Snjalltæki í skólastarfi

Umsjón: Sólveig Zophoníasdóttir

http://www.chinadaily.com.cn/photo/2013-08/21/content_16912178.htmMiðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri heldur námskeið í notkun snjalltækja í skólastarfi. Markmiðið er að skapa vettvang þar sem kennarar geta komið saman, lært saman, deilt hugmyndum og reynslu og prófað sig áfram með snjalltæki og smáforrit sem nýtast í skólastarfi.

Í aðalnámskrá grunnskóla (2011) er lögð rík áhersla á tölvunotkun og samskiptatækni og litið á tölvur og upplýsingatækni sem sjálfsögð verkfæri til fjölbreyttrar merkingarsköpunar og miðlunar í daglegu skólastarfi. Í námskránni er einnig lögð áhersla á að samþætta upplýsinga og tæknimennt (UT) á þverfaglegan hátt við flest svið skólastarfs. Nám í notkun snjalltækja í skólastarfi á sér ekki stað með einum tilteknum hætti heldur á fjölbreyttan hátt og er góð þekking og hæfni til að nota snjalltæki liður í að ná markmiðum aðalnámskrár.

Í menntunarfræðum hafa verið skilgreindir fjórir grundvallar þættir sem sagðir eru skipta sköpum fyrir einstaklinga sem vilja læra að nota snjalltæki í skólastarfi. Þessir þættir eru að námið þarf að vera í samhengi við fyrra nám einstaklings, kalla á virkni og hlutdeild hans, eiga sér stað í félagslegu samhengi og krefjast ígrundunar (Barak, 2006; Koehler og Mishra, 2009). Við skipulag og framkvæmd námskeiðsins verða þessir þættir ásamt áherslum aðalnámskrár hafðir að leiðarljósi.

Í aðalnámskrá er lögð áhersla á að nemendur þroski með sér ákveðna  lykilhæfni. Á námskeiðinu verða viðfangsefnin valin með hliðsjón af lykilhæfniflokkunum sem eru: tjáning og miðlun, skapandi og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna, nýting miðla og upplýsinga og ábyrgð og mat á eigin námi. Með lykilhæfni að leiðarljósi nota þátttakendur og læra á snjalltæki til að skipuleggja nám og kennslu. Á námskeiðinu gefst þátttakendum tækifæri til að efla hæfni sína með fjölbreyttum æfingum og eftirfylgd, fræðast, æfa sig og ræða saman um reynslu sína og þekkingu.

Markmið og tilgangur, að:

 • efla með þátttakendum áhuga og vilja til þess að læra um og kynna sér möguleika UT í námi og kennslu,
 • auka þekkingu, leikni og hæfni þátttakenda til að velja viðeigandi UT verkfæri til náms og kennslu,
 • skapa vettvang og styðja þátttakendur til að prófa og þróa fjölbreyttar leiðir til að nota UT í skólastarfi,
 • varpa ljósi á möguleika UT til að efla lykilhæfni nemenda.

Innihald námskeiðsins:

Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að þátttakendur endurskoði náms- og kennsluaðferðir m.t.t. þeirrar lykilhæfni sem nútíminn kallar á.  Gagnrýnin hugsun, sköpun, samskipti og samvinna eru hæfniþættir sem taldir eru skipta sköpum í nútímasamfélagi. UT er þverfaglegt verkfæri sem hægt er að nota líkt og aðrar bjargir til þess að auka fjölbreytni og nýsköpun í námi og kennslu. Á námskeiðinu verður fléttað saman fræðslu, æfingum sem krefjast virkni þátttakenda, ígrundunar og samræðu. 

Námskeiðið er samanstendur af fjórum vinnustofum sem hver er fjórar kennslustundir (160 mín).

Vinnustofurnar:

Vinnustofa 1 – náms- og kennsluaðferðir
Hvernig þjónar UT markmiðum náms og kennslu?

 • Námskeiðið kynnt
 • UT samþætt skólastarfi/notkun snjalltækja
  • Líkan TPACK/TVK (tækni, viðfangsefni, kennslufræði)
  • Hvaða þættir skipta máli þegar UT og notkun snjalltækja er samþætt skólastarfi?
 • Náms- og kennsluaðferðir
  • Hvernig er hægt að flétta UT á öruggan og ábyrgan hátt inn í nám og kennslu?
  • Hvernig styður upplýsingatækni við mismunandi náms og kennsluaðferðir?
 • Ný tækifæri metin
 • Samræða (hindranir og lausnir) og skráning

Vinnustofa 2 – skipulag og áætlanir
Að setja það sem hefur verið skipulagt og undirbúið í ferli sem fylgt er eftir og metið.

 • Fjallað um fjölbreytt skipulagsforrit og hvernig þau nýtast í skólastarfi
  • Náms- og kennsluáætlanir
  • Námsmat
  • Sjálfsmat
  • Flokkun gagna
  • Æfing
   • Netverkfæri sem styðja við skipulag og utanumhald náms og kennslu og fleira
   • Samræða og skráning

Vinnustofa 3 –  samskipti og samvinna
Merkingarbært og lifandi nám á sér stað þegar einstaklingurinn á virka hlutdeild í námi sínu og í samstarfi og samvinnu við aðra.

 • Fjallað um möguleika samskiptaforrita og hvernig þau geta nýst í námi og kennslu
 • Æfing
 • Samræða og skráning

Vinnustofa 4 – sköpun og miðlun
Sköpun snýst um ótal úrlausnarefni og hægt er að stuðla að henni með ýmsum ráðum og leiðum.

 • UT verkfæri/snjalltæki sem styðja við, hvetja til og nýtast til sköpunar skoðuð og hvaða möguleika UT/smáforrit bjóða uppá til miðlunar
 • Æfing
 • Samræða og skráning

Vinna á milli vinnustofa og eftirfylgd
Þátttakendur framkvæma náms- og kennsluáætlanir sínar úti í skólunum og fá endurgjöf á vinnustofum. Búinn verður til vefur fyrir námskeiðið og hann notaður samhliða námskeiðinu, þar verður safnað saman upplýsingum um eitt og annað sem snertir notkun snjalltækja í skólastarfi og samfélagsmiðlar notaðir markvisst til að ræða saman og skiptast á hugmyndum og góðum ráðum.