Smiðjur um læsi!

Í vetur hafa verið haldnar tíu Byrjendalæsissmiðjur með kennurum sem hafa verið á námskeiðum hjá okkur, leiðtogum og kennurum í endurmenntun. Á þessum smiðjum höfum við fjallað um læsi á fjölbreyttan hátt, meðal umfjöllunarefna skólaársins eru gagnvirkur lestur, fyrirmyndarkennsla, leiðir til að efla samræðu, tjáningu og hlustun, þróun ritunarkennslu og hvernig við nýtum sóknar- og matskvarða við mat á ritun, mismunandi ritunarrammar, snjalltækni í læsiskennslu, einstaklingsþarfir nemenda, samstarf heimila og skóla, athafnamiðað nám, samvinna nemenda, leiðir til að styðja við sjálfstæði nemenda, samþætting námsgreina, yndislestur og áhugahvöt. 

Umgjörð smiðjanna hefur verið með öðru sniði en venjulega vegna sóttvarnarreglna og hafa þær alfarið verið haldnar á vefnum með 50-100 þátttakendum um land allt. Fyrirkomulagið hefur gengið ljómandi vel fyrir sig og gefið kennurum tækifæri til að hittast og spjalla þvert á landið. Sérstaklega hafa kennarar í litlum skólum á landsbyggðinni fagnað þessu fyrirkomulagi þar sem þeim hefur með hjálp tækninnar gefist tækifæri til að kynnast og vinna með stórum hóp kennara. 

Við munum bjóða upp á smiðjur á vef næsta vetur og höfum fengið styrk í það verkefni frá Endurmenntunarsjóði grunnskóla. Skólar hafa þá val um að halda smiðjur í sinni heimabyggð eða taka þátt á vefnum. 

Að lokum langar okkur að þakka þeim fjölmörgu kennurum og leiðtogum sem komu að smiðjunum í vetur annað hvort sem þátttakendur eða sem aðstoðarmenn. Á myndinni sjáið þið Önnu Sigrúnu spjalla við þátttakendur en myndin er táknræn fyrir það fyrirkomulag sem hefur verið á smiðjunum í vetur.

Kærar þakkir fyrir veturinn, hlökkum til næsta skólaárs,
Anna Sigrún og Íris Hrönn