Aðalerindi
Tengsl skóla og grenndarsamfélags
Dr. Gerður G. Óskarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarstofu um
þróun skólastarfs, menntavísindasviði HÍ
Sagt er að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn – því er spurt: Með hvaða hugarfari og hvernig vinnur skólinn með
öðrum uppalendum í „þorpinu“ að þessu verkefni? Nánar tiltekið: Hvernig teygist námsumhverfi nemenda út fyrir
skólabygginguna í grenndarsamfélagið og náttúruna og hvernig er nærsamfélagið boðið velkomið í skólann?
Í upphafi 20. aldar sagði Dewey að skólaveggirnir mættu hvorki verða sem klaustursveggir (1916/1966) né skólinn stofnun „skýrt aðgreind
frá öllum öðrum samfélagsstofnunum“ (1938/2000). Út frá þessum orðum verður umfjöllunarefnið tengt Vistkerfakenningu
Bronfenbrenner (1979) um áhrifavalda og tengsl í lífinu – einstaklingar lifa og þroskast í nærkerfum, eins og heimili, skóla og
grenndarsamfélagi, sem síðan tengjast. Einnig verður vísað til félagsauðsins í tengslum einstaklinga sem saman mynda
félagslegt stuðningsnet (Coleman, 1988) og þekkingarsjóðanna sem geyma alla þá þekkingu og færni sem fyrirfinnst í fjölskyldu
og umhverfi nemandans (Moll o.fl., 1992).
Greint er frá niðurstöðum rannsóknar sem var hluti af stærri rannsókn á starfsháttum í 20 grunnskólum um landið. Byggt er
á spurningakönnunum til kennara, nemenda og foreldra og viðtölum við skólastjórnendur, svo og viðtölum við skólastjórnendur í
Minnesota í Bandaríkjunum til samanburðar. Fjallað verður um a) upplýsingamiðlun skóla til grenndarsamfélagins og upplýsingaöflun hans
úti í nærumhverfinu; b) vettvangsnám úti í náttúrunni og samfélaginu, útikennslu, þjónustunám og
þátttöku nemenda í félagsstarfi utan skólans; c) gestakomur í skólann, kynningar og viðburði sem opnir eru íbúum
„þorpsins“.
Menning, umhverfi og grunnþættir menntunar
í ljósi margbreytileika íslensks samfélags
Bragi Guðmundsson, prófessor og formaður kennaradeildar HA
Fjölbreytileiki er einkenni og mikilvæg uppspretta frjórrar menningar. Einsleitni og einhæfni er ávísun á hið gagnstæða. Íslenskt
samfélag er fámennt en fjölbreytt; landið er stórt og byggðin dreifð; land- og náttúrufræðilegt umhverfi er hvert með sínu
móti; atvinnuhættir ýmist fábreyttir eða fjölþættir; menningarlegt bakland íbúanna mismunandi en gjarnan sagt hið sama.
Sex grunnþættir menntunar hafa verið skilgreindir sameiginlega fyrir þrjú skólastig af fjórum. Þá þarf hver skóli að gera
að sínum og útfæra út frá eigin forsendum með tilliti til þess mannlífs, menningar og umhverfis sem honum ber helst að þjóna.
Eyfirðingurinn þarf að verða læs á umhverfi sitt, húmanískt sem náttúruna; Djúpavogsbúinn þarf að skilja
mikilvægi lífríkis Berufjarðar; Breiðhyltingurinn þarf að skilja og meta mikilvægi heilbrigðra lífshátta í stórborg;
Hólmvíkingurinn þarf að eflast og þjálfast til þátttöku í fámennu samfélagi; Flateyringurinn þarf að átta
sig á mikilvægi jafnræðis einstaklinga af ólíkum uppruna; Húnvetningurinn þarf að efla sköpunarmátt heimahéraði
sínu til heilla. Þetta allt og ótal margt fleira verður best gert með því að líta til hins sértæka í umhverfi hvers
skóla, nýta það þorp sem elur upp barnið.
