Málstofa 2.4

Málstofa 2.4

 

Leiðir sem efla læsi: Nám barna – hlutverk foreldra

Ingibjörg Auðunsdóttir, sérfræðingur á MSHA (ingibj@unak.is)

Ýmsar erlendar og innlendar rannsóknir staðfesta að þátttaka foreldra í námi barna sinna, eða skortur á henni, hafi umtalsverð áhrif á árangur barnanna. Einnig hefur lengi verið vitað að stuðningur og reynsla barns, sem það fær innan fjölskyldu, ekki síst styðjandi samskipti við foreldra og sögulestur hefur áhrif á málþroska og læsisnám barnsins.  Áhrif fjölskyldu á nám barns hætta ekki þegar það hefur skólagöngu. Því er mikilvægt að rannsaka samstarfið á milli skólans og fjölskyldunnar.   

Markmið þess hluta Byrjendalæsisrannsóknarinnar sem kynntur verður í erindinu er að kanna foreldrasamstarf í tengslum við læsismenntun. Með rannsókninni er leitast við að greina þarfir foreldra, hvernig hægt er að styrkja samstarfið og finna leiðir til að efla foreldra sem stuðningsaðila við læsisnám barna sinna. Viðtöl voru tekin við tæplega 40 foreldra barna í 1. og 2. bekk í sex þátttökuskólum á árunum 2012 – 2014. Foreldrar voru meðal annars spurðir um hvernig reglulegu foreldrasamstarfi um læsisnám barnsins er háttað, hvernig læsisnám barnsins fer fram heima og um hlutverk aðila. Í erindinu verður sagt frá reynslu foreldra barnanna af samstarfi við umsjónarkennara um læsisnám barnanna.  

Nokkur einkenni starfshátta kennara sem nota kennslulíkan Byrjendalæsis

Halldóra Haraldsdóttir, lektor við HA (hh@unak.is) 

Skilgreiningarnar á læsi hafa á síðustu áratugum breyst frá þröngu sjónarhorni um það að lesa og skrifa til víðari skilgreiningar um að læsi feli m.a. í sér talmál, hlustun, lestur, ritun og skilning. Virkur lesandi notar jafnframt fyrri þekkingu sína, beitir gagnrýninni hugsun og skapar merkingu þegar hann les. Að kenna börnum lestur felur því í sér fjölbreytilegar námsathafnir á víðtækum grunni. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir afmörkuðum niðurstöðum úr rannsókn á Byrjendalæsi en markmið rannsóknarinnar er að skoða læsismenntun sem fram fer undir merkjum kennslulíkansins. Unnið verður úr gögnum sem aflað var í vettvangsathugunum, viðtölum við kennara og nemendur og rituðum gögnum í átta þátttökuskólum. Sjónum verður beint að tilhögun kennslu í völdum þáttum læsiskennslu s.s. stigskiptum stuðningi, námsaðlögun, samvinnu nemenda og bekkjarstjórnun auk beinnar læsiskennslu. Niðurstöður verða bornar saman við erlendar rannsóknarniðurstöður um skilvirka lestrarkennara. Leitast verður við að svara spurningunni; eru kennsluaðferðir í Byrjendalæsi í takt við það sem rannsóknir sýna að beri árangur og efli læsi?