skóla án aðgreiningar?