Kemur framhaldskólinn til móts við þarfir nemenda og nærsamfélags
Hjalti Jón
Sveinsson, skólameistari VMA
Í erindinu er fjallað um framhaldsskóla og nærsamfélag frá ýmsum sjónarhornum. Rætt er um mikilvægi góðrar samvinnu
framhaldsskóla og nærsamfélags. Fjallað er um hvernig skólarnir þjónusti nærsamfélagið og hvort þeir hafi hliðsjón af
því þegar námsframboð er skipulagt. Rætt er um verkefni framhaldsskóla samkvæmt lögum og hvort þeir séu í stakk búnir
til þess að framfylgja þeim, einkum í tengslum við fyrirmæli þeirra um að skólar bjóði öllum nemendum nám við hæfi.
Loks verður borin saman staða landsbyggðarskóla og skóla á höfuðborgarsvæðinu með þarfir og eðli nærsamfélagsins
í huga.
Af hverju einn skóli?
Hildur Jóhannesdóttir skólastjóri Dalskóla í Reykjavík
Í erindinu verður fjallað um þá leið sem farin er í Úlfarsárdal að reka einn skóla fyrir börn á leik- og
grunnskólaaldri þar sem frístundastarf barna á grunnskólaaldri er fléttað inn í skóladaginn. Leiðarljósið í skipulagi
skólahaldsins hefur verið að taka mið af þörfum barna, fjölskyldna þeirra og grenndarsamfélagsins. Á hvern hátt stuðlar þessi
skólagerð og það starfsskipulag sem verið er að þróa í Dalskóla að því að börnin verði öruggari í
umhverfi sínu, fái fjölbreyttari námstækifæri og þjálfi sig í að beita þekkingu sinni og leikni til þess hafa áhrif
á umhverfi sitt og bæta það.
Málstofur
Hlutverk, ábyrgð og vald deildarstjóra í leikskólum: upplifun þeirra á eigin starfi
Hjördís Fenger, leikskólastjóri Tjarnarási og dr. Rúnar Sigþórsson, prófessor við HA
Um þessar mundir beinist aukin athygli að stjórnunar- og forystuhlutverki deildarstjóra í leikskólum og því hvaða vald og ábyrgð
fylgi þessum hlutverkum. Samt hafa fáar rannsóknir verið gerðar á þessu efni hér á landi. Í málstofunni verður greint
frá viðtalsrannsókn þar sem leitast var við að varpa ljósi á sýn deildarstjóra leikskóla á stjórnunar- og
forystuhlutverk, ábyrgð og völd sem fylgdu starfi þeirra og hvernig hún birtist í daglegum störfum þeirra. Tekin voru tvö
rýnihópaviðtöl við deildarstjóra og niðurstöður þeirra notaðar við gerð viðtalsramma fyrir einstaklingsviðtöl við sex
deildarstjóra til viðbótar. Helstu niðurstöður sýndu að deildarstjórunum fannst hlutverk sín skýrt skilgreind, undirbúningur
fyrir starfið hafi verið lítill og stjórnunarmenntun takmörkuð. Flestir viðmælenda töldu sig hafa nægt vald nema um mannaráðningar og
að ábyrgð sín á starfsmannastjórnun hefði aukist. Þeir töldu einnig að valddreifing innan leikskólanna væri mikil og það
hefði jákvæð áhrif á menningu skólanna. Viðmælendur sögðu að það sem helst hamlaði valddreifingu væri skortur
á fagfólki og fáir samráðsfundir. Þeir töldu einnig að kröfur til deildarstjóra hefðu aukist en mikið álag, örar
mannabreytingar, minni möguleikar á afleysingu, of mörg börn á starfsmann, greiningarferli barna með sérþarfir, hávaða og tímaskort,
vera þau atriði sem helst hindruðu þá við að sinna starfi sínu eins þeir kysu.
