Málstofa 1.5

Málstofa 1.5 

 

Skilaboðaskjóðan í Mánagarði

Íris Dögg Jóhannesdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Mánagarði (iris@fs.is)

 Skilaboðaskjóðan á leikskólanum Mánagarði. Lestur er undirstaða alls náms og því mikilvægt að leggja grunninn strax í leikskóla. Í hversdagslífinu sjá börn allskonar tákn, þau læra að þekkja myndir og tákn sem standa fyrir ákveðna hluti og þau taka oft ákvarðanir út frá þeim. Leikskólinn Mánagarður starfar eftir bandarísku uppeldisstefnunni HighScope og þar er lögð áhersla á merkingar og sýnileika. Skilaboðaskjóðan á Mánagarði er stór hluti af því að ýta undir áhuga á lestri. Á hverjum morgni er farið yfir skilaboðaskjóðu á hverri deild með barnahópnum og börnin hvött til að „lesa” sjálf. Skilaboðin eru teikningar, orð, stafir og/eða tölustafir og börnin „lesa“ um atburði sem hafa áhrif á daginn þeirra. Með því að númera skilaboðin er ýtt undir stærðfræði því börnin læra tölustafina, læra að telja og átta sig á fjölda og magni. Skilaboðin hafa persónulega þýðingu fyrir börnin og því hafa þau mikinn áhuga á þeim. Skilaboðaskjóðan ýtir undir lestur, eflir málþroska og hljóðkerfisvitund, hvetur til samræðna, lesturs og skriftar og börnin læra lestraráttina. Skilaboðaskjóðan er árangursrík leið til að efla læsi.



Við erum öll í sama liði: Bernskulæsi í leikskólum Reykjanesbæjar

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi í Reykjanesbæ (ingibjörg.hilmarsdottir@reykjanesbaer.is), og Kolfinna Njálsdóttir, sérkennsluráðgjafi við leikskóla  Reykjanesbæjar

Í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði hefur verið unnið að þróunarverkefni í  leik- og grunnskólum  sem ber heitið Framtíðarsýn í menntamálum  með áherslu á grunnþættina læsi og stærðfræði. Skólastjórar leik- og grunnskólanna  settu sér markmið og mótuðu sér  læsisstefnu út frá hugmyndafræði hvers skóla. Leikskólarnir hafa unnið að þessu verkefni með ýmsu móti  og eftir fjölbreyttum leiðum. Lögðu leikskólastjórar fram áætlanir til fimm ára í upphafi verkefnisins þar sem kom fram hvernig skyldi unnið með þessa grunnþætti í öllum þáttum leikskólastarfsins.  Höfuðáherslan hefur verið á samstarf milli leikskóla og skólastiga og einnig að virkja foreldra í leikskólanámi barna sinna. Mikilvægt er að geta metið hvort nýjar leiðir í námi ungra barna og áherslur skili árangri og erum við þá sérstaklega að horfa á bernskulæsið.  Ákveðið var að nýta Hljóm-2 betur sem tæki til að meta árangur  og einnig Leið til læsis skimunarpróf, sem lagt er fyrir að hausti  í fyrsta bekk grunnskóla. Það sem meðal annars var skoðað og nálgast á nýjan hátt voru niðurstöður úr Hljóm-2  sem er notað af öllum leikskólum á svæðinu.  Prófið hafði verið notað í um 10-12 ár, en ekki hafði  þó  verið rýnt í niðurstöður eða skoðað hvar væru sóknarfæri til að gera betur og markmiðið er að bæta námið  í leikskólanum með tilliti til bernskulæsis og að styðja hvern einstakling til að ná sem bestum tökum á lestrarfærni. Í málstofunni verða þær leiðir kynntar sem leikskólar Reykjanesbæjar hafa  farið til að efla læsi og einnig hvernig árangurinn hefur verið metinn.


 

Leikum okkur með orðum: Þróunarverkefni með tvítyngdum börnum og foreldrum þeirra

Nichole Leigh Mosty, skólastjóri á leikskólanum Ösp (nichole.leigh.mosty@reykjavik.is)

Í Leikskólanum Ösp höfum við verið að þróa og bæta kennsluhætti og fagleg vinnubrögð í tengslum við málrækt og læsi með sérstakri áherslu á tvítyngd börn og foreldra þeirra. Í erindinu verða kynntar fjölbreyttar leiðir til málörvunar. Í Leikskólanum Ösp leggjum við áherslu á samstarf við foreldra að málörvun. Við höfum meðal annars boðið upp á íslenskunámskeið fyrir foreldra þeim að kostnaðarlausu, bakpoka með verkefnum til málörvunar  heima og unnið er að myndbandi sem lýsir hagnýtum aðferðum í málörvun.  Við höfum unnið með það að efla skilning á mikilvægi málræktar bæði  hjá starfsfólki og foreldrum. Grunnur í okkar starfsemi og í rauninni gildi er falið í því að við vinnum óháð tungumálabakgrunni og einbeitum okkur að aðferðum og kenningum um málþroska almennt. Verkefnið er mikilvægt því það stuðlar að uppbyggilegu samstarfi milli heimilis og skóla, sérstaklega hvað varðar tví- og fjöltyngd börn. Vísbendingar eru um að þær starfsaðferðir sem við höfum þróað í Leikskólanum Ösp skili árangri hjá börnum. Mikilvægt er að styðja betur við börnin með því að efla enn frekar samskipti og samstarf við foreldra. Verkefnin sem  fjallað er um í erindinu fela í sér tækifæri til að ná þessum tengslum.