Málstofa 2.3

Málstofa 2.3

 

Ný námskrá VMA: Ytri þættir og áhrif þeirra

Benedikt Barðason, áfangastjóri við VMA (bensi@vma.is), og Anna María Jónsdóttir, verkefnastjóri við VMA (annamaria@vma.is)

Haustið 2015 verður tekin upp ný námskrá í Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA) sem byggir á lögum um framhaldsskóla frá 2008 og aðalnámskrá frá 2011. Aðalnámskráin byggir á sex grunnþáttum sem eru sameiginlegir skólastigunum þremur leik-, grunn- og framhaldsskólastiginu. Einnig er öllu námi á framhaldsskólastigi að mestu skipt niður á þrjú hæfniþrep. Í lögunum er það hlutverk framhaldsskólans undirstrikað að hann stuðli að alhliða þroska, virkri þátttöku, bjóði nám við hæfi og efli umburðarlyndi nemenda. Í lögunum er líka hnykkt á ótvíræðum rétti nemenda til að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs.

Í málstofunni er aðdragandi breytinganna rakinn stuttlega, ólík staða bók- og verknáms, hvernig grunnþættirnir, hæfniviðmið háskóla og þrepaskipting hefur áhrif á brautalýsingar. Við breytingarnar þurfti VMA að marka stefnuna sem m.a. tengdist gildum skólans, lokamarkmiðum náms við skólann, skólabrag og endurskoðun á námsframboði. Samhliða breytingunum voru búnir til nýir áfangar með það að markmiði að rækta það besta í nemandanum, glæða áhuga hans á náminu, efla sjálfstæði hans, sjálfstraust, félagsþroska og samskiptahæfni.

Búa einstaklinginn betur undir að takast á við áskoranir daglegs lífs – sem er eitt þema ráðstefnunnar.


 

Heilsumarkmiðin mín

Rakel Dögg Hafliðadóttir, námsráðgjafi í Framhaldsskólanum á Húsavík (rakel@fsh.is), Ingólfur Freysson, kennari og brautarstjóri í Framhaldsskólanum á Húsavík (ingolfur@fsh.is), Gunnar Árnason, kennari í Framhaldsskólanum á Húsavík (gunniarna@fsh.is), og Brynhildur Gísladóttir, skólahjúkrunarfræðingur í Framhaldsskólanum á Húsavík (brynhildur@fsh.is)

Þetta er annar veturinn sem verkefnið er í gangi og beinist sérstaklega að nýnemum við FSH. Verkefnið felst annars vegar í fyrirlögn spurningalista í fjögur skipti yfir skólaárið, sem inniheldur spurningar tengdar lifnaðarháttum. Hins vegar felur það í sér að bæði í upphafi haust-og vorannar setja nemendur sér mælanleg markmið innan fjögurra meginþátta; svefnvenjum, andlegri líðan, mataræði og hreyfingu. Markmiðasetning er framkvæmd í einstaklingsviðtali við einn af skipuleggjendum verkefnisins. Verkefnisstjórnin er skipuð þremur starfsmönnum skólans og einum aðila frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, þ.e. íþróttakennara, námsráðgjafa, sálfræðikennara og hjúkrunarfræðingi. Á skólaárinu fara nemendur fjórum sinnum í viðtöl þar sem staða og árangur er metinn. Að auki fer fram markviss fræðsla og verkefnavinna í lífsleiknitímum og bóklegum íþróttatímum við skólann er snúa að meginþáttunum fjórum. Áhersla er lögð á að meta heilsufarslegan ávinning þess að setja sér skýr markmið um bætta lifnaðarhætti, sem og að ferlimat sé framkvæmt gegnum sjálfsmat nemenda á verkefninu. Náin samvinna hefur verið höfð við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og stýrihóp heilsueflandi framhaldsskóla í tengslum við verkefnið. Einnig hefur samstarf verið við Háskóla Íslands, varðandi möguleikann á að meistaranemi/ar í íþrótta-og heilsufræðum / lýðheilsufræðum geti nýtt sér verkefnið. Á áætlun er að bjóða nemendum á 2., 3. og 4. ári náms að halda áfram að vinna að heilsumarkmiðum sínum.