Fjölskylda og leikskóli: handbók um samstarf
Ásgerður Guðnadóttir, aðstoðarleikstjóri Fífuborg og
Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir,
leikskólaráðgjafi
Árið 2010 gaf leikskólasvið Reykjavíkurborgar (nú skóla- og frístundasvið) út handbókina Fjölskylda og leikskóli,
handbók um samstarf. Handbókin byggir m.a. á lögum um leikskóla, aðalnámskrá leikskóla og Barnasáttmála Sameinuðu
þjóðanna. Tilgangur handbókarinnar er að vera leiðarvísir um samstarf við foreldra og stuðningur í gerð áætlunar um
foreldrasamstarf. Henni er einnig ætlað að hvetja leikskólakennara til að hafa frumkvæði að og leita fjölbreyttra leiða í samstarfi við alla
foreldra. Í handbókinni birtist sú sýn að horft er á foreldra og leikskóla sem samstarfsaðila þar sem foreldrar eiga hlutdeild í uppeldi
barna sinna og að hlustað er á raddir þeirra. Meginstef bókarinnar er að margbreytileiki foreldrahópsins kalli á fjölbreyttar
samstarfsaðferðir um leið og í honum felast tækifærin. Ekki er tekin afstaða til þess hvort ein aðferð sé annarri betri, þar er
ætlast til að hver starfshópur taki afstöðu. Rauði þráðurinn er hins vegar að hvetja til samstarfs og samræðu við foreldra um skipulag
og aðferðir í leikskólastarfinu og gefa röddum þeirra vægi. Unnið hefur verið að innleiðingu handbókarinnar, í leikskólum
Reykjavíkurborgar, með námskeiðum fyrir leikskólastjóra og deildastjóra. Í erindinu verður m.a. fjallað um vinnuna við gerð
handbókarinnar og á hvern hátt hún hefur haft áhrif á viðhorf og samstarf leikskóla og fjölskyldna.
„...ég verð leið að vera frá Kína ef einhver er að stríða mér...“ Tvímenningarleg
félagsmótun ættleiddra barna
Dr. Jórunn Elídóttir, dósent við HA
Börn sem eru ættleidd erlendis frá til Íslands koma frá mörgum ólíkum þjóðum. Tengsl við upprunalandið eru talin skipta
máli m.a. sem liður í því að hjálpa barninu að skilja ferli ættleiðingarinnar sem og til að þroska jákvæða
sjálfsmynd sem á rætur í tveimur menningarheimum. Merkingarbært nám er varðar upprunaland þarf að vera hluti af námi barnsins en
slíkt nám hefur áhrif á viðhorf til upprunalandsins og á sjálfsmynd barnsins. Í erindinu er fjallað um tvímenningarlega
félagsmótun ættleiddra barna og leitað í fræðin til að skýra og skilgreina hvað er átt við þegar fjallað er um þessi
mál. Rannsóknir sýna að foreldrar og kennarar vanmeta oft erfiðleika ættleiddra barna við að ræða um málefni tengt uppruna,
ættleiðingu og útliti. Í þessu samhengi skiptir viðhorf og hæfni foreldra og kennara miklu máli. Kynnt er rannsókn þar sem rafræn
spurningakönnun var send til tíu telpna sem voru ættleiddar frá Kína en í henni var spurt m.a. um uppruna þeirra og tengsl við Kína. Sterkar
vísbendingar hafa á undanförnum árum komið fram í rannsóknum um að tvímenningarleg félagsmótun sé hluti af annarri
félagsmótun barnanna og þáttur í tilveru þeirra sem þarf að taka tilliti til heima og í skóla.
Nýting upplýsinga- og samskiptatækni í grunnskólastarfi 21. aldar
Bergþóra Þórhallsdóttir, aðstoðarskólastjóri Brekkuskóla Akureyri
Samfélagsbreytingar snúa meðal annars að þróun í tölvutækni og samskiptum. Þróunin hefur áhrif á störf og
nám í grunnskólum líkt og annars staðar í atvinnulífinu. Samkvæmt nýrri aðalnámskrá grunnskóla er skólunum
falið að aðstoða samfélagið við að átta sig á breytingum sem fylgja þessari þróun og að takast á við nýjar
aðstæður. Þar með er sú ábyrgð lögð á kennarastéttina og skólastjórnendur að greina þessar breytingar og fella
starfsemi skólanna að þeim á ábyrgan hátt. Í Brekkuskóla á Akureyri er þróunarverkefni í gangi sem felur í
sér nýtingu tölvu- og upplýsingatækni við nám og kennslu. Leitast er við að skipuleggja og þróa rafrænt nám í
samræmi við einstaklingsþarfir nemenda. Meginmarkmið verkefnisins felst einkum í því að auka gæði og fjölbreytni í
kennsluháttum. Stefnt er að því að bæta árangur í námi, efla áhuga, sjálfstæði og sjálfstraust nemenda.
