Hið ljúfa læsi

Út er komin bókin Hið ljúfa læsi eftir Rósu Eggertsdóttur.

Hið ljúfa læsi er handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Efni bókarinnar miðar við alla árganga grunnskólans. Bókin er innbundin, 240 síður prentaðar og 270 síður á minnislykli sem fylgir bókinni. Þar eru verkefni fyrir nemendur og ýmis hagnýt gögn.

Um bókina Hið ljúfa læsi:

Bókin byggir á nýlegum fræðum í bland við eldri, ekki síst rannsóknum á „best practice“. Niðurstöður rannsókna endurspeglast í lýsingum á daglegu starfi í kennslustofunni og fylgja dæmi um viðfangsefni nemenda sem kennarar geta prentað af minnislykli.

Hið ljúfa læsi gengur út frá því að nemendur eflist að þekkingu og færni. Breyttar áherslur eru á skipulagi kennslu og framvindu náms. Lagt er upp með að nemendur afli víða fanga, innan skóla sem og utan. Kennslubækur ráða ekki för en eru hluti gagna sem kennarar og nemendur nýta sér.

Ástæða er til að nefna áherslu á námsaðlögun, athafnamiðað nám og nauðsyn þess að nemendur takist á við krefjandi viðfangsefni. Rauði þráðurinn í bókinni snýst um samvinnu og samræðu nemenda í námi.

Þegar námsgreinar og læsi eru samþætt er lögð áhersla á skrifleg læsismarkmið þannig að sjá megi hvaða færni kennarar eru að efla á hverjum tíma.

Að mörgu leyti fellur efni þessarar bókar að nýjum áherslum sem OECD hefur boðað fram til ársins 2030.

Bókin verður til sölu í Bóksölu stúdenta og væntanlega einnig hjá A4 og Eymundson/Pennanum. Hægt er að nálgast bókina hjá höfundi /útgefanda (rosa@ismennt.is) og kostar hún þar kr.10.200 með vsk og við bætist sendingarkostnaður.