Valmynd Leit

Ágrip málstofulota II

Snjallari saman
upplýsingatækni og miðlun í skólastarfi

Málstofulota II 

kl. 13.30–14.30

 

2.1
Stofa
M201

 

Leikskólinn Krógaból (smiðja)

OSMO
Íris Hrönn Kristinsdóttir og Anna R. Árnadóttir

OSMO er margverðlaunað leikja- og kennslutæki fyrir Ipad. Það sem gerir OSMO leikina sérstaka er að í þeim er leikið með áþreifanlega hluti, hægt er að handleika púslukubba, tölu- og bókstafi, skriffæri og fleira til að hafa áhrif á það sem gerist á skjánum. Í leikjunum er m.a. hægt að púsla saman myndum úr formum, vinna með stafi, orð og tölur, þjálfa fínhreyfingar í gegnum teikningar og gera tilraunir. Í málstofunni gefst þátttakendum tækifæri til að prófa leikina og skoða hvernig unnið er með OSMO og bækur í leikskólanum Krógabóli.  

Puppet Pals smiðja
Ólöf Daðadóttir, Anna Gunnbjörnsdóttir, Sigurveig Petra Björnsdóttir og Hildur Sif Sigurjónsdóttir

Hægt að fá að prófa Puppet Pals HD og Puppet Pals II og fá leiðsögn frá kennurum.

Bókaormar, sögur og ævintýri í Puppet Pals
Lilja Valdimarsdóttir, Una Jónatansdóttir og Björk Vilhelmsdóttir

Puppet Pals HD og Puppet Pals II eru sniðug smáforrit sem hægt er að nota til að leika sér með málið, búa til sögur og leikrit. Í málstofunni verður sagt frá notkunar möguleikum appsins í skapandi starfi og málrækt í leikskóla. Með Puppet Pals er hægt að gæða teikningar og listsköpun barnanna lífi.  Á Krógabóli hefur verið unnið með sögugerðina á fjölbreyttan hátt, börnin hafa samið og fullunnið sögur frá eigin brjósti, þau hafa unnið með ævintýri, sönglög og gert sögur út frá bókum. Í smiðjunni verður hægt að skoða verk barnanna, fá hugmyndir og kynna sér hvernig appið virkar.  


 

 2.2

Stofa
M202

Lesskilningur án bóka. Breyttir kennsluhættir í Kópavogi (smiðja)
Eyþór Bjarki Sigurbjörnsson, Kristín Björk Gunnardóttir og Sigurður Haukur Gíslason, kennsluráðgjafar

Í smiðjunni verður m.a. fjallað um hvernig hægt er að vinna með bókmenntir á lifandi og skapandi hátt. Þátttakendur vinna með gefinn texta og skapa persónulega stemmningu þar sem þeir túlka textann á sinn hátt, setja sig inn í aðstæður og endursegja frásögnina út frá eigin tilfinningum og skilningi. Þátttakendur vinna í iPödum. Þeir sækja lesefnið í app sem heitir Showbie, sækja síðan myndir af netinu, taka ljósmyndir og skeyta þeim saman í appi sem heitir Adobe Photoshop Mix. Myndirnar nota þátttakendur síðan til að búa til myndband þar sem þeir endursegja frásögnina og gera að sinni. Þar nota þátttakendur app að nafni Adobe Voice. Ef tími gefst til sýna þátttakendur afrakstur vinnunnar í lok smiðjunnar. Markmiðið er að gefa tækifæri til að kynnast öðrum leiðum til náms og tjáningar en þeim sem hafa verið nýttar fram að þessu. Með ofangreindum hætti gefst möguleiki á að virkja nemendur til dæmis til leiklistar, til framsagnar og þar af leiðandi skapandi vinnu um leið og þeir vinna með texta og lesskilning. Þess má líka geta að verkefnið krefst engra námsbóka, ekki eru unnið með glósubók, blýant eða annað sem tilheyrir venjulegri kennslustund. Nóg er að mæta með bros á vör og opinn hug. Ekki er gerð krafa á að þátttakendur komi með iPad í smiðjuna. Þátttakendur fá iPad og nýta hann til að leysa verkefnið. Smiðjan byggist því á samblandi af kennslufræði, kynningu á öppum og virkni þátttakenda.