Viðfangsefnið kallar á stuðning og ráðgjöf til kennara og eflingu þekkingar og endurmenntunar þeirra á sviði upplýsinga- og
samskiptatækni. Verkefnið sem menntayfirvöld hafa gert kröfu um er kostnaðarsamt fyrir sveitarfélögin, en það getur einnig falið í sér
ýmis tækifæri.
„Mennta, virða og vernda” Hinsegin unglingar, afstaða þeirra til skóla og nærsamfélags:
viðbrögð og ábyrgð kennara
Dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir, dósent við HA og dr. Einar B. Þorsteinsson, dósent við UNE Ástralíu
Tilgangur: Bera saman upplýsingar um afstöðu til skóla og nærsamfélags frá þremur hópum í 10.bekk á
Íslandi– (a) þeim sem aldrei hafa orðið skotin og ekki hafa sofið hjá, (b) gagnkynhneigðum og (c) hinsegin (samkynhneigðum, tvíkynhneigðum,
trans).
Aðferð:Notuð voru gögn frá 2010 úr íslenskum hluta alþjóðlegrar könnunnar á heilsu og lífskjörum
skólanema (Health Behaviour in School-Aged Children www.HBSC.org / www.HBSC.is sem unnin er að tilstuðlan
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar). Alls svöruðu 11561 nemendur úr 6., 8. og 10.bekk á Íslandi, sem var 87% af þýðinu.
Hér er stuðst við svör 3813 nemenda úr 10.bekk. Nemendur voru flokkaðir í hópana þrjá a, b og c út frá tveimur spurningum,
önnur um rómantískar tilfinningar, hin um kynhegðun.
Niðurstöður:Afstaða þeirra sem segjast aldrei hafa orðið skotin og aldrei sofið hjá (a) og hinna gagnkynhneigðu (b) var keimlík en
hinsegin unglingar (c) voru marktækt óánægðari með bæði skólann og nærsamfélagið. Að auki höfðu hinsegin
strákar marktækt oftar í huga að flytjast búferlum, hvort heldur var úr sveitarfélagi eða af landi brott en nokkrir aðrir úr hópi
jafnaldra.
Helstu ályktanir, hugmyndir um viðbrögð kennara: Knýjandi þörf er á aukinni vitund um líðan hinsegin nemenda og nauðsyn
þess að kennarar mæti þörfum þeirra betur en nú er gert. Hér verður greint frá nokkrum leiðum til að auka færni kennara
á þessu sviði.
,,Það fer enginn í þetta ótilneyddur“ innleiðing aðalnámskrár
Helga Rún Traustadóttir og Sólveig Zophoníasdóttir, sérfræðingar á miðstöð skólaþróunar við
HA.
Vorið 2012 óskuðu grunnskólar á Akureyri eftir stuðningi frá miðstöð skólaþróunar við Háskólann á
Akureyri við að innleiða nýja aðalnámskrá. Í kjölfarið var skipulagt vinnuferli sem hófst haustið 2012. Það felst í
innleiðingu nýrrar aðalnámskrár og mótun skólanámskrár með hliðsjón af nýrri menntastefnu í 10 grunnskólum
á Akureyri. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki tvö ár. Vinnan byggir á kenningum um námskrá sem virkt og skapandi rannsóknarferli.
Það felur í sér námskrárgerð sem byggir á sameiginlegri sýn, ígrundun, fjölbreytni og stöðuga viðleitni
skólasamfélagsins til að þróa skólastarfið til betri vegar. Þeir sérfræðingar sem halda utan um vinnuna við
innleiðingarferlið meta það samhliða með starfendarannsókn. Rannsóknin hverfist um aðkomu sérfræðinganna/rannsakendanna að
innleiðingarferlinu og markmið þeirra er að fylgjast með ferlinu raungerast á vettvangi og læra af því. Rannsóknin hefur almennt gildi fyrir
skólaþróun vegna þess að innleiðingarferlið markast af hverjum þeim skóla sem tekur þátt og til verða fjölbreytt gögn sem
geta upplýst um árangursríkar leiðir til skólaþróunar. Í málstofunni verður greint frá fyrstu niðurstöðum
rannsóknarinnar en vonir eru um að hún geti varpað ljósi á tækifæri til að breyta starfsháttum skóla til móts við
þarfir 21. aldarinnar.
