Aukin gæði náms í leikskóla

Fræðslufundur haldinn að Sólborg við Norðurslóð, 3. nóvember 2011 kl. 15:20-16:20 í stofu M-202

Jakobína Áskelsdóttir, leikskólastjóri á Tröllaborgum
Aukin gæði náms í leikskóla. Góðir hlutir gerast hægt... og festast þá í sessi.

Kynnt verður eigindleg rannsókn á árangri og festingu þróunarverkefnisins Aukin gæði náms – AGN, sem unnin var í leikskólanum Tröllaborgum á Akureyri árin 2005–2007. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvaða árangur varð af verkefninu þá, hvort tekist hafi að halda þeim árangri fram til dagsins í dag og hvað varð til þess. Sagt er frá AGN-skólaþróunarlíkaninu og hvað talið er þurfa til að ná árangri í skólaþróun. Leitað var til starfsmanna leikskólans til að fá álit og mat á AGNinu, árangri þess og festingu í starfi leikskólans. Kannað var hvort starfsmenn teldu vinnubrögð AGNsins virk í starfi leikskólans í dag, hvernig það birtist í daglegu starfi og hvaða viðhorf starfsmenn hefðu til áframhaldandi starfs á forsendum AGNsins.

Meginniðurstöður rannsóknarinnar sýna að AGNið hefur náð að festast í sessi og skilað skólaþróun í þágu barnanna. Starfsmenn hafa eflst faglega og leikskólinn styrkst að sama skapi. Vinnubrögð AGNsins eru virk í daglegu starfi og viðhaldast með umræðum, verkefnum og dreifðri ákvarðanatöku. Helsti ávinningur leikskólans sem stofnun er aukin umræða, samheldni, virkni og þátttaka allra sem í skólanum starfa. Heilt yfir hefur leikskólinn styrkst og allir bætt við sig þekkingu og reynslu, bæði kennarar og ófaglærðir. AGNið hefur stuðlað að jafnræði innan starfsmannahópsins og fagmennska hefur aukist.