Þróunarverkefnið Lítil skref á leið til læsis hlýtur Íslensku menntaverðlaunin 2025

Lítil skref á leið til læsis hlýtur Íslensku menntaverðlaunin 2025

Íslensku menntaverðlaunin 2025 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 4. nóvember. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum og hlaut verkefnið Lítil skref á leið til læsis, samstarfsverkefni leikskólans Grænuvalla, Borgarhólsskóla á Húsavík og Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni.

Verkefnið fjallar um málörvun og læsi og miðar að því að efla samfellu og samstarf milli leik- og grunnskólastigs með auknu samráði kennara og öflugri foreldrafræðslu. Í verkefninu fléttast kennslufræði leik- og grunnskóla saman og áhersla lögð á að efla læsi í gegnum leik og aðferðir Byrjendalæsis.

Í Byrjendalæsi er unnið með áhugaverða texta og barnabækur til að kveikja lestraráhuga barna. Í gegnum vinnu með gæðatexta er unnið með orðaforða, hljóðkerfisvitund, lesfimi, samræðu, tjáningu, hlustun og ritun á skapandi hátt. Áhersla er lögð á að tengja þekkingu og reynslu barnanna við námið og að þau öðlist skilning á því að lestur og ritun hafi raunverulegan tilgang.

Annar áhugaverður þáttur í verkefninu er aðkoma sjúkraþjálfara sem metur fínhreyfingar barnanna og veitir þeim markvissa þjálfun eftir þörfum.

Við hjá Miðstöð skólaþróunar erum stolt af þessu framúrskarandi þróunarstarfi sem við höfum fengið tækifæri til að taka þátt í með kennurum, foreldrum og börnum á Húsavík og hlökkum til að halda áfram að þróa verkefnið áfram. Til hamingju öll. 

Lesa má nánar um verkefnið á vefsíðunni Lítil skref á leið til læsis.