Yfir þröskuldinn, samstarfsverkefni um fimm og sex ára börn í Dalskóla
Auður Valdimarsdóttir
og Berglind Inga Gunnarsdóttir grunnskólakennarar Dalskóla í Reykjavík
Í Dalskóla starfa 5 og 6 ára börn á grunn- og leikskólaaldri saman með ýmsum hætti. Börnin eru í rýmum
hlið við hlið og kennarar vinna saman í teymi með hagmuni allra barnanna að leiðarljósi. Barnahópurinn vinnur náið saman í
kennslustundum, leikstundum, frímínútum, íþróttatímum, frístund og á fleiri stöðum eftir fyrirfram ákveðnu
skipulagi.
Útinám ‒ lykillinn að menntun til sjálfbærni
Helena Óladóttir, verkefnisstjóri Náttúruskóla Reykjavíkur
Í erindinu er fjallað um Náttúruskóla Reykjavíkur sem starfsræktur hefur verið hjá Reykjavíkurborg frá árinu 2005.
Markmið hans er að efla útinám og umhverfismennt í leik- og grunnskólum Reykjavíkur en Reykjavíkurborg hefur markað sér stefnu um menntun
til sjálfbærni sem endurspeglast í starfsemi skólans. Meginhugtak hugmyndafræðinnar, sem í nýrri aðalnámskrá er kallað
geta til aðgerða vísar til þess að virkni sé mikilvægasti þátturinn í því að samfélagið breytist
í átt til sjálfbærari lífshátta. Í fyrirlestrinum er rakið hvernig viðfangsefni útináms styðja við markmið menntunar
til sjálfbærni og dæmi tekin úr mismunandi samstarfsverkefnum Náttúruskóla Reykjavíkur og leik- og/eða grunnskólum borgarinnar.
Hlutverk og hæfni skólastjóra við mótun skóla tveggja skólastiga ‒ tengsl við foreldra og
nærsamfélag
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, skólastjóri Árskógarskóla Dalvíkurbyggð
Í málstofunni verður fjallað um niðurstöður rannsóknar minnar sem birtust í meistaraprófsritgerð minni í júní 2012.
Ritgerðin fjallar um einkenni og hæfni góðs skólastjóra grunnskóla til þess að veita forystu í lærdómssamfélagi.
Þessar niðurstöður tengi ég við starf mitt sem skólastjóri Árskógarskóla (nýr leik- og grunnskóli 2012) og hvernig
ég hef nýtt mér þær til þess að móta jákvætt, uppbyggjandi samstarf við foreldra og nærsamfélag. Á þeim
grunni vinnur skólasamfélagið að því að byggja upp nýjan skóla með þá framtíðarsýn að
Árskógarskóli verði athvarf barna, foreldra þeirra og annarra sem vilja leggja skólasamfélaginu lið; að verða þorpið sem elur upp
barnið.
Reynsla deildarstjóra í leikskóla af samskiptum við erlendra foreldra sem ekki tala íslensku
Anna Lilja Sævarsdóttir, M.Ed., Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor við HA.,
Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við HA.
Fólksflutningar milli landa hafa aukist með vaxandi hnattvæðingu. Með opnari landamærum og alþjóðlegum vinnumarkaði er hafin þróun
sem hefur áhrif á íslenskt samfélag, þar með skólasamfélagið. Einsleitni hefur vikið fyrir fjölbreytni og margbreytileika.
