Innra mat á skólastarfi

Þróunarverkefni
Umsjón: Sólveig Zophoníasdóttir

Verkefnið hefur bæði faglegt og hagnýtt gildi og er sniðið sem heils árs þróunarverkefni. Verkefnið hefst með dagsnámskeiði að hausti, eftirfylgnifundir eru fjórir tveir á haustönn og tveir á vorönn. Lokafundur að vori.

Markmið innra mats, er að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskráa. Innra mati er ætlað að auka gæði skólastarfsins og tryggja að réttindi nemenda séu virt. Innra mat gefur upplýsingar um hverju þarf að breyta eða hvað þarf að bæta til að þeim markmiðum sem skólasamfélagið hefur sett og birtast í skólanámskrá hvers skóla. Kröfur til  innra mats koma að mestu utan frá en frumkvæði og vinna við skipulagningu framkvæmd innra mats og innleiðingu þess kemur innan frá. Grundvallaratriði er að niðurstöður mats hvetji til umbóta og auki hæfni til skólaþróunar.  

Hlutverk stjórnanda er meðal annars að stuðla að virkri og árangursríkri matsmenningu, auka gæði náms, stuðla að umbótum og tryggja að nemendur fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Hlutverk sitt rækir stjórnandi með því að stuðla að virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra í innra mati með fjölbreyttum og kerfisbundnum matsaðferðum.

Markmið verkefnisins er að auka hæfni stjórnenda til að koma á kerfisbundnu innra mati samofnu daglegu starfi og að skapa með þeim hætti virka matsmenningu innan skóla. Leiðir við innra mat eru fjölbreyttar og við val á þeim þarf að taka mið af þeim viðfangsefnum og markmiðum sem unnið er að hverju sinni. Virk matsmenning  kallar á lýðræðislegar matsaðferðir sem gera ráð fyrir virkni allra í mati á þáttum er snerta hagsmuni þeirra. Lýðræðislegar matsaðferðir eru t.d. þátttakendamiðað mat, jafningastuðningur og starfendarannsóknir. Í verkefninu er lögð er áhersla á hæfni þátttakenda til að beita starfendarannsóknum við innra mat og hvernig hægt er að flétta innra mati saman við hvern þátt skólanámskrár og viðhalda þannig  virku og kerfisbundnu mati í daglegu starfi skóla.

Þátttakendur vinna greiningarvinnu og leggja á grundvelli hennar fram drög að 3-5 ára matsáætlun fyrir skóla. Þá er unnið áfram með valinn þátt í matsáætlun og búin til framkvæmdaáætlun fyrir matsþáttinn. Framkvæmdaáætlunin er mótuð og henni fylgt eftir með aðferðum starfendarannsókna. Í kjölfar niðurstöðu mats er búin til umbótaáætlun fyrir matsþáttinn.