Ágrip af erindum

Jane Carter, dósent við UWE háskóla í Bristol

The transformational professional - What makes a good teacher of reading?
Learning to read is a vital foundation to becoming a literate, educated person. Reading offers opportunities for enjoyment, for increasing our knowledge of the world and for enhancing our imagination and creativity. It also gives people access to improved life chances.

There is a shared understanding of the importance of reading but debate continues about how best to teach it. However, perhaps an equally important question is how we teach teachers to teach reading so that children learn to be effective and engaged readers. The presentation will explore what makes a good teacher of reading, drawing on the work of Hattie, (2009) and Mohan et al. (2008) and further explored in the ‘Learning and Teaching of Children’s Literature’ Comenius research project (2011).  More can also be learnt from initial teacher education, where trainees come with very fixed views of literacy and according to Mutton et al. (2010) a perceived view of the identify of teachers, which appears to change little over the course of their training.


 


Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri.

Gefið barni mínu lestrarhungur! 
„Ó voldugu álfkonur gefið nýfæddu barni mínu ekki aðeins heilsu, fegurð, ríkidæmi og allt hitt sem þið eruð vanar að koma stormandi með – gefið barni mínu lestrarhungur. Þess óska ég af öllu mínu brennandi hjarta“. Skyldu margir foreldrar setja þessa ósk Astridar Lindgren á oddinn þegar þeir hugsa um framtíð barnanna sinna? Skyldu kennarar almennt vera meðvitaðir um tengsl lestrarhungurs og árangurs í skóla? Skyldi samfélagið almennt átta sig á mikilvægi þess að börn upplifi lestrarþrá, löngun eftir að lesa meira. Lestraráhugi er eins og aðrar vöggugjafir álfkvennanna; forgengilegur og alls ekki sjálfsagður. Þótt sum börn öðlist áhuga á bóklestri eins og fyrir töfra þá þarf að vekja og virkja lestraráhuga miklu stærri hóps. En hvernig er það hægt og hvað þarf að hafa í huga? Hér verður rætt um bókaormaeldi út frá reynslu og rannsóknum fræðimanns og barnabókahöfundar.


 


Guðmundur Engilbertsson, lektor við Háskólann á Akureyri

Lestrarvenjur barna og notkun barnabókmennta í skólastarfi
Árin 2010–2011 tóku Háskólinn á Akureyri, Háskóli Vestur-Englands í Bristol á Englandi, Háskólinn í Murcia á Spáni og Gazi háskólinn í Ankara í Tyrklandi þátt í rannsókn á lestrarvenjum barna á aldrinum 8–11 ára og notkun barnabókmennta í námi og kennslu í löndunum fjórum. Markmiðið var að afla upplýsinga um stöðu lesturs og barnabókmennta, greina og kynna niðurstöður með fjölbreyttum hætti. Spurningalistar voru lagðir fyrir börn og kennara og niðurstöður greindar, settar í fræðilegt samhengi og ræddar. Einnig voru tekin rýnihópaviðtöl við börn og kennara til að fá frekari upplýsingar um lestur og notkun barnabókmennta í skólastarfi. Útbúnar voru kennsluleiðbeiningar sem eru aðgengilegar á vefsíðu verkefnisins ásamt skýrslu um niðurstöður rannsóknar í heild. Í erindinu verða meginniðurstöður rannsóknar kynntar og ræddar og áhersla lögð á niðurstöður hérlendis.


 

Ágrip af málstofuerindum

Að segja sögu, aðferð í kennslu yngri barna
Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri.

Ef mynd er á við þúsund orð þá er saga á við þúsund hugmyndir (Simmons, 2001). Sögur geta þjónað margvíslegum tilgangi og verið leið í kennslu. Þær eru óþrjótandi brunnur kennsluhugmynda, gluggi út í heiminn, plástur á sárin eða öryggislína í fallvöltum heimi. Þær efla málþroska, auka hugtakaskilning og málvitund en færa einnig á milli kynslóða sagnaarfinn og menninguna. Góður sögumaður getur vakið persónur til lífsins, aukið spenninginn eða dýpkað lærdóminn.

