Ábyrgð skólastjóra grunnskóla

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 10. mars kl. 16:30. Þar ætlar Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit að fjalla um ábyrgð. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn.

Erindið byggir á samnefndu 30 ECTS eininga meistaraprófsverkefni frá HA vorið 2010. Annarsvegar er fjallað um skilning á orðinu ábyrgð og hinsvegar hver ábyrgð skólastjóra grunnskóla er í ljósi grunnskólalaga. Hugtakagreining var notuð til að skilgreina hugtakið en laga- og textagreining til að skoða lögin.

Fjallað verður um þrjú skilyrði sem uppfylla þarf ef einstaklingur á að geta borið fulla ábyrgð og þá hvernig sú ábyrgð birtist í lögunum þar sem skólastjóri hefur víðtækar ábyrgðarskyldur en hinsvegar er óljóst hvort hann geti axlað þá ábyrgð. Einnig verður fjallað um ábyrgð annarra hagsmunaaðila í skólastarfi þ.e. nemenda, foreldra og kennara.