Skólar þurfa þess vegna að bregðast við aukinni fjölbreytni í foreldrahópnum, og kennarar þurfa að takast á við að koma
á samskiptum við foreldra sem ekki tala íslensku, og jafnvel ekki ensku eða önnur þau mál sem íslensku skólafólki er fært að
tjá sig á. Aðlögun barna og foreldra þeirra að leikskólanum er mikilvægur þáttur í starfi deildarstjóra. Þeir hafa veg
og vanda af allri skipulagningu innan hverrar deildar og bera höfuðábyrgð á foreldrasamstarfi. Það hvílir því að mestu á herðum
þeirra að koma á samskiptum við alla foreldra og stuðla að samvinnu um nám og þroska barnsins. Tilgangur meistararannsóknarinnar var því
að skoða reynslu deildarstjóra í leikskólum af samskiptum við erlendra foreldra sem ekki tala íslensku. Einnig var litið til þeirra bjarga sem
deildarstjórunum standa til boða og þeir velja að nýta sér. Greint verður frá niðurstöðum spurningakönnunnar sem send var í 91
skóla víðs vegar um landið, og var svörun áætluð um 40%.
Samstarf leik- og grunnskóla
Björg Sigurvinsdóttir, leikskólastjóri Lundarseli og Þorgerður Sigurðardóttir, verkefnastjóri við HA
Leikskólanir Lundarsel, Flúðir og Pálmholt auk grunnskólans Lundarskóla hafa verið að þróa samstarf.milli skólanna undanfarin
ár. Samstarfið hefur eflst, vaxið og dafnað með ári hverju og hefur náð að festast í sessi. Má þar nefna vinatengsl milli
leikskólanna og grunnskólans, eldri nemendur grunnskólans lesa fyrir leikskólanemendur og matslistar eru lagðir fyrir nemendur beggja skólastiga. Mjög
mikilvægt er að samræmi sé milli þess sem börn vinna með eða gera í leikskólanum og þess sem unnið er að í
grunnskólanum. Ræða þarf og móta kröfur og væntingar í sambandi við vinnubrögð, nám og samskipti. Mismunur milli skólastiga
þarf að vera innan þeirra marka að hann valdi ekki óöryggi og kvíða hjá börnum og foreldrum þeirra. Samstarfsáætlun
skólanna byggir á þessum áherslum og er mikill áhugi og vilji hjá báðum skólastigum til að vinna að henni og að fylgja henni
eftir. Nemendur koma í gagnkvæmar heimsóknir á bæði skólastigin. Auk þess sem stjórnendur og kennarar í þessum aldurshópum
eða fulltrúar þeirra hittast reglulega yfir veturinn til að efla tengslin og faglega þekkingu sína á báðum skólastigum. Árlega er
gerð áætlun um samstarfið. Í málstofunni verður samstarfsáætlun þessara skóla kynnt.
Söguskjóður ‒ foreldratengt verkefni
Helga Björt Möller, sérfræðingur á fræðslusviði Dalvíkurbyggðar
Söguskjóður eða Verteltas er verkefni að hollenskri fyrirmynd (einnig byggt á Storysacks). Verkefnið gengur út að fá foreldra
(sérstaklega af erlendum uppruna) inn í starf skólanna til að búa til málörvandi námsefni tengt barnabókum sem skólarnir
síðan nota í sinni vinnu auk þess sem foreldrar geta fengið það lánað heim. Ætlunin er að byrja á að vinna þetta
í leikskólum og síðar í grunnskólum. Verkefnið er margþætt en nokkur markmið þess eru:
- Að glæða bókáhuga barna og styðja þannig við málþroska þeirra
- Að búa til námsgögn sem hægt er að nota í starfi skólanna
- Að fá foreldra í meira samstarf við skólana og gera þá meðvitaða um bókavinnu og tengingu hennar við málþroska
- Að efla samstarf skóla við foreldra af erlendum uppruna, auka öryggi þeirra í sambandi við skólana og styrkja þá í notkun
íslenskunnar
- Að styrkja foreldra (alla) í að styðja við málþroska barna sinna heima fyrir í gegnum bækur
Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála og verður unnið í tveimur áföngum, sá fyrri á vorönn 2013 en
sá seinni á haustönn.