Erindi þetta er um sögur sem aðferð í kennslu barna á leikskólaaldri og yngstu bekkjum grunnskóla. Fjallað verður um hversvegna sögur eru sagðar út frá niðurstöðum rannsókna og hvernig nota má þær í skólastarfi. Farið er yfir grunnþættina á bak við það að segja góða sögu með árangursríkum hætti og kynntar ólíkar aðferðir við að segja sögur en einnig hvernig má nota hjálpargögn til að dýpka upplifunina eða halda betur athygli. Að lokum verður fjallað um aðferðir við að kenna börnum að semja og segja sögur frá unga aldri.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

„Það verður ekkert aftur snúið“. Áhrif innleiðslu Byrjendalæsis í grunnskóla í Reykjavík á samvinnu, forystu og starfsþróun í skólanum
Arndís Steinþórsdóttir, Foldaskóla og Dr. Rúnar Sigþórsson, kennaradeild HA.

Byrjendalæsi er tveggja ára þróunarverkefni sem miðar að því að efla lestrarkennslu út frá fræðilegum hugmyndum um læsi. Innleiðsla verkefnisins er byggð á tveggja ára þróunarferli í samstarfi við ráðgjafa frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Í málstofunni verður sagt frá rannsókn sem var gerð skólaárið 2010–2011 og beindist að innleiðsluferlinu í einum grunnskóla í Reykjavík. Markmið hennar var að að kanna á hvern hátt innleiðsla Byrjendalæsis í grunnskóla í Reykjavík hefði haft áhrif á samvinnu, forystu og starfsþróun á yngsta stigi skólans? Rannsóknin var eigindleg tilviksrannsókn. Gögnum var safnað með hálf-formgerðum einstaklings­viðtölum og með því að skoða gögn sem tilheyrðu innleiðslunni.

Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að kennarar sem tóku þátt í innleiðslunni hafi að mestu leyti náð tökum á þeirri kennslutilhögun sem felst í Byrjendalæsi en síður náð að tileinka sér þá samvinnu og forystu sem innleiðsla verkefnisins krefst. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á Byrjendalæsi og engin á innleiðsluferli þess fyrr en nú. Þótt ekki sé hægt að alhæfa út frá niðurstöðum rannsóknarinnar geta þær dýpkað skilning og aukið þekkingu á því hvernig standa á að innleiðslu Byrjendalæsis og hliðstæðra þróunarverkefna í skólum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Notkun dagblaðatexta og  annarra fjölmiðla í kennslu
Auður Huld Kristjánsdóttir, kennari í Breiðagerðisskóla RVK.

Að nota fjölmiðla í kennslu getur gert námið áhugavert og spennandi fyrir nemendur.  Það er gott að líta aðeins út fyrir ramma kennslubókanna og nýta sér það sem umhverfið hefur uppá að bjóða.  Á hverjum degi koma út blöð með ótal greinum, fréttum og frásögnum sem auðvelt er að nýta í kennslu. Útvarp og sjónvarp og allt það efni sem finnst á netinu er einnig vel aðgengilegt.
Þegar við vinnum með ákveðinn námsþátt er hægt að finna ótal útfærslur en þegar hægt er að tengja hann við málefni líðandi stundar gerir það verkefnið áhugavert.  Það að nemendur fá val um með hvaða efni hann vinnur þegar styrkja á ákveðna námsþætti eykur það áhuga hans.
Ef  lesið er dagblað að morgni, hlustað á fréttir í útvarpi yfir daginn og horft á fréttir í sjónvarpi eða á netinu getur það gefið nemendur mismunandi sýn á þá hluti sem fjallað er um.  Hægt er að samtvinna margar námsgreinar í kennsluna og segja má að vinnan verði þverfagleg.
Verkefnin geta verið margvísleg.  Nemendur geta leitað eftir fréttum í fjölmiðlum frá útlöndum, skoðað að því loknu kort og leitað  sér frekari upplýsinga.  Ef unnið er með íslensku eru fyrirsagnir góðar kveikjur í ritun, að leita að orðum í ákveðnum orðflokkum í blaði hjálpar okkur að þekkja orðflokkana og að skoða ákveðna þætti í stafsetningu með því að leita af þeim í blöðum getur einnig hjálpað til við að nemendur muni betur það sem áhersla var lögð á.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Að efla kennslu í ritun út frá fjölbreyttum textategundum
Ásta Björk Björnsdóttir, meistaranemi  við kennaradeild HA og Dr. Rúnar Sigþórsson, kennaradeild HA.

Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð þar sem meðal annars er lögð rík áhersla á ritun úr frá fjölbreyttum textategundum.  Í málstofunni verður greint frá niðurstöðum starfendarannsóknar sem gerð var á haustönn 2011. Markmið hennar var að kanna hvernig unnt væri að efla færni kennara í að kenna ritun út frá tveimur gerðum ritunarramma frá Lewis og Wray (1996), annars vegar fyrir endursögn og hins vegar fyrir leiðbeiningartexta. Rannsóknin beindist að því að kanna hvaða stuðningur nýttist kennurum, hvernig ritunrrammar nýttust í kennslunni og hvar og hvernig árangur nemenda birtist. Þátttakendur voru 9 umsjónarkennarar sem kenndu 2. og 3. bekk og höfðu allir kennt, í minnst tvö ár, undir merkjum Byrjendalæsis. Á rannsóknartímabilinu unnu kennarar í beinum tengslum við rannsakanda og nutu handleiðslu hans. Helstu niðurstöður sýndu breytt viðhorf og aukið öryggi þátttakenda í kennslu ritunar. Einnig kom fram aukin árangur hjá nemendum í þeim þáttum sem einkenndu  ritunarrammana.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Lestrarvenjur ungra bókaorma
Brynhildur Þórarinsdóttir, Kristín Heba Gísladóttir og Þorbjörg Ólafsdóttir.

Rannsóknir sýna að áhugi íslenskra barna og unglinga á bóklestri hefur minnkað mikið sl. áratugi. Íslenskir nemendur eru auk þess undir meðaltali 35 Evrópulanda í lestraráhuga. Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni enda er ánægja af lestri bóka einn helsti forspárþátturinn fyrir gott gengi í lesskilningi í PISA-prófunum. Góður lesskilningur er svo aftur undirstaða alls náms. Það er því mikilvægt að komast að því hvað gerir börn að áhugasömum  lesendum og hvernig fjölga megi lestrarhestum í grunnskólum. Finna þarf þá bakgrunnsþætti sem til staðar verða að vera til að krakkar öðlist – og viðhaldi – áhuga á bóklestri. Hér verður greint frá fyrstu niðurstöðum rannsóknar á lestrarvenjum ungra bókaorma sem fram fer sumarið 2012. Þátttakendur eru börn á sumarlestrarnámskeiðum Amtsbókasafnsins á Akureyri. Bæði er um rýnihópaviðtöl að ræða og einstaklingsviðtöl, sem og rýnihópaviðtöl við samanburðarhópa á öðrum tómstundanámskeiðum á Akureyri. Sumarlestrarnámskeiðin sækja börn sem njóta bóklestrar og lesa mikið. Fáir staðir gefa færi á jafngóðu úrtaki þegar markmiðið er að leita svara við því hvernig börn öðlast áhuga á bóklestri og hvað gera þurfi til að efla lestraráhuga skólabarna. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa því tvímælalaust hagnýtt gildi fyrir skólakerfið.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Orðin okkar – orðin þeirra. Um rof í orðaforða milli kynslóða
Fríða Pétursdóttir, kennari í Glerárskóla á Akureyri
(M.Ed. verkefni (Menntavísindasvið HÍ 2011).

Umræður og vangaveltur meðal íslenskukennara um slakan orðaforða nemenda urðu kveikjan að rannsókninni. Rannsakandi hefur orðið var við að margir kennarar telja að nemendur þeirra eigi í erfiðleikum með að skilja daglegt mál lærifeðra sinna og að þeir eigi stundum í erfiðleikum með að lesa bókmenntir sem taldar eru til nútímabókmennta vegna þess að málfarið reynist þeim erfitt og framandi.