 

 2.3

Stofa
M203

Spjaldtölvur í skólastarfi – áætlun um innleiðingu
Unnur Ósk Unnsteinsdóttir, kennari í Vopnafjarðarskóla, og Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA

Þróun samfélagsins kallar á breytta kennsluhætti í skólum, eins og birtist í nýrri aðalnámskrá árið 2013 og Hvítbók menntamálaráðuneytis 2014. Þær kröfur eru gerðar til skóla að þeir undirbúi nemendur fyrir þátttöku í þjóðfélagi sem einkennist af hröðum breytingum og tækninýjungum. Í verkefninu „Spjaldtölvur í skólastarfi – áætlun um innleiðingu“ er gerð grein fyrir þessum nýju kröfum í menntun og hvernig koma megi til móts við þær með virkri skólaþróun og innleiðingu spjaldtölva í námi og kennslu. Fjallað er um notkun upplýsingatækni í skólum, upplýsinga- og miðlalæsi og notkun spjaldtölva í skólastarfi. Einnig er litið til skólaþróunar og þeirra þátta sem styðja við hana, svo sem innleiðingu lærdómssamfélags í skólastarf, starfsþróun kennara, virka forystu og skólamenningu. Markmiðið var að búa til hagnýta þróunaráætlun um innleiðingu spjaldtölva í kennslu með það fyrir augum að stuðla að öflugri skólaþróun sem styður við sköpun lærdómssamfélags innan skólans. Við gerð áætlunarinnar var höfð til hliðsjónar rannsóknarspurningin „Hvernig má efla nám og kennslu í grunnskóla með notkun spjaldtölva og styrkja um leið skólann sem lærdómssamfélag?“ Í niðurstöðum verkefnisins eru færð rök fyrir því að innleiðing á spjaldtölvum í kennslu hafi alla burði til að auka gæði náms, sé vandlega staðið að innleiðingu og áframhaldandi þróun í lok hennar. Á málstofunni verður gerð grein fyrir verkefninu og einkum rætt um innleiðingaráætlun þess.

Spjaldtölvur í tónmennt
Alexandra Chernyshova, kennari í Heiðarskóla

Í erindinu verður deilt þekkingu og reynslu af notkun spjaldtölva í tónmennt. Kynnt verða skemmtileg og gagnleg tónlistaröpp sem Alexandra hefur notað í kennslutímum og einnig hvernig hún notar spjaldtölvu í skapandi verkefnum. Hún ætlar einng að segja frá og sýna MakeyMakey og hvernig tækið nýtist til tónlistarsköpunar. Hér er linkur með verkefnum sem Alexandra hefur gert http://youtu.be/EiU43heog14 


 

 2.4 

Stofa
L201

Talgervlar til aðstoðar nemendum með lestrarörðugleika
Hildur Rudolfsdóttir, kennsluráðgjafi, og Guðný Þóra Friðriksdóttir, deildarstjóri námsvers

Í Garðaskóla eru 15–20% nemenda með lestrarörðugleika af einhverju tagi. Stór hluti þeirra er með formlega lesblindugreiningu. Í flestum tilfellum er hlustunarskilningur þeirra betri en lesskilningur. Að geta hlustað á námsefnið og fá upplestur í prófum getur skipt sköpum. Í erindinu er kynnt það þróunarstarf sem átt hefur sér stað í Garðaskóla þar sem talgervlar og tækjabúnaður er nýttur t.d. til próftöku til að koma til móts við nemendur með lestrarörðugleika. Í þeim tilvikum eru hljóðskrár búnar til út frá texta prófsins með aðstoð hugbúnaðar og settar inn á MP3 spilara. Með þessu móti er stuðlað að sjálfstæði nemenda í prófaðstæðum. Nemandinn getur tekið prófið á sama tíma og í sömu stofu og aðrir nemendur og er ekki háður því að nota tölvu eða bundinn því að starfsmaður lesi prófið eins og áður var gert. Til þess að þetta gangi vel þurfa kennarar að vanda vel gerð verkefna og prófa. Liður í þróunarstarfinu er að byggja upp verkferla til að einfalda kennurum uppsetningu svo einfalt sé að keyra út hljóðskrár fyrir einstaka prófþætti. Þátttakendur í málstofunni munu fá tækifæri til að heyra og prófa mismunandi raddir tungumála, smáforrit og tækjabúnað (iPad, Android spjaldtölvur og fartölvur) sem getur nýtt talgervla.

Innleiðing augnstýribúnaðar í skólastarf Klettaskóla
Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari í Klettaskóla

Haustið 2014 fékk Klettaskóli augnstýribúnað til afnota til að kenna afmörkuðum hópi nemenda að nota augun til að leika og hafa tjáskipti. Það gaf góða raun og sýndu nemendur hæfni til þess að hafa tjáskipti með augunum. Nú eru fleiri nemendur í þjálfun við að nota þennan búnað. Nemendur á yngsta, miðstigi og unglingastigi með fjölbreytta þroskahömlun eru í boðskiptatímum þar sem lögð er áhersla á að nota augun til tjáskipta. Mismunandi er hvernig þeim tekst að nota búnaðinn. Sumir nýta búnaðinn til afþreyingar en aðrir einnig til tjáskipta. Sagt verður frá fyrstu skrefunum, hvernig staðan er í dag og hvert við stefnum í innleiðingu augnstýribúnaðar í Klettaskóla. Auk þess verða kynnt tjáskiptaforrit og leikir til að leika með augunum.


