Þróunarverkefni

Skólaþróunarverkefni

Miðstöð skólaþróunar býður upp á stuðning við skólaþróunar-/starfsþróunarverkefni til styttri eða lengri tíma. Markmið með starfsþróun í skólum er að stuðla að betri árangri nemenda og betri líðan kennara. Rannsóknir sýna að raunverulegar breytingar á skólastarfi taka talsverðan tíma og nauðsynlegt er að stuðningur við breytingastarf sé öflugur og markviss. Í starfi sérfræðinga miðstöðvarinnar er gengið út frá þeirri skilgreiningu að starfsþróun sé samfellt meðvitað og mótað ferli sem leiði til umbóta og jákvæðrar þróunar. Hún er beintengd daglegu starfi kennara með nemendum og skipulögð í kringum raunveruleg viðfangsefni starfsins. Hún hefur skýran tilgang og markmið og miðar að því að efla færni og þekkingu starfsfólks skóla og auka gæði í starfi. Hún á sér stað í faglegu lærdómssamfélagi, er augljós og samofin hluti daglegs starfs fagfólks skóla og ber einkenni af menningu samfélags í þróun. Hún felur m.a. í sér formlegt nám, innleiðingu í starf á fyrsta starfsári, námskeið, rannsóknir á eigin starfi, þátttöku í þróunarverkefnum, ráðgjöf, ráðstefnur, fræðilestur, skólaheimsóknir svo eitthvað sé nefnt. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að aukinni starfsánægju, hefur áhrif á árangur í starfi og minnkar líkur á kulnun eða brotthvarfi kennara úr starfi.

Hlutverk Miðstöðvar skólaþróunar í samstarfi um skólaþróunar-/ starfsþróunarverkefni getur t.d. falist í:

  • Að aðstoða við áætlanagerð og halda utan um gögn
  • Námskeiðahaldi fyrir starfsfólk skóla
  • Stuðningi og ráðgjöf á vettvangi
  • Aðstoð við styrkumsóknir t.d. í Sprotasjóð og skýrsluskrif að verkefni loknu
  • Aðstoð við að innleiða lærdómssamfélag þar sem allir í skólanum taka þátt
  • Aðstoð við að velja matsaðferðir og meta árangur verkefnisins
  • Eftirfylgd og stuðningi að verkefni loknu

Senda inn verkbeiðni.

Gunnar Gíslason forstöðumaður Miðstöðvar skólaþróunar HA gefur nánari upplýsingar um matsverkefni, námskeið og þróunarverkefni.
Sími: 460 8590 og 892 1453 - Netfang: gunnarg@unak.is