Fræðilegur grunnur rannsóknarinnar er sóttur til félagslegra málvísinda (e. sociolinguistics) með það fyrir augum að reyna að öðlast skilning á málfélagslegum veruleika kennara og nemenda.

Rannsóknin er rýnihóparannsókn sem gerð var á Akureyri. Rætt var við fjóra rýnihópa; nemendur í 10. bekk grunnskóla, nemendur á lokaári í framhaldsskóla og íslenskukennara í grunn- og framhaldsskólum Akureyrar. Í hverjum hópi sátu sex einstaklingar. Í hópunum voru rædd viðhorf  þátttakenda til þess hvort hugsanlega hafi orðið rof í orðaforða milli kynslóða.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að viðmælendur telja að það megi greina ákveðið rof í orðaforða milli kynslóða sem þeir telja að megi rekja til samfélagsbreytinga nútímans og einangrunar kynslóða sem leiði af þessum breytingum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Yndislestur í skóla – af hverju – og hvað þarf til?
Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA.

Yndislestur er lýsandi orð um lestrariðju sem er drifinn áfram af áhuga þess sem les. Við skipulag yndislesturs þarf að huga að mikilvægum forsendum. Lesandinn þarf að geta fundið sér áhugavert og viðráðanlegt lesefni, hafa gott aðgengi að því, tíma til að lesa, njóta og ígrunda og geta rætt um efnið við aðra – án þess að það verði að kvöð fyrir viðkomandi.

Í umræðu um gildi lesturs fyrir læsi, nám og hugsun hefur borið á sjónarmiðum þess efnis að yndislestur uppfylli ekki námsleg skilyrði, ekki sé nægileg úrvinnsla á lesefninu, lesturinn tengist ekki öðru námi auk þess sem val á forsendum frelsis og yndis geti varla staðið undir miklum væntingum um nám. Þegar skólar verja tíma í yndislestur gefa þeir því í raun mikilvæga yfirlýsingu um gildi lesturs fyrir nám.

Í málstofuerindinu verður gerð grein fyrir gildi yndislesturs fyrir málvitund, orðaforða, lesskilning, ritháttarvitund, ritun og námsárangur. Vísað verður í rannsóknir á yndislestri og reynslu skóla af yndislestri, m.a. í verkefninu Orði af orði sem margir grunnskólar á Íslandi hafa innleitt í sínu starfi. 

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Mat á lestri með læsisprófum
Halldóra Haraldsdóttir, dósent við kennaradeild, Hug og félagsvísindasvið  HA, Kjartan Ólafsson, lektor við  félagsvísindadeild,  Hug og félagsvísindasvið  HA og Rúnar Sigþórsson, prófessor við kennaradeild, Hug og félagsvísindasvið  HA.

Frá árinu 2005 hefur árangur nemenda í fyrsta og öðrum bekk grunnskóla, sem hafa kennt samkvæmt lestrarkennsluaðferðinni  Byrjendalæsi,  verið metinn með skimunarprófinu Læsi.  Prófið er þýðing og staðfærsla á norsku skimunarprófi sem hannað hafði verið í þeim tilgangi að finna börn í lestrarvanda.   Í erindinu verður litið á eiginleika prófanna með hliðsjón af því hvort unnt sé að nota þau til að meta almenna færni barna í lestri fremur en að notkun þeirra sé takmörkuð við að finna börn í lestrarvanda.  Litið er á niðurstöður um 17 þúsund prófa sem safnað hefur verið meðal nemenda í 44 grunnskólum og horft bæði á meðaltalsárangur og dreifingu á einstökum prófum.  Innri áreiðanleiki prófanna er metinn með alpha stuðli.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Kynjamunur í lestrarfærni nemenda á fyrstu stigum grunnskóla
Halldóra Haraldsdóttir, dósent við kennaradeild, Hug og félagsvísindasvið  HA, Kjartan Ólafsson, lektor við  félagsvísindadeild,  Hug og félagsvísindasvið  HA og Rúnar Sigþórsson, prófessor við kennaradeild, Hug og félagsvísindasvið  HA.

