Byrjendalæsisnámskeið haustsins og smiðjur vetrarins

Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri hefur staðið að þróun kennsluaðferðarinnar Byrjendalæsi í samvinnu við skóla víðs vegar um land frá árinu 2004. Kennarar sem kenna eftir Byrjendalæsi fara í gegnum tveggja ára starfsþróunarferli sem samanstendur af haustnámskeiðum, vinnusmiðjum yfir skólaárið og stuðningi frá leiðtogum innan skólans.

Á hverju hausti byrjum við skólaárið á tveggja daga námskeiði fyrir kennara á fyrsta ári og dagsnámskeiði fyrir kennara á öðru ári. Á námskeiðunum eru læsisfræðin rifjuð upp og kynntar hagnýtar leiðir til að efla vinna með lesfimi, lesskilning, tal, hlustun og ritun með nemendum á yngsta stigi grunnskólans. Ennfremur eru sértækir þættir tungumálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift og orðaforði tengd inn í ferlið.

Byrjendalæsi sækir innblástur til kenninga um hugsmíðahyggju og nám án aðgreiningar og gert er ráð fyrir að börn læri best í samfélagi jafningja, með samvinnu, stigskiptum stuðningi og hvers konar námsaðlögun sem auðveldar kennurum að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra og áhugasvið. 

Í ár tóku rúmlega 100 kennarar víðsvegar af landinu þátt í haustnámskeiðunum okkar og hlökkum við mikið til að hitta þessa áhugasömu kennara á smiðjum vetrarins.