Orð af orði - orðaforði

Miðstöð skólaþróunar hefur gert samning við Guðmund Engilbertsson lektor við HA um að hafa umsjón með þróunarstarfi undir merkjum kennslufræðinnar Orð af orði og/eða nýta kennslufræðina undir hatti annarra læsisverkefna í umsjá MSHA þar sem áhersla er lögð á orðaforða og lesskilning í skólastarfi.
 
Orð af orði er hugmynda-, kennslu- og aðferðafræði sem hefur að markmiði að efla læsi og námsárangur grunnskólabarna. Lögð er áhersla á að efla málumhverfi, kenna markvisst aðferðir við að sundurgreina námsefni og orð, greina merkingu og inntak, tengsl við annað efni, kortleggja aðalatriði og endurbirta á fjölbreyttan og heildrænan hátt. 
 
Við erum stolt af því trausti sem Guðmundur sýnir okkur og hlökkum til styðja skóla við að innleiða kennslufræðina, fylgja henni eftir og hjálpa skólum að laga aðferðir verkefnisins að sínu starfi og sérstöðu, mismunandi námssviðum, aldri nemenda og aðstæðum. 

Reynsla af verkefninu hefur verið góð, niðurstöður mælinga á lesskilningi, orðaforða og viðhorfum til lesturs sýna jákvæða þróun og margir skólar hafa opinberað slíkar niðurstöður. Þá hafa nokkur meistaraprófsverkefni þar sem Orð af orði kennslufræðin hefur verið notuð til að efla nám og kennslu komið út á undanförnum árum. Hægt er að kynna sér nánar rannsóknir á aðferðinni á vefsíðu hennar - Orð af orði.

Heiti verkefnisins er sérlega skemmtilegt en það sprettur af orðaleik þar sem „orðaforði“ er sundurgreint á frumlegan hátt í orð-af-orði.