Nokkur umræða hefur skapast á undanförnum misserum um kynjamun í lestri og lesskilningi nemenda í Íslenskum grunnskólum.  Í þessu erindi verður skoðað hvort slíkur kynjamunur er til staðar hjá nemendum í fyrstu tveimur bekkjum grunnskóla.  Notuð eru gögn sem safnað hefur verið í skólum sem hafa kennt samkvæmt lestrarkennsluaðferðinni Byrjendalæsi og árangur nemenda verið metinn með skimunarprófinu Læsi.  Samtals er um að ræða um 17 þúsund próf sem lögð hafa verið fyrir nemendur í 44 grunnskólum frá árinu 2005.  Niðurstaðan leiðir í ljós að kynferði skýrir aðeins um 1 til 3 prósent af breytileika í lestrarfærni nemenda á fyrstu tveimur árum grunnskólans.  Sá munur sem kemur fram meðal eldri nemenda í öðrum rannsóknum virðist því ekki vera til staðar hjá nemendum við upphaf grunnskóla.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Breytileiki milli skóla í lestrarfærni nemenda í fyrstu bekkjum grunnskóla
Halldóra Haraldsdóttir, dósent við kennaradeild, Hug og félagsvísindasvið HA, Kjartan Ólafsson, lektor við  félagsvísindadeild, Hug og félagsvísindasvið HA og Rúnar Sigþórsson, prófessor við kennaradeild, Hug og félagsvísindasvið HA.

Almennt hafa rannsóknir sýnt minni breytileika milli skóla í námsárangri Íslenskra nemenda en gengur og gerist í mörgum öðrum löndum.  Í þessu erindi verður sjónum beint að lestrarfærni og hvort unnt sé að greina breytileika milli skóla hjá nemendum í fyrsta og öðrum bekk. Notuð eru gögn sem safnað hefur verið í skólum sem hafa kennt samkvæmt lestrarkennsluaðferðinni Byrjendalæsi og árangur nemenda verið metinn með skimunarprófinu Læsi.  Samtals er um að ræða um 17 þúsund próf sem lögð hafa verið fyrir nemendur í 44 grunnskólum frá árinu 2005.  Niðurstaðan leiðir í ljós annars vegar að umtalsverður breytileiki (á bilinu 8 til 20 prósent) er milli skóla en hins vegar að þessi munur er ekki stöðugur milli ára þannig að skólar sem að meðaltali standa sig vel eitt árið gera það ekki endilega næsta ár.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Vinna faghóps Menntasviðs Reykjavíkurborgar um náttúrufræðinám og læsi
Haukur Arason, dósent við Menntavísindasvið HÍ.

Fyrir rúmum tveimur árum setti Menntasvið Reykjavíkur á laggirnar faghóp til að fjalla um kennslu í náttúrufræði í kjölfar niðurstaðna úr PISA prófinu og að finna leiðir til að bæta kennsluhætti í ljósi þeirra áherslna á nám sem felast í nálgun PISA. Samanstóð hópurinn af nokkrum öflugum náttúrufræðikennurum og fræðimönnum á sviðið náttúrufræðimenntunar. Starf hópsins fólst í því að kynntar voru fyrir kennurunum alþjóðlegar hugmyndir um náms- og kennsluaðferðir til að efla læsi innan náttúrufræðigreina, þessar aðferðir ræddar og metið hvort þær gætu hentað í íslensku skólaumhverfi. Kennararnir prófuð síðan vænlegar aðferðir í sinni eigin kennslu og að lokum var reynsla af því starfi rædd. Jafnframt þessu komu upp nýjar hugmyndir um leiðir til að efla læsi nemenda innan náttúrufræða. Í erindinu verður fjallað um lærdóma af starfi faghópsins.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Orðaspjall með leikskólabörnum.
Kynning á árangursríku þróunarverkefni „Bók í hönd og þér halda engin bönd“
Inga María Ingvarsdóttir, leikskólastjóri og Árdís Hrönn Jónsdóttir, verkefnastjóri.

