Leiðtoganám í læsi 2024 - skráning hafin!

Leiðtoganám í læsi 
 
Námið er á framhaldsstigi og gefur 15 ECTS einingar. Meginmarkmið leiðtoganámsins er að styrkja kennara faglega sem leiðtoga í námssamfélagi læsiskennara í grunnskóla. Kennsla fer fram á þremur misserum og geta þátttakendur lokið því á einu og hálfu ári. Þátttakendur þurfa að vera starfandi kennarar og hafa möguleika á að tengja námið við starfsvettvang.
 
Í námsskeiðinu er sjónum beint að hlutverki leiðtoga í læsi. Jafnframt að gera þátttakendur meðvitaðri um eigin starfskenningu og hvernig starfstengd leiðsögn getur eflt faglega starfshæfni m.a. einstaklinga, hópa og reyndra kennara. Leiðtogi í læsi leiðir námssamfélag kennara í sínum skóla með félagastuðningi, samræðum um efni og aðferðir. Viðfangsefnin miða að því að auka og dýpka þekkingu kennara á fjölbreyttum aðferðum sem styðja og efla læsi á öllum stigum grunnskólans og færni í að nota þær. Fjallað er um leiðir til að efla orðaforða og skilning, ritun, samvinnunám og samræðu til náms. Athygli er beint að mikilvægi áhugahvatar fyrir læsisnám, sjálfstæði í námi, námsaðlögun og námsvitund. Á námskeiðinu er horft á viðfangsefni læsis í ljósi tækniþróunar nútímans. Kynnt verða smáforrit sem eru sérstaklega gerð til að þjálfa ýmsa færniþætti í læsisnámi grunnskólanemenda.
 

UMSAGNIR ÞÁTTTAKENDA

„Mér finnst námið hafa verið mjög gefandi og lærdómsríkt þar sem ég hef öðlast nýja reynslu í gegnum leiðtoganámið. Það hefur hjálpað mér að þróa með mér faglegan þroska sem leiðtogi og stjórnandi. Með ígrundun og hugleiðingum geri ég mér nú betur grein fyrir hvernig leiðtogi ég vil vera. Námið er vel upp byggt, einstaklega fjölbreytt og kennararnir eru styðjandi og afar hæfileikaríkir“
„Ég mæli heilshugar með leiðtoganáminu... Þessar þrjár annir hafa styrkt mig mikið sem kennara, verið lærdómsríkar og skemmtilegar. Kennarar MSHA eiga hól skilið fyrir gott utanumhald og stuðning við námið“

Kostnaður við námið er 150.000 kr. á önn. 
Heildarkostnaður 450.000 kr. fyrir þrjár annir. 

Skráning í leiðtoganámið.