Valmynd Leit

Mįlstofur

 Málstofa 1

Hin lengsta ferð byrjar með einu skrefi: Vinna með heimsálfurnar sjö
Anna Sigrún Rafnsdóttir annas@akmennt.is og Margrét Bergmann Tómasdóttir margretberg@akmennt.is, kennarar í Síðuskóla

Málstofa þessi fjallar um vinnu hjá nemendum og kennurum  í 2. bekk Síðuskóla vorið 2014. Kveikjan að þessu verkefni var sú að í árganginum eru nemendur frá fjórum heimsálfum ( Afríku, Asíu, N- Ameríku og Evrópu). Helstu markmið voru þau að nemendur kynntust því að til eru margar þjóðir, tungumál, ólíkir siðir og venjur í heiminum.  Auk þess sem áhersla var lögð á að nemendur lærðu um sérnöfn og samnöfn, og fengju þjálfun í lestri, hlustun, ritun og tjáningu. Í málstofunni munum við kynna nánar viðfangsefni nemenda sem voru fjölbreytt og skemmtileg og mæltust vel fyrir.  Verkefnið ýtti undir áhuga nemenda á umheiminum og jók virðingu fyrir ólíkum lifnaðarháttum í mismunandi löndum. 

Hvað býr í hafinu okkar: Kynning á þemaverkefni í anda byrjendalæsis
Guðný S. Ólafsdóttir gudny@dalvikurbyggd.is og Hólmfríður Katla Ketilsdóttir katla@dalvikurbyggd.is, kennarar í Dalvíkurskóla

Verkefnið er samvinnuverkefni 1 og 2 bekkjar  þar sem nemendur vinna í aldursblönduðum hópum. Í erindinu verða kynnt markmið og framkvæmd verkefnisins þar sem nemendur fá tækifæri til að upplifa hluti og fyrirbæri og kanna nánasta umhverfi sem snýr að hafinu og nýtingu sjávarafla. Markmið með verkefninu er að auka lestrarfærni nemenda, orðaforða og ritun, að nemendur fái innsýn í sjávarútveginn og störf við hann, kynnist mismunandi fiskategundum og geri sér grein fyrir að maðurinn er hluti af náttúrunni og lífsafkoma hans byggist á samspilinu við hana. Verkefnið er samþætt öðrum námsgreinum og vonumst við til að geta veitt kennurum hugmyndir og vakið þá til umhugsunar à hvernig hægt er að nýta nærumhverfi à sem fjölbreyttastan hátt. 

Ipad í Byrjendalæsiskennslu
Ragnheiður Magnúsdóttir ragnmagn@kopavogur.is, Svava S. Svavarsdóttir svavas@kopavogur.is, Brynhildur Helga Nikulásdóttir brynhildurhelga@kopavogur.is og Lilja Björk Baldvinsdóttir liljabb@kopavogur.is,  kennarar í Salaskóla

Við í Salaskóla höfum verið að vinna að þróunarverkefni tengt spjaldtölvum og því fengið tækifæri til að flétta það inn í Byrjendalæsið. Á þessari málstofu komum við með hugmyndir um hvernig hægt er að nýta sér spjaldtölvur í Byrjendalæsiskennslu. Til dæmis er hægt að nýta spjaldtölvuna til þess að hlusta á bókina, æfa sögugerð, málfræðiæfingar, ritun og margt fleira. Einnig er spjaldtölvan tilvalið tæki fyrir sérkennslu. Forritin sem við vinnum meðal annars með eru Puppet pals, Bitsboard, Book creator og Explain everything.


Málstofa 2

Sjóræningjarnir í næsta hús
Þórey Gylfadóttir thorey.gylfadottir@reykjavik.is, kennari í Norðlingaskóla

Kynning á kennsluáætlun fyrir nemendur í 3. og 4. bekk úr barnabókinni Sjóræningjarnir í næsta húsi. Söguþráðurinn er í bundnu máli í þýðingu Braga Baggalúts sem er þekktur fyrir gæðatexta. Fjallað verður um hvernig kennsluáætlunin er uppbyggð til að fanga athygli nemenda. Farið verður í verkefnavinnu nemenda sem byggist upp á ritunarverkefnum, lestri, leikrænni tjáningu og stöðvavinnu. Ritunarverkefni sem nemendur unnu verða til sýnis.