Í málstofunni verður kynnt handbók sem nefndist Orðaspjall með leikskólabörnum. Hún byggir á þróunarverkefninuBók í hönd og þér halda engin bönd; að efla mál- og læsisþroska leikskólabarna með bóklestri.
Haustið 2009 hófst í Tjarnarseli þróunarverkefnið  Bók í hönd og þér halda engin bönd, að efla mál- og læsisþroska leikskólabarna með bóklestri. Verkefnið fékk styrk til handbókargerðar úr Þróunarsjóði námsgagna leik-, grunn- og framhaldsskóla og úr Manngildissjóði Reykjanesbæjar. Vinnan við handbókina er á loka stigi og er  áætlað að hún komi út á haustmánuðum 2012. Handbókin er unnin í samvinnu við Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi v/Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Leikskólakennarar og leikskólaleiðbeinendur Tjarnarsels hafa undir stjórn Árdísar Hrannar Jónsdóttur þróað aðferð sem kallast Orðaspjall sem gefur möguleika á að vinna markvisst að því að auka orðaforða og hlustunarskilning tveggja til sex ára leikskólabarna. Hún felst í að  kenna orð úr barnabókum í gegnum samræður og leiki. Einnig hefur Orðaspjalls aðferðin verið fléttuð inn í allt starf leikskólans til að mynda í vettvangsferðir, þemastarf, matmálstíma og  í samverustundir þegar lesið er fyrir börnin, þeim sagðar sögur og kenndar vísur og þulur. 

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Lestur barna heima;  barnið, fjölskyldan og kennarinn
Ingibjörg Auðunsdóttir, miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.

Sagt verður frá nýlegum straumum, stefnum og niðurstöðum rannsókna á lestri barna og ungmenna utan skóla. Leitað verður árangursríkra aðferða tengdum heimalestri barna. Athyglinni verður beint að þáttum úr fræðunum um lestur barna heima sem stuðla að áhuga og námsárangri þeirra. Aðferðir Byrjendalæsis verða gaumgæddar með tilliti til þess sem fram kemur í fræðunum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Margbreytileikinn í barnabókum
Dr. Jórunn Elídóttir, kennaradeild Háskólanum á Akureyri.

Barnabókmenntir geta virkað bæði sem gluggi og spegill: sumir sögur eru sem gluggar þar sem sjá má m.a. menningu og veruleika annarra en okkar eigin, á meðan aðrar sögur geta verið sem speglar til að endurspegla eigin reynslu, menningu og fleira. Barnabækur eru oft eitt af því fyrsta sem foreldrar ættleiddra barna nýta til að  ræða ættleiðinguna, uppfræða barnið um uppruna sinn sem og til að veita þeim innsýn í þá menningu og líf sem tilheyri upprunalandi barnsins. Bækur sem barnið les síðar og varða þessi málefni geta vakið upp margar spurningar en eru ekki alltaf þannig að þær hafi svörin líka. Bækur skrifaðar af þeim sem ekki þekkja til eða hafa litla reynslu af ættleiðingu barna geta oft gefið ranga eða skakka mynd af þeim veruleika sem ættleidd börn búa við. Barnabækur eru margar hverjar viðhorfsskapandi, sögur og myndir vekja upp spurningar sem gefa tækifæri til umræðan um ólík málefni heima og í skólum. Í erindinu verður rýnt í nokkrar íslenskar og erlendar barnabækur (m.a. lestrarbækur) og skoða hvernig fjallað er um ættleiðingar, mismunandi uppruna/ litarhátt og mismunandi fjölskyldur. Leitað er svara við því hvernig þessi málefni eru kynnt og hvernig þau birtast í barnabókum. Einnig er velt upp spurningu um hvernig þessar bækur skapa merkingu sem auðveldar öllum börnum að  skilja margbreytileika heimsins.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Viðhorf nemenda til náms í lestri og ritun undir merkjum Byrjendalæsis
Kristín Ármannsdóttir meistaranemi  við kennaradeild HA og Dr. Rúnar Sigþórsson kennaradeild HA.

