Málstofa 2.5

Málstofa 2.5

 

Námsaðlögun og þátttaka nemenda í læsisnámi á yngsta stigi grunnskóla

Rúnar Sigþórsson, prófessor við HA (runar@unak.is), og Kjartan Ólafsson, lektor við HA (kjartan@unak.is)

Í þessari málstofu verða kynnt gögn úr yfirstandandi rannsókn á læsismenntun á yngsta stigi grunnskóla. Kynntar verða niðurstöður úr svörum um það bil 600 kennara í 1.–4. bekk við spurningum úr spurningakönnun um aðferðir þeirra að laga nám að ólíkum þörfum nemenda og stuðla að virkni nemenda og þátttöku í ákvörðunum um námið. Sextíu og þrjú prósent kennaranna starfa við skóla sem tekið hafa upp Byrjendalæsi í samvinnu við miðstöð skólaþróunar við HA en þrjátíu og sjö prósent svarenda starfa við skóla sem ekki hafa tekið þá aðferð upp. Þetta gefur færi á að draga upp mynd af starfsháttum kennara í hvorum hópi skóla fyrir sig. Frumniðurstöður sýna að mikill meirihluti svarenda telur sig allaf eða næstum alltaf geta lagað markmið námsins, skipulagið á vinnu nemenda, skil verkefna og námsumhverfi að þörfum nemenda. Þegar spurt var um einstaka þætti sem ætla má að einkenni námsaðlögun, svo sem stigskiptan stuðning, þátttöku og val nemenda, leiðsagnarmat og samvinnunám, benda svörin aftur á móti til þess að námsaðlögun og þátttaka nemenda sé ekki eins langt á veg komin. Í málstofunni verða þessi svör greind nánar með það fyrir augum að draga upp skýrari mynd af tilhögun námsaðlögunar í skólum svarenda.


 

Hugsmíðar og hæfnimiðað nám í Byrjendalæsi

Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor við HA (sigridurs@unak.is), og Rúnar Sigþórsson, prófessor við HA (runar@unak.is) 

Hugsmíðar og hæfnimiðað nám í Byrjendalæsi Sigríður Margrét Sigurðardóttir kennaradeild HA, sigridurs@unak.is Rúnar Sigþórsson kennaradeild HA, runar@unak.is Í Byrjendalæsi, sem um 80 skólar hafa innleitt á undanförnum árum í samvinnu við miðstöð skólaþróunar við HA, er meðal annars lögð áhersla á nám í anda hugsmíðahyggju og ýmsa hæfniþætti sem einnig er lögð áhersla á í Aðalnámskrá grunnskóla. Auk grunnþátta í læsi á borð við lestur, ritun og tjáningu, má nefna námsvitund, samvinnuhæfni, gagnrýna hugsun, sköpun, sjálfstæði í vinnubrögðum og jákvætt viðhorf til náms. Í þessu erindi verður fjallað um það sem fram kemur í viðtölum við kennara í sex Byrjendalæsisskólum um eigin kennslu og árangur nemenda í þessum hæfniþáttum. Í viðtölunum telja flestir viðmælenda að þátttaka skólanna í Byrjendalæsi hafi aukið meðvitund þeirra sjálfra og áherslu á ofangreinda þætti í læsisnámi nemenda og aukið árangur nemenda í þeim. Í erindinu verður einnig hugað nánar að mati á árangri nemenda í ofangreindum hæfniþáttum, bæði í formlegum læsisprófum sem nemendur í Byrjendalæsisskólum taka, í samræmdu prófi í íslensku í 4. bekk og í námsmati kennara sjálfra. Fátt bendir til að þessi árangur sé metinn í framangreindum prófum en í erindinu er einnig leitað svara við því hvaða viðmið kennarar leggja til grundvallar í sínu námsmati, hversu formlegt það er og á hvaða gögnum það er byggt.