Smiðja í Byrjendalæsi 2 fyrra ár - Samræða, tjáning og hlustun

Byrjendalæsi er samvirk nálgun í læsiskennslu barna 1. og 2. bekk. Samvirk aðferð fellur mitt á milli eindaraðferða og heildaraðferða. Eindaraðferðir byggja á því að umskráningarferlið sé línulegt sem leiðir til þess að tæknilegir þættir læsis eru þjálfaðir í aðskildum einingum og í ákveðinni röð. Gengið er út frá því að ferlið byrji á ritmálinu með því að umskrá rittákn í málhljóð. Nemendur læra fyrst bókstafina og hljóð þeirra og tengja þá síðan í orð og orð í setningar og þær síðan í merkingabærar heildir. Hljóðaaðferðin er ein þeirra aðferða sem tilheyra eindaraðferðinni. Heildaraðferðin er orðaaðferð sem gengur í eina átt þ.e. frá hinu stóra til hins smáa. Byrjendalæsi sækir innblástur til kenninga um hugsmíðahyggju og nám án aðgreiningar og gert er ráð fyrir að börn læri best í samfélagi jafningja, með samvinnu, stigskiptum stuðningi og hvers konar námsaðlögun sem auðveldar kennurum að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra og áhugasvið. V

ið samsetningu Byrjendalæsis var meðal annars stuðst við kenningar Gudschinsky, Frost, Rumelhart, Solity og Leimar. Ennfremur var sótt til NRP2000 rannsóknarinnar þar sem kemur fram mikilvægi þess að kennsluaðferðir í læsi feli í sér nálgun sem nái til allra þátta móðurmálsins. Þannig er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld í eina heild undir hatti læsis. Ennfremur eru sértækir þættir tungumálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði og lesskilningur tengd inn í ferlið.

Nám í Byrjendalæsi tekur tvö ár og samanstendur af tveggja daga grunnnámskeiði að hausti á fyrsta ári og dagsnámskeiði á öðru ári. Til viðbótar við haustnámskeiðin hittast kennarar fimm sinnum á hvoru ári í smiðjum (alls 10 smiðjur). Í smiðjunum koma kennarar saman, kynna sér nýjar aðferðir, ræða saman og miðla efni sín á milli. Smiðjurnar eru haldnar á vegum MSHA á vefnum en einnig geta leiðtogar í skólum á ákveðnu svæði tekið sig saman og haldið smiðjur. Áður en kennarar koma á smiðjur horfa þeir á fyrirlestra á Canvas með innleggi frá ráðgjöfum MSHA (1–1,5 klst). Við mælum með því að kennarar horfi saman á smiðjurnar ef fleiri en einn kennari úr hverjum skóla er í náminu. Einnig eru fyrirlestrarnir góð upprifjun fyrir eldri Byrjendalæsiskennara sem hafa lokið námi. Nýlega voru allir fyrirlestrar styttir og endurgerðir og því um að gera að nýta þá t.d. á Byrjendalæsisfundum í skólanum.

Á smiðjunum er unnið með ákveðin viðfangsefni/þemu með umræðum og verkefnavinnu.

Hver smiðja stendur yfir frá klukkan 14:00–16:00. 

Smiðjurnar eru fyrir kennara sem eru í Byrjendalæsisnámi og Byrjendalæsiskennara sem vilja nýta smiðjurnar sem endurmenntun.

Hlekkur á fundinn