Snjallvagninn hlýtur styrk frá Norðurorku!

Snjallvagn MSHA hlaut á dögunum veglegan styrk frá Norðurorku til kaupa á þrívíddargleraugum.

Snjallvagninn miðar að því að efla kennara í að nýta tækni í skólastarfi. Á Snjallvagninum eru ýmis nýstárleg og spennandi kennslutæki á borð við rótbóta, tæknilegó og þrívíddargleraugu. Hugmyndin er að á Snjallvagninum verði að finna nýjustu kennslugögn í upplýsingatækni og miðlun hverju sinni og að Snjallvagninn sé færanlegur þannig að hægt sé að mæta þörfum nemenda og kennara víðsvegar um land með kynningum og námskeiðum.

Lagt er upp með að tækin á Snjallvagninum henti öllum aldurshópum frá leikskóla og upp í framhaldsskóla. Auk þess er litið svo á að tæknin sé þverfaglegt kennslutæki þar sem lært er í gegnum leik og lausnaleit.

Snjallvagninn hefur nýst sérlega vel við hin ýmsu tækifæri og meðal annars komið við sögu á námskeiðum fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, í heimsóknum leik- og grunnskólabarna í HA, á kynningum og snjallsmiðjum með nemendum og kennurum úti í skólum landsins, í jafningjafræðslu í Menntabúðum Eyþings, í námi kennara við kennaradeild HA og í verkefnum á borð við Barnamenningarhátíð Akureyrar, Vísindaskóla unga fólksins í Háskólanum á Akureyri og Stelpur og tækni á vegum Háskólans í Reykjavík, SKÝ og Samtaka iðnaðarins. Einnig hafa tækin nýst vel í ýmsum þróunarverkefnum sem miða að því að tengja snjalltækni, málrækt og sköpun í leik- og grunnskólum.

Við erum Norðurorku afar þakklát fyrir styrkinn en Norðurorka hefur stutt við verkefnið frá því að það hófst árið 2016.