 

 2.5 

Stofa
L202

Tækninýjungar við HA
Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður KHA, og Helgi Freyr Hafþórsson, verkefnastjóri margmiðlunar

Kennslumiðstöð HA (KHA), var sett á laggirnar 1. janúar 2015. Hlutverk KHA er að veita kennurum faglega aðstoð við þróun kennsluhátta, hvort sem er í staðar- eða fjarnámi (sveigjanlegt nám). Ásamt því að stuðla að aukinni notkun tölvu- og upplýsingartækni í háskólanum og veita nemendum og starfsfólki aðstoð og ráðgjöf á því sviði. Starfsfólk KHA, munu skýra frá þeirri þróunarvinnu sem hefur átt sér stað í tæknimálum við HA síðan KHA var stofnað og hver stefnan er í þeim málum.  

Vendikennsla á háskólastigi
Ásta M. Ásmundsdóttir, aðjúnkt við HA, og Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður KHA

Á málstofunni verður fjallað um þróunarnámskeið kennslumiðstöðvar HA, það eru námskeið sem fá sér þjónustu við að þróa áfram kennslu á háskólastigi. Fjallað verður sérstaklega um námskeið í efnafræði þar sem notast hefur verið við vendikennslu eða flipped classroom. Í vendikennslu er hefðbundinni kennslu snúið við og nemendur hlusta á fyrirlestra heima en vinna heimavinnu í skólanum. Sagt verður frá því helsta í tengslum við námskeiðið, kennari námskeiðs Ásta M. Ásmundsdóttir aðjúnkt við auðlindadeild HA segir frá sinni reynslu af vendikennslu í efnafræði á háskólastigi sem hún hefur tileinkað sér síðastliðinn ár. 


 

 2.6 

Stofa
L203

Frá miðaldahandritum til tilraunaverkefnis í máltækni (smiðja frh.)
Kynning á verkefnum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er stundaðar rannsóknir á íslensku máli og bókmenntum og rannsóknarsviðið er mjög fjölbreytilegt. Vefsíða stofnunarinnar er uppspretta ýmiss konar efnis sem nýta má í skólakerfinu (http://www.arnastofnun.is/).

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN)
Kristín Bjarnadóttir, rannsóknarlektor

BÍN er safn beygingardæma sem upprunalega voru ætluð til nota í máltækniverkefni af ýmsu tagi en jafnframt eru þau birt á vefnum (bin.arnastofnun.is), ásamt ábendingum um notkun einstakra beygingarmynda ofan við sjálf beygingardæmin. Orðaforðinn er úr íslensku nútímamáli og alls eru beygingardæmin hátt í 300 þúsund. Fjallað verður um efnistök í BÍN og notkun gagnanna í máltækni eftir því sem tíminn leyfir.

N-stæðuskoðari
Steinþór Steingrímsson, verkefnisstjóri

N-stæðuskoðarinn er tól til að skoða sögu orðnotkunar. Hann sýnir tíðni orða- og orðasambanda í textum á ákveðnum tímabilum, t.d. árum, og birtir niðurstöðurnar myndrænt svo auðvelt er að skoða breytingar, sveiflur og tísku í orðnotkun. Einnig má nota hann til að skoða hvenær ný orð koma fram og hvenær önnur orð falla úr notkun. Tólið verður sýnt, fjallað verður um nýtingarmöguleika þess, gögnin sem liggja undir og hugmyndir um frekari þróun.


 

 2.7

Stofa
N102

Námið, kennslan og tæknin: Menntaskólinn á Tröllaskaga (smiðja frh.)
Lára Stefánsdóttir, skólameistari
Grunngildi skólans eru frumkvæði, sköpun og áræði. Í smiðjunni verður farið stuttlega yfir hvers vegna og hvernig skólastarfið er skipulagt í samræmi við grunngildin. Allir nemendur eru með fartölvur og síma, kennarar með fartölvur, iPad og síma. Á sama tíma er útivist og íþróttum gert hátt undir höfði. Rennt yfir hugmyndafræðina að skipulagi sem byggir m.a. á rannsóknum á nemendum og kennurum í MA. Blandaðir námshópar í stað- og fjarnámi.

Vendikennsla, Educreation, Lensoo,
Inga Eiríksdóttir, kennari

Samfélagsmiðlar í námi
Ida Semey, kennari

Útivist í snjó
Lísbet Hauksdóttir, kennari

 


 

Skráning á ráðstefnu
5000 kr.


Miðstöð skólaþróunar

Sólborg v/norðurslóð              600 Akureyri, Iceland              laufey@unak.is              S. 460 8590 

Fylgdu okkur eða deildu