Bættu árangur á PISA með yndislestri

Í viðtali Kastljóss 7. febrúar sl. við skólastjóra Grunnskóla Seltjarnarness, Ólínu Thoroddsen kom m.a. fram að skólinn er einn af fáum skólum á landinu sem hefur bætt árangur sinn á PISA þegar horft er til niðurstaðna könnunarinnar 2015 og þær bornar saman við niðurstöður frá árinu 2012. Auk Seltjarnarskóla eru það skólar í Árborg, Hafnarfirði og Reykjanesbæ sem einnig bættu árangur sinn í PISA 2015. Ólína segir frá því í viðtalinu að skólinn hafi rýnt vel í niðurstöður PISA og samræmdra prófa og farið vel í gegnum það hvar styrkleikarnir væru og hvað þyrfti að bæta. Í kjölfarið á greiningarvinnunni var ákveðið að leggja aukna áherslu á lestur sérstaklega á mið- og unglingastigi. Skólinn fór í samstarf við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri um þróunarverkefnið Læsi til náms. Í verkefninu er áhersla lögð á frjálsan lestur og yndislestur og var 20 mínútna yndislestur settur inn á stundatöflu hjá unglingastiginu fjóra daga vikunnar. Ólína segir niðurstöðuna vera þá að yndislesturinn hafi aukið lesskilning, orðaforða og leshraða nemenda. Það er hæfni sem skiptir máli fyrir nám og árangur. Einnig kom fram að útlán til nemenda á skólabókasafninu hafa aukist og það þýði aukinn lestraráhuga. Miðstöð skólaþróunar HA óskar Grunnskóla Seltjarnarness til hamingju með þennan góða árangur.

Viðtalið við Ólínu er að finna á vef RÚV og hefst það þá 00.23 mínútu.