Kennarar og starfsfólk grunnskóla á Norðurlandi eystra komu saman á Haustdegi grunnskólanna í HA

Haustdagur grunnskólanna var haldinn 14. ágúst í Háskólanum á Akureyri. Þar komu saman starfsfólk og stjórnendur úr 16 grunnskólum á svæðinu. Haustdagurinn var vel sóttur en um 300 kennarar, stjórnendur og annað starfsfólk grunnskóla tóku þátt. Haustdagarnir eru mikilvægur vettvangur fyrir starfsfólk skólanna til að dýpka faglega þekkingu, efla samheldni og styrkja samstarf innan skólasamfélagsins á svæðinu.

Boðið var upp á áhugaverða fyrirlestra og námskeið um fjölbreytt efni sem tengjast námi og kennslu, farsæld og velferð nemenda og starfsfólks í grunnskólum. Aðalerindi dagsins flutti Rúnar Sigþórsson, hann fjallaði um menntun sem grundvallarmannréttindi og afl til framfara og farsældar í samfélögum nútímans.

Málstofur fyrir hádegi tóku mið af efni nýrrar bókar sem nefnist Gæði kennslu og byggir að stórum hluta á niðurstöðum rannsóknarinnar QUINT sem lauk á síðasta ári. Þar var meðal annars fjallað um hagnýtar aðferðir í kennslu fjöltyngdra barna, munnlega endurgjöf, samræðumiðaða kennslu, vitsmunalegar áskoranir í kennslustofunni, sköpun og tækni.

Eftir hádegi kynntu kennarar fjölbreytt skólastarf með áherslu á bekkjarstjórnun, skapandi kennsluhætti, samþættingu námsgreina og samstarf heimila og skóla. 

Einnig var boðið upp á heilsdagsnámskeið í Fab Lab, náttúrufræði og notkun ritunarramma.

Deginum lauk með árganga- og fagfundum þvert á skólana.

Miðstöð skólaþróunar og undirbúningsteymi Haustdagsins vonast til að viðburðurinn hafi veitt þátttakendum innblástur sem mun nýtast í starfi með nemendum á komandi skólaári og þakkar þátttakendum fyrir góða og gefandi samveru.