Sófus og Svínið: Kennsluáætlun í 1. og 2. bekk
Hulda Svanbergsdóttir hulda@hafralaekjarskoli.is, kennari í Hafralækjarskóla

Í kennsluáætluninni sem kynnt er var unnið með samþættingu íslensku og myndmenntar. Megin markmiðið var að vekja áhuga nemenda á myndlist og fá þá til að tjá sig um hana jafnt í máli, myndum og ritun. Til grundvallar lá texti bókarinnar Sófus og svínið sem er um Sófus myndlistarmann og aðstoðarmann hans sem er svín. Myndskreyting bókarinnar byggir á þekktum málverkum erlendra meistara. Í málstofunni verður farið í gegnum vinnu nemenda sem byggir á hugmyndafræði byrjendalæsis og sýnd verkefni sem þeir gerðu.

Söguaðferð og Byrjendalæsi: Samþætting læsis, samfélagsgreina og náttúrufræði í 3. bekk
Sigrún K. Ragnarsdóttir sigkr@kaks.kopavogur.is og Þóra Haraldsdóttir thhara@kask.kopavogur.is, kennarar í Kársnesskóla

Í Kársnesskóla hafa kennarar unnið að samþættingu Söguaðferðar og Byrjendalæsis. Í málstofunni verður sagt frá verkefni þar sem nemendur sköpuðu sína eigin sveit. Nemendur unnu í hópum þar sem þeir kynntu sér hinar ýmsu búgreinar s.s. fjárbú, kúabú, svínabú, garðyrkju og fiskeldi. Samhliða voru unnin fjölbreytt verkefni í Byrjendalæsi. Verkefnið heillaði nemendur, þeir tóku virkan þátt í allri vinnu og lifðu sig inn í aðstæður í sveitinni.


Málstofa 3

Ritun til náms
Baldur Sigurðsson balsi@hi.is, dósent við HÍ 

Umdeild forsenda í heimspeki tungumála er hvort tungumálið sé tæki hugsunar eða öfugt. Tungumálið er að minnsta kosti eitt tæki til hugsunar og ein leið til að tjá hugsanir. Lengi hefur verið litið svo á að ritun sé öflug leið til að skýra og skerpa hugsun, og hafi það fram yfir talað mál að hún henti sérstaklega til að þróa æðri hugsun. Ritun hefur einnig verið talin góð leið til hvers konar náms, ritun festir efni í minni og skýrir hugmyndir höfundar um viðfangsefni sitt. Þessi hugmynd um gildi ritunar liggur til grundvallar einum meginþætti í lestrarkennsluaðferðinni Byrjendalæsi. Þriðji fasi í vinnu hverrar viku, allt frá fyrstu vikum lestrarnáms, felur í sér endursköpun merkingar, úrvinnslu þess lesefnis sem unnið hefur verið með í vikunni, í ritun. Frá upphafi lestrarnáms er einnig unnið  með ritun undir öðrum formerkjum og smám saman glímt við stærri og flóknari verkefni. Í þessu erindi verður fjallað um hugmyndafræði þeirrar kennslustefnu sem kölluð er ritun til náms (e. Writing to learn) og hvernig hún birtist í framkvæmd Byrjendalæsis í fáeinum íslenskum skólum. Gagnrýni á stefnuna verður mátuð við Byrjendalæsi og framkvæmd þess.

Rituð textagerð í fyrstu bekkjum grunnskóla: Áherslur í kennslu skipta máli
Rannveig Oddsdóttir rannodd@hi.is, doktorsnemi við HÍ, Hrafnhildur Ragnarsdóttir prófessor við HÍ, Freyja Birgisdóttir dósent við HÍ og Steinunn Gestsdóttir dósent við HÍ

Samkvæmt ritunarlíkani Berninger (The simple view of writing) eru umskráning, málfærni og sjálfstjórn meginstoðir ritunar. Ýmsar rannsóknir sýna þó jafnframt að kennsluhættir skóla hafa mikil áhrif á hversu vel börnum sækist ritunarnám. Í erindinu verður sagt frá niðurstöðum íslenskrar langtímarannsóknar á ritun íslenskra barna í 1.–4. bekk. Markmið rannsóknarinnar var þríþætt; að kortleggja þá þróun sem verður í ritaðri textagerð á fyrstu árum grunnskólagöngu, kanna áhrif umskráningarfærni, málþroska og sjálfstjórnar á ritun og gera samanburð á frammistöðu barna í skóla þar sem mikil áhersla er lögð á ritun á fyrstu skólaárunum og barna í öðrum skólum. Þær niðurstöður sem hér verða kynntar byggja á gögnum frá 82 börnum í sjö grunnskólum; mælingum á umskráningarfærni, málþroska og sjálfstjórn í 1. bekk og ritunarmælingum í 2. og 4. bekk. Niðurstöður sýna að mikil breidd er í færni barnanna öll árin sem að hluta til má rekja til mismikillar færni þeirra í umskráningu, málþroska og sjálfstjórn. Í gögnunum má þó einnig sjá skýr merki þess að mismunandi áherslur skóla í ritunarkennslu hafi áhrif á þróun ritunar hjá nemendum. Í þeim skóla sem leggur áherslu á ritun virðast börnin almennt ná tökum á ritun fyrr en í öðrum skólum og gæði textanna eru stöðugri milli ára en hjá börnum úr öðrum skólum.

