Flýtilyklar
Efling stærðfræðilæsis á mið- og unglingastigi
Umsjón Þóra Rósa Geirsdóttir, sérfræðingur
Námskeiðið er ætlað kennurum og stjórnendum í grunnskólum.
Lögð verður áhersla á að byggja upp samfellu í skólanámskrá út frá aðalnámskrá, samræma markmið og leiðir í kennsluáætlunum og þróa vinnubrögð og kennsluhætti sem tengjast stærðfræði í samræmi við þarfir nemenda og kröfur um hæfni í stærðfræði. Nýtt verða vinnubrögð starfendarannsókna, samræðu, samvinnu, jafningjastuðnings og sjálfsrýni kennara.
Innihald og markmið
Að þróa vinnubrögð og kennsluhætti í stærðfræði á mið- og unglingastigi sem auka námsfærni, efla áhuga og skila auknum námsárangri. Að efla læsi í stærðfræði.
Námskeiðið samanstendur af fimm vinnustofum og skipulögðum verkefnum sem unnin eru á vettvangi. Hver vinnustofa skiptist í fræðslu og verkefnavinnu þar sem farið verður í inntak stærðfræðinnar, kennslufræði og námsleiðir. Þátttakendur setja sér starfstengd markmið og á milli vinnustofa er unnið að þeim með þróun náms- og kennsluhátta á vettvangi. Lögð verður áhersla á að skapa vettvang fyrir samræður og samvinnu kennara.
Vinnustofa 1
Umfjöllun um inntak stærðfræðinnar og kennslufræði. Þátttakendur ígrunda og meta kennsluáætlanir sínar með hliðsjón af hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Á vinnustofunni er unnið að því að svara spurningunni hvernig útfærum við hæfniviðmið í nemendavæn námsmarkmið?
Vinna á vettvangi: Kennarar endurskoða annaráætlanir og útfæra hæfniviðmið í nemendavæn námsmarkmið stærðfræðinnar sem sett eru fram í kennsluáætlunum. Kennarar ígrunda einnig spurninguna: Hvernig miðla ég námsmarkmiðum til nemenda?
Vinnustofa 2
Umfjöllun um fjölbreyttar leiðir í námsmati. Hvernig metum við hæfni? Þátttakendur ígrunda og meta kennsluáætlanir sínar út frá námsmati, gera tillögur að úrbótum og kynna þær og ræða.
Vinna á vettvangi: Kennarar ígrunda og endurskoða námsmat í annaráætlun stærðfræðinnar.
Vinnustofa 3 og 4
Umfjöllun um leiðir í hæfnimiðuðu stærðfræðinámi. Þátttakendur ígrunda og meta hvort kennsluáætlanir endurspegli áherslu á að efla hæfni. Þátttakendur skipuleggja náms- og kennsluáætlanir til styttri tíma þar sem fram koma markmið, mat með áherslu á leiðsagnarmat og leiðir til að ná markmiðunum.
Vinna á vettvangi: Kennarar ígrunda og endurskoða námsleiðir í kennsluáætlunum (hvernig er unnið að markmiðum).
Vinnustofa 5
Ígrundun, samræða og mat á framvindu verkefnisins og hugað að næstu skrefum.
Námskeiðið verður haldið í Háskólanum á Akureyri dagana: 28. ágúst, 23. október, 15. janúar, 5. mars og 7. maí.
Þátttökugjald er 18 000 krónur.
Þátttakendur frá grunnskólum Akureyrar greiða 12 000 krónur vegna Akureyrarsamnings.
Skráning á námskeið.