Ragnhildur Íris Einarsdóttir hefur verið ráðin sem sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar (MSHA) í 50% stöðu. Hún starfar jafnframt í 50% stöðu sem kennsluráðgjafi hjá Múlaþingi.
Íris hefur rúmlega tuttugu ára starfsreynslu á vettvangi grunnskóla, meðal annars sem umsjónarkennari, sérkennari, deildarstjóri stoðþjónustu og tengiliður farsældar. Hún hefur víðtæka reynslu af ráðgjöf og fræðslu á sviði læsis og hefur leitt þróunarvinnu sem styður við árangursríka lestrarkennslu. Hún hefur jafnframt unnið að þróun kennsluhátta og þjónustu við börn með fjölbreyttar þarfir og veitt kennurum og teymum faglegan stuðning í því starfi. Síðustu tvö ár hefur Íris starfað sem kennsluráðgjafi og sinnt faglegri leiðsögn á sviði skólaþróunar.
Íris lauk B.Ed. prófi í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands árið 2003, diplómanámi í sérkennslufræðum frá HÍ 2018 og meistaraprófi í sérkennslufræðum og skóla margbreytileikans frá HÍ árið 2019. Hún er einnig PLATO-vottuð og hefur réttindi til að nýta PLATO sem greiningartæki í rannsóknum.