Viðmót kennara og áhrif þess á námsumhverfi barna í leikskólum. “Ef stefna skólans slær ekki í takt við hjarta þitt ber hún lítinn sem engan árangur”

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 4. nóvember kl. 16:30. Þar flytur Drífa Þórarinsdóttir, deildarstjóri á leikskólanum Kiðagili á Akureyri fyrirlestur um viðmót kennara og áhrif þess á námsumhverfi barna í leikskólum. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn.

Megintilgangur verkefnisins var að kanna viðmót leikskólakennara, áhrif þess á námsumhverfi barna og skilning kennara á eigin viðmóti. Þá var kannað hvort viðmót kennara geti verið háð agastefnu skólans og starfsreynslu kennara. Kveikjan að verkefninu var áhugi höfundar á samskiptum kennara og barna í skólum. Ef litið er til rannsókna á samskiptun kennara og barna í skólastofunni þá hefur komið fram að viðmót kennara skiptir miklu máli og hefur áhrif á nám og þroska barna. Í málstofunni verður stuttlega gerð grein fyrir fræðilegum þáttum sem lagðir voru til grundvallar í rannsókninni og niðurstöður rannsóknarinnar kynntar.