Rúmlega 300 kennarar á læsisráðstefnu

Um helgina fór fram ráðstefnan Læsi í skapandi skólastarfi. Ráðstefnan var haldin í samstarfi Menntamálastofnunar og Miðstöðvar skólaþróunar við HA. Á ráðstefnunni var fjallað um tengsl læsis og sköpunar með sérstakri áherslu á ritun, tjáningu og stafræna miðlun. Kennarar sem sóttu ráðstefnuna komu víða að landinu og af öllum skólastigum.  

Eliza Reid forsetafrú setti ráðstefnuna í gegnum netfund frá Bessastöðum. Hún lagði áherlsu á mikilvægi góðs lestraruppeldis og að börn og ungt fólk hefði aðgang að góðu og áhugaverðu lesefni.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar voru: Jackie Marsh, prófessor við Sheffield háskóla á Bretlandi og fjallaði hún um stafrænt læsi og makerspace,  Sigyn Blöndal og Sindri Bergmann Þórarinsson, dagskrárgerðarfólk RÚV sögðu frá KrakkaRÚV og verkefninu Sögur og Rannveig Oddsdóttir sem fjallaði um ritun í snjallari heimi.

 

Auk aðalfyrirlestra var boðið upp á málstofuerindi þar sem reifuð voru ýmis mál er lúta að læsi í skapandi skólastarfi og vinnustofur þar sem ráðstefnugestum gast tækifæri til kynnast og prófa aðferðir og verkfæri.

Deginum áður fór fram námstefna um Byrjendalæsi þar hittust kennara og hlustuðu á Jackie Marsh flytja erindi um stafrænt læsi. Að loknu erindi Jackie ræddu kennarar um efnið sem tekið var saman á Padletvegg. Fjöldi erinda um Byrjendalæsi og læsi almennt var á dagskrá og námsstefnugestir ánægðir með daginn.

Við þökkum öllum þeim fjölda kennara sem sótti ráðstefnuna Læsi í skapandi skólastarfi og námstefnu um Byrjendalæsi kærlega fyrir komuna. 

Myndir frá nám- og ráðstefnu