Málstofa 1.2

Málstofa 1.2

Meistaranám í stjórnun skólastofnana: Áhrif á starfsþróun og starfshæfni skólastjóra?

Anna Þóra Baldursdóttir, lektor við HA (anna@unak.is), og Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor við HA (sigridurs@unak.is)

Í þeirri rannsókn sem hér er kynnt voru tekin viðtöl við skólastjóra sem lokið höfðu meistaranámi með áherslu á stjórnun skólastofnana við Háskólann á Akureyri. Sumir voru þegar starfandi skólastjórar meðan á náminu stóð en aðrir voru ráðnir eftir að því lauk. Meðal annars var kannað hvaða hæfni þeim fannst þeir hafa öðlast í náminu og hvernig þeir nýttu hana til þess að efla skólastarf. Niðurstöður benda til þess að skólastjórunum fannst þeir öðlast aukna hæfni, bæði persónulega og faglega. Meðal annars töldu þeir að skilningur þeirra á skólastarfi og hlutverki þeirra sem skólastjóra hefði aukist og jafnframt að starfshæfni þeirra og sjálfstraust hefði eflst. Hins vegar gekk þeim misvel að nýta aukna þekkingu og hæfni til eflingar skólastarfs.



Þróun skólastarfs í Árborg í anda lærdómssamfélags

Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri í Árborg (skolathjonusta@arborg.is), og Þórdís H. Ólafsdóttir, kennsluráðgjafi við skólaþjónustu Árborgar 

Í málstofunni verður fjallað um það hvernig skólamálin í Árborg hafa verið endurskipulögð með þróun nýrrar skólaþjónustu þar sem hugmyndafræði lærdómssamfélagsins er höfð að leiðarljósi. Litið er á verkefnið sem þróunar- og námsferli sem byggist á sameignlegri ígrundun og faglegum samræðum helstu aðila skólasamfélagsins. Það er gert í þeirri viðleitni að byggja upp árangursríkt og öflugt skólastarf í leik-og grunnskólum. Unnið hefur verið að sameiginlegri markmiðssetningu og gagnrýnin umræða skólastjórnenda, skólayfirvalda, starfsfólks skólaþjónustu, kennara og foreldra hefur farið fram, m.a. til að styrkja hið faglega tengslanet. Lögð er rækt við heiltæka hugsun þar sem allir stefna í sömu átt í þeirri viðleitni að bæta námsárangur og líðan nemenda. Eitt af mikilvægustu samstarfsverkefnunum hefur verið að móta nýjar áherslur í vinnu með læsi í leik- og grunnskólum Árborgar. Þessar nýju leiðir eru þegar að skila góðum árangri og í málstofunni verður meðal annars fjallað um þær og þær settar í fræðilegt samhengi.


 

Þróun lærdómssamfélags í grunnskólum Eyjafjarðar

Birna María Brattberg Svanbjörnsdóttir, forstöðumaður við MSHA (birnas@unak.is), og Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri í Oddeyrarskóla (kristinj@akmennt.is)

Við endurskoðun stjórnkerfis í skólum á Akureyri  árið 2011 var tekin ákvörðun um að efla markvisst samstarf og teymisvinnu í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar. Þetta leiddi til þess að ákvörðun var tekin um þróa og innleiða hugmyndafræði lærdómssamfélags í skólum Akureyrarbæjar. Myndaður var stýrihópur til að halda utan um vinnuna og í honum voru fræðslustjóri, skólastjórnendur og ráðgjafi frá miðstöð skólaþróunar við HA. Ákveðið var að vinna fyrst með stjórnendum og síðan kennurum og öðrum í skólasamfélaginu. Í framhaldinu var öðrum skólastjórnendum úr Eyjafirði boðið að taka þátt í vinnunni sem hófst formlega haustið 2013. Gengið var út frá því að lærdómssamfélag fæli í sér þrjár megin hugmyndir:

  • Stöðug áhersla á að allir nemendur læri.
  • Samstarfsmenning og eindrægni um stuðning við nám bæði nemenda og fullorðinna.
  • Árangursmiðaðir starfshættir sem drífa stöðugar umbætur áfram.

Á yfirstandandi skólaári var mikill þungi lagður í að leita leiða til að efla læsi og hópurinn sammæltist um að lögð yrði megináhersla á að móta læsisstefnu. Í málstofunni verður greint frá vinnunni sem átti sér stað í þróunarstarfinu, hverju hún hefur skilað og hver eru næstu skref.