Í kennsluaðferðinni Byrjendalæsi er lögð áhersla á að vekja áhuga nemenda á læsi með því að gera læsisnámið skemmtilegt og tryggja að það feli í sér samskipti. Í málstofunni verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar þar sem leitað var svara við eftirfarandi spurningu: Hver eru viðhorf nemenda sem læra undir merkjum Byrjendalæsis til lesturs og ritunar og hvað mótar viðhorf þeirra til námsins?
Rannsóknin var gerð á haustönn 2011 í þremur skólum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir höfðu höfðu allir lokið tveggja ára innleiðingu Byrjendalæsis og hafa þá stefnu að vinna eftir aðferðinni. Tekin voru viðtöl við nemendur í 2. bekk og farið í vettvangsheimsóknir í skólastofur nemendanna. Þá voru tekin viðtöl við kennara og foreldra barnanna.

Fyrstu niðurstöður benda til að þau verkefni sem bjóða upp á samvinnu höfði vel til nemenda og veiti þeim ánægju. Þá finnst nemendum það jákvæð upplifun að hafa eitthvað um nám sitt að segja til dæmis með vali viðfangsefna.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Innleiðingarferli Byrjendalæsis: Hvað segja kennarar og leiðtogar?
María Steingrímsdóttir, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Eygló Björnsdóttir.

Þessi málstofa fjallar um efni sem er hluti af stærri rannsókn á Byrjendalæsi. Byrjendalæsi hefur að markmiði að efla læsi grunnskólanema m.a. með starfsþróun kennara og  hafa nú u.þ.b. 60 skólar tekið þátt í því. Hér verður fjallað um niðurstöður sem unnar eru úr mati grunnskólakennara og leiðtoga á innleiðingaferli Byrjendalæsis og þeirri þjónustu sem miðstöð skólaþróunar við HA veitir við það. Gögnin ná yfir tímabilið frá 2006–2012.  Í málstofunni verður reynsla og viðhorf  kennara og leiðtoga af innleiðslu Byrjendalæsis og áhrif þess á starf þeirra skoðað. Það verður gert í ljósi þeirrar aðferðar sem þróuð hefur verið við  innleiðingu á  Byrjendalæsi og kenninga um starfsþróun. Niðurstöðurnar sem hér er fjallað um gefa vísbendingar um gildi verkefnisins fyrir kennara og leiðtoga sem þátt taka í því. Þær ættu jafnframt að nýtast leiðtogum, ráðgjöfum og öðrum þeim sem koma að innleiðingarferli Byrjendalæsis við frekari þróun þess. Þær gefa einnig vísbendingar sem nýtast sem grunnur að frekari rannsóknum á starfsþróun kennara í Byrjendalæsi.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ritaðar frásagnir og upplýsingatextar barna í 1. bekk
Rannveig Oddsdóttir, doktorsnemi við HÍ.
Meðhöfundar: Dr. Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við HÍ og Dr. Freyja Birgisdóttir, lektor við HÍ.

Fyrir byrjendur í ritun er textaritun erfitt viðfangsefni. Þar háir börnum ekki bara lítil færni í umskráningu, heldur einnig takmörkuð þekking á textategundum og færni í að setja saman langar samfelldar ræðueiningar. Rannsóknir sýna engu að síður að allt frá upphafi ritunar reyna börn að skrifa texta sem hefur ákveðna merkingu og gera mismunandi textagerðum skil á ólíkan hátt. Rannsóknir sýna jafnframt að kennsla í ritun og textagerð getur haft afgerandi áhrif á frammistöðu barna í textaritun. Nær engar rannsóknir hafa verið gerðar á ritaðri textagerð íslenskra barna og var eitt meginmarkmið þessarar rannsóknar að afla grunnupplýsinga um færni ungra íslenskra barna í að rita annars vegar frásögn og hins vegar upplýsingatexta. Tvö ritunarverkefni, frásögn og upplýsingatexti, voru lögð fyrir 56 börn í 1. bekk. Textarnir voru greindir með megindlegum og eigindlegum aðferðum og niðurstöður þeirrar athugunar notaðar til að draga fram helstu einkenni þeirra. Niðurstöðurnar sýna að við lok 1. bekkjar hafa flest börn náð grunntökum á umskráningu og gera greinarmun á textategundunum tveimur. Þau ná hins vegar hvorki að skrifa frásagnir né upplýsingatexta sem uppfylla öll helstu skilyrði slíkra texta. Textar þeirra eru stuttir og einfaldir og nokkuð vantar upp á samloðun og samhengi í textunum.

