Málstofa 1.5

Málstofa 1.5

Hvernig mætir grunnskólinn þörfum nemenda með lestrarerfiðleika?
Jóhanna Lovísa Gísladóttir, sérkennari (jlg1@simnet.is)

Megindleg rannsókn þar sem annars vegar var skoðað hvernig grunnskólakennarar skipuleggja lestrarkennslu nemenda með lestrarerfiðleika og hins vegar var skoðuð afstaða foreldra barna með lestrarerfiðleika til kennslunnar. Þátttakendur í rannsókninni voru umsjónarkennarar í 1.-7. bekk í 19 grunnskólum á landinu og foreldrar nemenda með lestrarerfiðleika í 3., 5. og 7. bekk í sömu skólum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þrátt fyrir að flestir kennarar í þeim skólum sem rannsóknin náði til leggi sig fram við að mæta þörfum nemenda með lestrarörðugleika eins vel og hægt er, er víða pottur brotinn í því efni. Lestrarkennsla er mismikil eftir árgöngum, en í elstu árgöngunum virðist litlum tíma varið til kennslu í lestri. Kennarar yngstu bekkjanna lögðu yfirleitt ríka áherslu á snemmtæka íhlutun í sinni kennslu, en þrátt fyrir það var meðalfjöldi sérkennslutíma lægstur í fyrsta bekk. Margir kennarar telja sig ekki hafa nægjanlega þekkingu á lestrarerfiðleikum og finnst vanta tíma í faglega umræðu við samstarfsfólk sökum álags í starfi.


 

Samstarf um menningu, mál og læsi í Fellahverfi
Ester Helga Líneyjardóttir, deildarstjóri samþætts skóla- og frístundastarfs í Fellaskóla (ester.helga.lineyjardottir@reykjavik.is), Nichole Leigh Mosty, skólastjóri leikskólanum Ösp (nichole.leigh.mosty@reykjavik.is) og Sólveig Þórarinsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri leikskólanum Ösp (solveig.thorarinsdottir@reykjavik.is) 

Verkefnið Okkar mál – samstarf um menningu, mál og læsi í Fellahverfi hefur það að markmiði að auka samstarf skóla í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti með það að leiðarljósi að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu. Í erindinu verður greint frá vinnu við áætlanir um mál og læsi, samstarfsáætlun leik- og grunnskóla, samþættu skóla- og frístundastarfi og völdum verkefnum gerð skil. Fjallað verður sérstaklega um heimalánspoka, svæðisflæði, íslenskukennslu fyrir foreldra, KPALS og sumarlestur. Samstarfsaðilar í Okkar máls verkefninu eru Fellaskóli, Leikskólinn Holt, Leikskólinn Ösp, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og Þjónustumiðstöð Breiðholts. Verkefnið hefur notið stuðnings samstarfsaðila og skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Það hlaut hvatningarverðlaun ráðsins í maí 2013 og viðurkenninguna Orðsporið í febrúar 2014.