Ritun í Byrjendalæsiskennslu
Nanna María Elfarsdóttir nanna.maria.elfarsdottir@akranes.is og Hildur Karen Aðalsteinsdóttir hildur.karen.adalsteinsdottir@akranes.is[p1] 

Sagt verður frá ritunarverkefnum sem unnin voru í 2. bekk í Brekkubæjarskóla og Grundaskóla á Akranesi skólaárið 2013 - 2014. Um er að ræða verkefni í samfélagsgreinum og náttúrufræði og samþættingu þeirra við íslenskuna. Verkefnin voru unnin í tengslum við sameiginlegt námskeið í ritun fyrir kennara á yngsta stigi skólanna.


Málstofa 4

Ferilbók: Vörður á leið til læsis
Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir silla@gsh.is, deildarstjóri við Grunnskólann austan Vatna og Halldóra Haraldsdóttir hh@unak.is, dósent við HA

Erindið byggir á meistaraprófsverkefni sem unnið var við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Markmið verkefnisins var að þróa ferilbók sem heldur utan um þróun máls og læsis eins til tíu ára gamalla barna. Verkefnið byggir á fræðilegri greiningu og er sjónum beint að bernskulæsi, málþroska, lestri og ritun, leshömlun og tvítyngi. Ferilbókin er hugsuð sem skráningarkerfi sem varðar leiðina til læsis. Henni er jafnframt ætlað að halda utan um niðurstöður skimana og prófa sem nú þegar eru notuð í leik- og grunnskólum. Ætlast er til að skráning í ferilbókina hefjist þegar börn byrja í leikskóla, við eins árs aldur og er bókinni ætlað að fylgja barninu til loka yngsta stigs grunnskólans. Með þessu móti skapast tækifæri til ákveðinnar samfellu í námi barnsins. Mikilvægi samfellu í námi og kennslu barna á milli skólastiga verður aldrei of oft tíunduð og er þess vænst að ferilbókin fylli upp í ákveðið tómarúm á þessu sviði. Ferilbókinni fylgir handbók sem geymir tillögur að leiðum til íhlutunar ásamt ábendingum um náms- og kennsluefni sem hægt er að nota í kennslu og sem stuðning við læsisnám barna. Í erindinu verður stuttlega greint frá megin rannsóknum til grundvallar verkinu en aðal áhersla lögð á kynningu ferilbókarinnar ásamt handbók.

Hvaða leiðir nota kennarar til þess að efla lesskilning í 1. og 2. bekk?
Halldóra Haraldsdóttir hh@unak.is, dósent við HA

Lesskilningur barna og unglinga hefur verið ofarlega á baugi í umræðu um skólamál meðal annars í kjölfar niðurstaðna PISA-rannsókna. PISA-rannsóknin 2012 sýndi að þriðji hver íslenskur fimmtán ára drengur getur ekki lesið sér til gagns og fyrri rannsóknir hafa sýnt að þrátt fyrir að stúlkur standi sig betur hefur lesskilningi hrakað hjá báðum kynjum síðasta áratuginn. Lítið er um rannsóknir á þessu sviði í íslensku skólastarfi en í rannsókninni á Byrjendalæsi var sjónum að hluta til beint að lesskilningi. Gagnaöflun fór fram með vettvangsathugunum, viðtölum og úrvinnslu ritaðra gagna í sex þátttökuskólum. Jafnframt var unnið úr svörum við spurningalista um aðferðir við læsiskennslu á yngsta stigi í 121 skóla á landinu; 68 skólum sem innleitt hafa Byrjendalæsi og 53 skólum sem ekki nota þá aðferð. Í þessu erindi verður greint frá niðurstöðum um leiðir sem kennarar í 1. og 2. bekk notuðu til að efla lesskilning nemenda. Meðal annars verður fjallað um leiðir kennara við val og úrvinnslu á texta, eflingu orðaforða, notkun lesskilningsaðferða, samvinnu nemenda og stuðning við nemendur en sjónum verður einnig beint að öðrum þáttum sem tengjast lesskilningi.

