Rannsókn á lestrarvenjum og viðhorfum barna til lesturs og á notkun barnabókmennta í skólastarfi

Á undanförnum árum hefur hópur fræðimanna í fjórum háskólum í Evrópu unnið að rannsókn á lestrarvenjum barna á aldrinum 8–11 ára og jafnframt notkun barnabókmennta í skólastarfi. Markmiðið var að afla upplýsinga um stöðu mála, greina þær og kynna svo niðurstöður með fjölbreyttum hætti, með vefsíðu, á ráðstefnum, með greinaskrifum og útgáfu bæði skýrslu og kennsluefnis. Verkefnið var styrkt af Evrópusambandinu (Lifelong Learning Program). Háskólinn á Akureyri tók þátt í verkefninu ásamt Háskóla Vestur-Englands í Bristol á Englandi, Háskólanum í Mucia á Spáni og Gazi Háskóla í Ankara í Tyrklandi. Fyrir hönd HA tóku þátt Kristín Aðalsteinsdóttir prófessor við hug- og félagsvísindasvið og Guðmundur Engilbertsson sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar og lektor við hug- og félagsvísindasvið. Unnið var að rannsókn þar sem spurningalistar voru lagðir fyrir börn og kennara í löndunum fjórum og niðurstöður greindar tölfræðilega, settar í fræðilegt samhengi og ræddar. Einnig voru tekin rýnihópaviðtöl við börn og kennara til að fá frekari upplýsingar um lestur og notkun barnabókmennta í skólastarfi. Útbúnar voru leiðbeiningar fyrir kennara um notkun barnabókmennta í skólastarfi og eru þær aðgengilegar á vefsíðu verkefnisins, á ensku og spænsku. Jafnframt er skýrsla rannsóknarhópsins aðgengileg á vefsíðu verkefnis á ensku, svo og hér á vefsíðu miðstöðvar skólaþróunar.

Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:

  • Marktæk fylgni er milli bókakosts á heimili og áhuga barna á lestri.
  • Áhugi barna á lestri er breytilegur eftir landi, kyni og aldri en mikill meirihluti barna (yfir 70%) hefur yndi af að vinna með barnabókmenntir sem efnivið í skólastarfi.
  • Mikill meirihluti barna í Tyrklandi (80%) segist elska að lesa en aðeins þriðjungur íslenskra barna.
    Íslensk börn skrifa sjaldnar (ríflega 50%) um það sem þau lesa í skólanum en börn í hinum löndunum þremur (80–90%).
  • Í öllum löndunum lesa kennarar oft og títt fyrir nemendur sína, einkum í því skyni að efla áhuga þeirra á lestri en hins vegar sýna gögn að sammæli séu um gildi þess að nota barnabókmenntir í kennslu.
  • Á Englandi og Spáni tengja kennarar notkun barnabókmennta við ákvæði námskrár (96–100%) en einungis ríflega helmingur kennara á Íslandi og í Tyrklandi.
  • Enskir kennarar virðast nota barnabókmenntir með fjölbreyttari hætti en aðrir kennarar.
  • Tyrknesku kennararnir fá minni fræðslu um barnabókmenntir í sínu kennaranámi eða í gegnum sí- og endurmenntun að námi loknu. Þeir eru auk þess yngri og reynsluminni en aðrir kennarar.
  • Íslensku kennararnir virðast fylgjast mjög vel með útgáfu barnabóka og kynna sér þær – mun frekar en aðrir kennarar.
  • Aðeins ríflega helmingur íslensku kennaranna segja að í skólastofunum séu leskrókar eða leshorn en slíkt virðist nánast alsiða í hinum löndunum þremur (yfir 90%).

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sé staka þætti rannsóknar, skýrslu og kennsluefni er bent á vefsíðu verkefnis:http://www.um.es/childrensliterature/site/ 


Rannsóknarhópurinn á ráðstefnu í Tyrklandi