Málstofa 5

Stofa L101

Menntaskólinn á Tröllaskaga í ljósi hugmynda um sjálfbærni og staðbundna menntun

Þuríður Jóhannsdóttir, dósent við HÍ
Lára Stefánsdóttir, skólameistari við Menntaskólann á Tröllaskaga

Í Menntaskólanum á Tröllaskaga sem þjónar dreifbýlu samfélagi við utanverðan Eyjafjörð er leitast við nýta möguleika í lögum um framhaldsskóla frá 2008 og nýrri aðalnámskrá til að bjóða í senn fjölbreytt nám í hefðbundnum bóknámsgreinum og leggja ríka áherslu á skapandi greinar, tölvur og tækni og góð tengsl við umhverfi og grenndarsamfélag. Einkunnarorð skólans eru: Frumkvæði – sköpun – áræði og sem dæmi um óhefðbundnar námsgreinar má nefna frumkvöðlafræði, tölvuleikjaforritun, brimbrettareið og útivist í snjó. Nemendur eru um 150-200, þar af 40-50 í fjarnámi. Allir áfangar eru skipulagðir í kennsluumhverfi á neti og er stað- og fjarnemum kennt saman. Flestir staðnemendur þurfa að taka hluta áfanga í fjarnámi frá öðrum skólum. Netið og upplýsingatæknin eru þannig liður í því að hægt sé að reka skóla í heimabyggð í svo litlu samfélagi.  En þótt tæknin sé verkfæri sem nýtist í skólaþróun þá er það sýnin og hugmyndafræðin sem skólastarfið byggir á sem skiptir máli og verður til umfjöllunar. Kannað verður að hvaða leyti sú sýn sem skólastarfið byggir á samræmist hugmyndum um sjálfbærni í menntun og skólastarfi og staðarbundna menntun (e. place-based education). Um er að ræða tilviksrannsókn sem byggir á samræðu fyrri höfundar við skólameistara í kjölfar vettvangsheimsóknar í skólann á haustönn 2013. Viðtöl við kennara ásamt stefnuskjölum og fjölbreyttu efni á vef skólans eru nýtt sem gögn við greiningu stefnu og framkvæmdar.


 

Leitin að leiðinni einu

Ingibjörg Frímannsdóttir, lektor við HÍ

Kennsla felur í sér sífellda leit að hinni einu réttu kennsluleið. Við skipulagningu námskeiða er eðlilegt að spurt sé, hvaða kennsluaðferð henti best.  Í námskeiðinu Talað mál og ritað, við kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, sem á annað hundrað stað- og fjarnemar sækja, hefur á síðustu misserum verið leitað svara við þessari spurningu og ýmsar aðferðir reyndar; samkennsla stað- og fjarnema, jafningjamat og hópaskipting þvert á námsleiðir og fleira.

Á haustmisseri 2013 var enn ein tilraunin gerð í námskeiðinu Talað mál og ritað og að þessu sinni gerð tilraun með vendikennslu en það er sú kennsluaðferð sem kastljósinu er beint að þessi misserin. Við skipulagningu námskeiðsins voru stuttar upptökur með afmörkuðu efni settar á vefinn (Moodle) og hóptímar skipulagðir í framhaldinu þar sem unnið var með það efni sem fjallað var um í upptökunum. Nemendur höfðu val um að mæta í vinnustofur annaðhvort í kennslustofu eða á vefnum.

Kynnt verður hvernig til tókst með vendikennsluna; hlustun og áhorf, og gerð grein fyrir virkni nemenda í vinnustofum. Svarað verður spurningunni  um hvort þessi kennsluaðferð hafi reynst vel, meðal annars með hliðsjón af niðurstöðum úr kennslukönnun.


 

Listin að kenna í fjölbreyttum nemendahópi

Jóhanna Karlsdóttir, lektor við HÍ
Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor við HÍ

Í erindinu verður kynnt rannsókn þar sem skoðað var hvernig kennarar skipuleggja nám og kennslu í fjölbreyttum nemendahópi. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast þekkingu og skilning á því hvernig kennarar bregðast við stefnu skólayfirvalda um skóla án aðgreiningar og veita nemendum jafngild tækifæri til náms og þroska með því að mæta náms- og félagslegum þörfum þeirra. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar byggist á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar og kennslufræði í anda þeirrar stefnu. Lögð er áhersla á styrkleika og áhuga nemenda og tekið tillit til aðstæðna þeirra. Námsumhverfi er sveigjanlegt og hvetjandi. Kennslufræðileg hæfni gerir kennurum kleift að koma til móts við ólíka getu og þarfir nemenda með því að aðlaga inntak, aðferðir, námsefni, námsumhverfi og markmið þegar þeir skipuleggja nám og kennslu fyrir alla nemendur. Rannsóknin var eigindleg og gögnum aflað með viðtölum og vettvangsathugunum í fimm skólum. Þátttakendur voru tólf grunnskólakennarar.

Niðurstöður gefa til kynna að samstarf og teymiskennsla er mikilvæg, kennarar fá stuðning hver af öðrum, ábyrgð dreifist, fleiri hugmyndir og lausnir verða til og tækifæri skapast til umræðu. Nemendur fá tækifæri til að blómstra við slíkar aðstæður þar sem teymi kennara hefur meiri möguleika á að skipuleggja fjölbreytt skólastarf en einyrkjar.