Að byggja traustan grunn: Um þróun í notkun lykilorða og BL-verkfæra
Ásta Egilsdóttir asta.egilsdottir@akranes.is og Guðrún Guðbjarnadóttir gudrun.gudbjarnadottir@akranes.is  [p2] 

Hvernig er hægt að þróa vinnu með lykilorð og önnur verkfæri Byrjendalæsis í 1. - 4. bekk á þann hátt að nemendur öðlist hæfni til að nýta þau í eigin námi og hvaða markmið eru raunhæf í þeim efnum? Við sem Byrjendalæsiskennarar höfum velt fyrir okkur hvernig fara má frá hinu einfalda til hins flókna í notkun verkfæra Byrjendalæsis eftir því sem hæfni nemenda eykst. Í málstofunni munum við deila hugmyndum kennara á Akranesi um þennan þátt læsiskennslunnar og ræða aðallega um lykilorð, hugtakakort, krossglímur, ritunarramma og orðasúpur.


Málstofa 5

Áætlanir um starfsþróun og mat á árangri hennar í Byrjendalæsi
Rúnar Sigþórsson runar@unak.is, prófessor við HA

Flestum rannsakendum á sviði starfsþróunar ber saman um að árangur hennar sé að miklu leyti kominn undir vönduðum áætlunum, skýrum viðmiðum um árangur og mati á hverju skrefi þróunarstarfsins. Margir þeirra telja einnig að þessa þætti þurfi iðulega að styrkja í breytingastarfi; ekki síst matið sem oft sé yfirborðskennt og huglægt. Í málstofunni verður talað fyrir nauðsyn þess að fyrsta skref áætlanagerðar um starfsþróun sé ævinlega að setja markmið um árangur nemenda og af því þurfi að leiða markmið um nýja starfshætti kennara, stuðning stofnana, nýja þekkingu og færni sem kennarar eiga að tileinka sér og síðasta skref áætlunarinnar eigi að vera að skipleggja þá starfsþróunardagskrá sem á að uppfylla markmið hennar. Þá verða kynnt viðmið um hæfni kennara og matslíkan sem hafa má til hliðsjónar við áætlanir um starfsþróun og mat á árangri hennar. Loks verða framangreind sjónarmið mátuð við starfsþróunarferli Byrjendalæsis og greint frá niðurstöðum rannsóknar á Byrjendalæsi sem benda til að þennan þátt þurfi að styrkja, bæði í tveggja ára innleiðingu aðferðarinnar og áframhaldandi þróunarstarfi skóla við að festa hana í sessi.

Hlutverk leiðtogans í innleiðingu og þróun Byrjendalæsis í ljósi mismunandi aðstæðna
Eygló Björnsdóttir eyglob@unak.is, dósent við HA, María Steingrímsdóttir maria@unak.is, dósent við HA og Sigríður Margrét Sigurðardóttir sigridurs@unak.is, lektor við HA

Starfsþróunarlíkan Byrjendalæsis hefur verið hannað með það fyrir augum að styðja við innleiðingu aðferðarinnar í skólum. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að skipaður sé leiðtogi í hverjum skóla sem gegnir lykilhlutverki við innleiðingu aðferðarinnar. Í þessu erindi er greint frá athugun á hlutverki leiðtogans í Byrjendalæsisskólum þar sem þróun á starfi leiðtogans hefur verið með ólíkum hætti og leitast við að skýra ástæður þess og þýðingu fyrir innleiðingu Byrjendalæsis í skólunum. Unnið var með gögn úr tveimur Byrjendalæsiskólum sem aflað var með viðtölum og vettvangsathugunum á árunum 2012–2014. Niðurstöður benda til þess að þættir eins og reynsla, þekking og áhugi leiðtogans á læsiskennslu og aðferðum Byrjendalæsis, ytra stuðningsnet skólans og hvernig staðið var að ákvörðun um að taka upp aðferðina hafi áhrif á hvernig leiðtoga gengur að vinna að framþróun aðferðarinnar. Niðurstöður eru gagnlegar þeim sem standa að innleiðingu aðferðarinnar og þeirra sem leiða þróunarverkefni í skólum.

