Læsi er lykillinn


Læsi er lykillinn

Læsisstefnan Læsi er lykillinn er afrakstur þriggja ára þróunarvinnu skóla á Eyjafjarðarsvæðinu, Miðstöðvar skólaþróunar HA og fræðslusviðs Akureyrarbæjar. Stefnunni er ætlað að vera leiðbeinandi um læsiskennslu í leik- og grunnskólum. Á vef stefnunnar er að finna fjölbreytt efni sem kennarar geta nýtt til að meta stöðu nemenda og skipuleggja kennslu, leiðbeiningar fyrir foreldra o.fl. 

Tilurð og markmið

Haustið 2014 fór af stað vinna við mótun læsisstefnu fyrir skóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Að þeirri vinnu komu leik- og grunnskólar á svæðinu, fræðslusvið Akureyrarbæjar og Miðstöð skólaþróunar við HA.

Skipulag vinnunnar tók mið af hugmyndum um lærdómssamfélag (e. learning community) þar sem lögð var áhersla á að allir sem hlut eiga að máli kæmu að vinnunni, það er leik- og grunnskólakennarar, nemendur og foreldrar, stjórnendur, fræðslusvið og Miðstöð skólaþróunar. Sú stefna sem hér birtist er afrakstur þriggja ára samvinnu þessara aðila.

Megintilgangur læsisstefnunnar er að efla læsi í víðum skilningi og stuðla að skapandi og gagnrýninni hugsun barna.


Í læsisstefnunni Læsi er lykillinn er lögð áhersla á:

  • að skólar setji fram markvissa og skýra námskrá byggða á viðmiðum aðalnámskrár,
  • að skapa nemendum hvetjandi og styðjandi námsumhverfi,
  • árangursríka náms- og kennsluhætti sem byggja á þörfum og áhuga nemenda,
  • að námsmat sé leiðbeinandi,
  • viðbragðsáætlun sem tryggir stuðning við alla nemendur.

Áhersla er lögð á náms- og kennsluhætti sem veita nemendum tækifæri til að:

  • eiga samskipti, vinna með öðrum og byggja upp félagsleg tengsl,
  • ígrunda og útskýra hæfni sína, nota endurgjöf sem þeir fá í námi sínu til að bæta sig og veita öðrum uppbyggjandi endurgjöf,
  • vinna með og skapa fjölbreytta texta sem miðlað er á margvíslegan hátt,
  • rannsaka mátt og fjölbreytileika tungumálsins, hvernig það hefur áhrif og hvernig má nota það á skapandi hátt,
  • auðga orðaforða sinn með því að hlusta, tala, horfa og lesa.


Vefur læsisstefnunnar