Rannsóknin er liður í doktorsrannsókn Rannveigar Oddsdóttur á áhrifum umskráningar, málþroska og sjálfstjórnar á þróun ritunar 4-9 ára barna og tengist einnig rannsókninni Þroski leik- og grunnskólabarna: Sjálfstjórn, málþroski og læsi á aldrinum 4-8 ára sem Hrafnhildur Ragnarsdóttir, Freyja Birgisdóttir og Steinunn Gestsdóttir standa að.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

„Ritun fyrst“. Málstofa um ritunarkennslu í fyrstu bekkjum grunnskóla
Sólveig Jónsdóttir, M.Ed., aðjúnkt við Háskólann á Akureyri.

Í nýrri aðalnámskrá eru læsi og sköpun tveir grunnþættir menntunar. Þetta tvennt má hæglega sameina í læsisnámi barna með því að gera ritun hátt undir höfði.  Í frjálsri ritun eru börnin sjálf „hinn skapandi kraftur“ (Chomsky) og mun virkari í læsisnáminu en þegar þau lesa texta frá öðrum. Mörg börn læra að lesa með þessu móti, geta „skrifað sig inn í“ lesturinn. Í málstofunni verður fjallað um mikilvægi ritunar í læsisnámi barna og árangursríkar leiðir til að kenna börnum að verða góðir skrifarar, m.a. í gegnum eigin teikningar. Rannsóknir (bæði íslenskar og erlendar) sýna endurtekið að flest börn telja sig kunna að skrifa en ekki lesa þegar þau hefja skólagöngu. Á þessu sjálfstrausti þyrfti að byggja og leyfa börnum að skrifa alla daga í skólanum. Í málstofunni verður fjallað um kennsluaðferðina ferliritun (e. process approach)  sem er vinsæl víða um heim en hefur ekki náð fótfestu hérlendis svo neinu nemi. Kynntar verða nýjar og nýlegar rannsóknir sem sýna góðan ritunarárangur ungra barna sem skrifa í ritsmiðjum alla daga.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Læsi til lýðræðis
Sólveig Zophoníasdóttir, sérfræðingur við miðstöð skólaþróunar við HA.

Íslensku skólakerfi er ekki eingöngu ætlað að fræða börn og ungmenni og heldur einnig að miða að virkri þátttöku þeirra í lýðræðissamfélagi innan skólans sem utan og eiga starfshættir skóla m.a að mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Haldbær  menntun felst m.a. í að einstaklingur öðlist, í samvinnu við aðra og umhverfi sitt, þekkingu, leikni og hæfni til að takast á við veruleikan og geti umbreytt honum og þannig skapað sér og öðrum leiðir til að bregðast við raunverulegum viðfangsefnum og álitamálum s.s. ófriði, misrétti, ofnýtingu auðlinda jarðarinnar o.fl.

Til þess að einstaklingur geti skynjað og skilið þau áreiti sem birtast honum í daglegu lífi verður hann að búa yfir þekkingu, leikni og hæfni til að ígrunda. Ígrundað læsi (e. critical literacy) er form læsis til að greina einstaklingsbundin og sameiginleg viðfangsefni/vandamál. Hafi einstaklingur ekki hæfni og vald til að ígrunda felst læsi hans eingöngu í að taka gagnrýnislaust við þeim boðum sem ráðandi menning sendir (Noddings, 2007). Ígrundað læsi krefst gagnrýninnar hugsunar því ásamt því að kunna að lesa tæknilega þarf fólk einnig geta spurt gagnrýninna spurninga, greint upplýsingar, skapað merkingu og leyst viðfangsefni og jafnvel skapað nýja þekkingu og skilning. Segja má að gæði lýðræðis velti á hæfileikum og skynsemi hvers og eins í samfélaginu og þá er til nokkurs vinnandi að í skólum þjálfist einstaklingurinn í læsi til lýðræðis og frelsis.
Í málstofunni verður fjallað um ígrundað læsi og gildi þess í lýðræðislegu samhengi og bent á leiðir til að efla læsi til lýðræðis í skólastarfi.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~