Valmynd Leit

Um miðstöð skólaþróunar

Við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri er starfrækt miðstöð skólaþróunar. Markmið hennar er að stuðla að umbótum og umbreytingum á skólastarfi og vera farvegur þekkingar og þróunar út í daglegt skólastarf. Meginviðfangsefni hennar lúta að ráðgjöf og fræðslu til starfandi kennara og skólastjórnenda við hvers kyns skólaþróun. Hún stendur fyrir rannsóknum, stefnumótunarvinnu og mati á skólastarfi, heldur ráðstefnur, námskeið og fræðslufundi. Innan miðstöðvarinnar hefur orðið uppbygging þekkingar á fjölbreyttum sviðum skólastarfs og menntunar t.d. um samskipti heimilis og skóla, lestur, ritun og lestrarkennslu, stærðfræðikennslu yngri barna, námsaðlögun, fjölbreytta starfshætti í skólum, fagmennsku, starfendarannsóknir og mat.

Í starfi miðstöðvar skólaþróunar er lögð áhersla á fræðslu, eftirfylgd verkefna, vettvangsathuganir, samræðu, samvinnu og ígrundun í samstarfi við kennara á vettvangi. Unnið er eftir framkvæmdar- og þróunaráætlunum þar sem gert er ráð fyrir mati á starfinu. Verkefnin eru yfirleitt til lengri tíma, þ.e. eins eða tveggja vetra löng og miðast við starfsmannahópa með það að markmiði að efla starfsemi skólanna í heild sinni, stuðla að umbreytingum og þróun. Höfðað er til skuldbindinga þátttakenda um að þróast í starfi til að bæta skólastarf.

Miðstöð skólaþróunar annast lögbundna sérfræðiþjónustu fyrir Akureyrarbæ. Miðstöðin sinnir auk þessu verkefnum fyrir önnur sveitarfélög og skóla á öllum skólastigum um allt land. Í endurskoðuðum rammasamningi við Akureyrarbæ (2015) kemur meðal annars fram að samningsaðilar hafi sameiginlega hagsmuni af því að bæta nám og kennslu nemenda í leik- og grunnskóla og efla rannsóknir í uppeldis- og kennslufræði og námsgreinum grunnskóla. Jafnframt að efla menntun kennara og stuðla að auknum gæðum með þróun skólastarfs. Samhliða því að skólar geti óskað eftir þjónustu miðstöðvar skólaþróunar er miðstöðinni ætlað að hafa forystu um mótun skólaþróunarverkefna og vinna að framkvæmd þeirra. Markmið starfsins er að stuðla að framsæknu skólasamfélagi í bæjarfélaginu í samræmi við skólastefnu þess. Lögð er áhersla á að vinna náið með skólastjórnendum og kennurum að þróun skólastarfs með áherslu á starfshætti sem koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og byggi upp starfsvettvang sem einkennir lærdómssamfélag. 

Miðstöð skólaþróunar er til húsa á Sólborg v/Norðurslóð 2, 600 Akureyri.
Sími forstöðumanns er 460 8590.


Miðstöð skólaþróunar

Sólborg v/norðurslóð              600 Akureyri, Iceland              gunnarg@unak.is              S. 460 8590 

Fylgdu okkur eða deildu