Fágæti og Furðuverk

p1010008_640Það var handagangur í öskjunni þegar unnið var að því á vegum Skólaþróunarsviðs að ganga frá efni í 35 bókaskjóður þróunarverkefnisins Fágæti og furðuverk og koma þeim út í fyrsta skólann sem tekur við verkefninu. Í hverri skjóðu er að finna:
Bók eða fræðilegt efni fyrir börn um eitthvert tiltekið þema.
Tímarit fyrir fullorðna um sama efni.
Verkefni fyrir börn sem tengist þemanu.
Leikföng eða hlutir sem tengjast þemanu.
Samskiptabók fyrir nemandann til að nota við mat á verkefninu og fyrir athugasemdir foreldra.

Félag bókaútgefenda færði Skólaþróunarsviði að gjöf bækur í bókaskjóður og gerði þróunar- verkefni þetta að veruleika. Tilgangur verkefnisins Fágæti og furðuverk er að efla læsi meðal barna og vekja forvitni þeirra og er gert að enskri fyrirmynd sem nefnis Curiosity kids. Þar eins og hérlendis hefur lestur drengja farið dvínandi en rannsóknir á verkefninu í Englandi sýna marktæk jákvæð áhrif þess á lestur í öllum bekkjardeildum sem þátt tóku í því.

p1010012_640Það er Glerárskóli sem fyrstur ríður á vaðið með Fágæti og furðuverk. Nemendur í 4. bekk skólans munu vikulega fá að taka heim með sér bókaskjóðu og vinna með efni hennar í samvinnu við foreldra sína eða forráðamenn en sérstaklega er þess óskað að faðir, bróðir eða frændi vinni með barninu. Með því er þess freistað að styrkja jákvætt viðhorf til lesturs einkum meðal drengja. Ætlast er til að meðfram lestrinum sé rætt um lesefni skjóðunnar og þau viðfangsefni ígrunduð sem hún hefur upp á að bjóða. Þess er vænst að á þann hátt geti skapast frjó umræða milli barna og foreldra út frá þeim þemum sem skjóðurnar bjóða upp á og aukin hvatning til nemenda í lestrarnáminu.