Það er gaman að læra: Spil sem þjálfa hljóðkerfisvistund
Valdís B. Guðjónsdóttir valdisbgud@internet.is, talmeinafræðingur

Einn mikilvægasti undirstöðuþáttur fyrir lestur er góð hljóðkerfisvitund. Bókin Ljáðu mér eyra-undirbúningur undir lestur kom fyrst út árið 2000. Hefur hún notið mikilla vinsæla og var endurútgefin árið 2010. Nú eru komnir  út sjö  skemmtilegir spilastokkar (samstæðuspil, veiðimaður og fleira) sem byggja á hugmyndafræðinni á bak við bókina þ.e.a.s. að styrkja hljóðkerfisvitund. Með spilunum er hægt að þjálfa: Rím, hljóðgreiningu fyrsta hljóð, hljóðgreiningu síðasta hljóð, hljóðflokkun, hljóðtengingu, samsett orð og umskráningu. Fjallað verður um mismunandi þætti hljóðkerfisvitundar og skemmtilegar og gagnlegar hugmyndir um hvernig er hægt að nota spilin.

Málhömlun og vandamál tengd hljóðkerfisvitund endurspeglast oft í lestrarörðugleikum. Það er mikilvægt að til séu aðgengileg verkefni til að þjálfa hljóðkerfisvitund og stuðla þannig að aukinni lestrarfærni hjá börnum. Það hefur einnig sýnt sig að öll börn hafa gaman af því að leika sér með málið. Einnig verður fræðileg umfjöllun um þróun hljóðkerfisvitundar, hljóðkerfisröskun, hljóðferla í framburði barna og mismunandi framburðarfrávik og tengsl við lestur.


Málstofa 6

Fjórir stafir í fókus Lestrarkennsluefni með tölvu/pöddu, samvinnunámi og sjálfstæðum vinnubrögðum
Rannveig Lund rlund@ismennt.is, lestrar- og sérkennslufræðingur

Það er alltaf erfitt að fylgja ekki fjöldanum og hefur oftar en ekki áhrif á líðan og afstöðu gagnvart LESTRI og BÓKUM. Í framhaldinu þarf minnihlutahópurinn oft annars konar kennslu en meirihlutinn. Til þess að líðan gagnvart lestri og bókum sé jákvæð, skiptir mestu að kennsla veki áhuga og gleði um leið og hún beinist markvisst að þáttum sem skila lesskilningi. Þetta er markmiðið með lestrarkennsluefninu ,,Fjórir stafir í fókus” sem samið var sérstaklega fyrir börn sem ekki hafa tök á grunnþáttum lesturs, þrátt fyrir kennslu og aldur. Efnið samanstendur af fjórum textum og jafnmörgum vinnubókum. Hvern texta má lesa í bók og á skjá (tölvu eða ,,pöddu”) og býður það upp samvinnu nemenda við lesturinn. Skjáefnið er á geisladiskum ásamt verkefnum sem hægt er að sníða að hverjum einstaklingi og prenta út. Í verkefnunum er unnið með orð og efni textanna. Athyglinni er beint að lestrartækni, málvitund og lesskilningi. Börnin styðjast við upplýsingar sem þau gjörþekkja úr textunum. Hver kennari getur lagað lestrarkennsluefnið að aðstæðum sínum og viðhorfum en kynnt verður aðferð sem reynd var af nokkrum kennurum meðan þróun efnisins stóð yfir og farið í hugmyndafræði nokkurra þátta sem kennsluefnið snertir.

Vinnustofa: Tengsl kennsluhátta í  læsis og stærðfræði
Þóra Rósa Geirsdóttir thgeirs@unak.is, sérfræðingur við miðstöð skólaþróunar HA

Líta má á fjóra hornsteina  Byrjendalæsis það er lestur, ritun, hlustun og tal sem fjóra mikilvæga hornsteina í stærðfræðikennslunni. Kennsla orðaforða og samræður til náms í læsiskennslunni eru ekki síður áhersluþættir  í  stærðfræðinámi. Þau verkfæri sem notuðuð eru til að efla lesskilning reynast líka mjög vel til vinnu með skilning í stærðfræði. Þá má einnig finna samhljóm í skipulagi kennslunnar það er heild – eind – heild  þar sem eindarhlutinn (sundurgreinandi þátturinn) er eins konar rannsóknarhluti og notaður sem slíkur í stærðfræðinni. Í þessari vinnustofu verður sett upp stöðvavinna sem tilheyrir rannsóknarþættinum þar sem m.a. hugarkort,  KVL, vennkort  og orðaforðavinna  eru notuð til að efla talnaskilning, og aðgerðarskilning. Þátttakendur  fara í gegnum allar stöðvarnar,  prófa og ræða  og leita samhljóms milli kennsluhátta Byrjendalæsis og stærðfræði.

 

 


Mišstöš skólažróunar

Sólborg v/noršurslóš              600 Akureyri, Iceland              laufey@unak.is              S. 460 8590 

Fylgdu okkur eša deildu