Jafnrétti sem grunnþáttur í aðalnámskrá. Þörf eða nauðsyn? Um jafnréttisviðhorf
unglinga
Andrea Hjálmsdóttir, lektor við HA
Á Íslandi er jafnrétti kynjanna hvað varðar efnahag, pólitíska stöðu, menntun og heilbrigði með því besta sem gerist
í heiminum. Þó má greina merki um stöðnun eða jafnvel bakslag í jafnréttismálum í íslensku
þjóðfélagi og þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku kvenna sýna rannsóknir fram á tiltölulega stöðugan launamun
kynjanna, konum í óhag, og lágt hlutfall kvenna í valdastöðum í samfélaginu. Þá er ábyrgð og vinnuskylda á heimilum
frekar á herðum kvenna en karla. Það heyrist þó jafnan að jafnrétti sé handan við hornið og muni nást að fullu með innkomu
nýrra kynslóða í hið opinbera líf. Þvert á þessa orðræðu hafa nýlegar rannsóknir leitt í ljós að
viðhorf íslenskra unglinga til jafnréttismála eru íhaldssamari en eldri kynslóða, auk þess sem unglingar aðhyllast íhaldssamari viðhorf
til verkaskiptingar á heimlinum en áður. Hér er greint frá niðurstöðum nýjustu rannsókna er varða viðhorf 10. bekkinga til
jafnréttis og verkaskiptingar kynjanna. Þær gefa til kynna að samfélagið þurfi að taka hlutverk sitt í jafnréttisuppeldi mun fastari
tökum en verið hefur og að áhersla á jafnrétti í nýrri aðalnámskrá sé mikilvægt skref á þeirri
vegferð.
Hefur einstaklingsmiðun leitt okkur á ranga braut? Vangaveltur um áhrif einstaklingsmiðunar á viðhorf til
náms og kennsluhætti
Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við HA og doktorsnemi við menntavísindasvið HÍ
Erindið byggir á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á reynslu íslenskra grunnskólakennara og skilningi þeirra á hlutverki kennara
í skólum sem vinna samkvæmt stefnunni um skóla án aðgreiningar. Meginmarkmið rannsóknarinnar í heild, sem er doktorsrannsókn, er að
rannsaka, lýsa og túlka hugmyndir og skilning grunnskólakennara á Íslandi á kennarahlutverkinu í skóla án aðgreiningar. Ennfremur
að varpa ljósi á hvernig menning og ríkjandi skólastefna orkar á og mótar hugmyndir kennara og skilning. Félagslegum mótunarkenningum og
póststrúktúralisma er beitt við greiningu gagnanna en þeim var safnað árin 2007-2008. Tekin voru viðtöl við 10 íslenska kennara og tvo
skólastjórnendur, ýmis opinber gögn voru greind, svo sem lög, námskrár og skýrslur. Þá voru fjölmiðlagreinar um
menntamál og sérstaklega skóla án aðgreiningar greindar. Í erindinu verða niðurstöður rannsóknarinnar ræddar út frá
hugmyndum kennara um flokkun og fjölbreytileika nemenda og hugmynda um einstaklingsmiðun í námi. Niðurstöðurnar gefa til kynna að starfshættir og
kennsluaðferðir sem rekja má til hugmynda um einstaklingsmiðun geti haft þveröfug áhrif en þeim var ætlað að gera. Í stað
þess að draga fram styrkleika nemenda og fjölbreytni nemendahópsins virðist sem áhersla hafi fremur verið lögð á getuskiptingu og aðgreiningu
í námi. Þessar niðurstöður verða ræddar í ljósi íslenskrar menntastefnu og aðalnámskrár og hvort slík
áhersla stuðli að merkingarbæru námi fyrir nemendur.
Er „heimavinna“ í þágu náms?
Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA
Í lögum um leik- og grunnskóla eru ekki ákvæði um heimanám nemenda. Í aðalnámskrá grunnskóla er sjaldan vikið að
heimanámi, forsendum þess eða tilgangi. Í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla (2011, bls. 70) segir að foreldrar beri ábyrgð
á því að börn þeirra sinni heimanámi sem skólinn og foreldrar hvers einstaks barns hafa orðið ásátt um. Heimanám er
því óljós þáttur sem er háður samkomulagi milli skóla og foreldra. Vísun í tilgang heimanáms virðist aðeins
að finna í íslensku- og stærðfræðihluta aðalnámskrár grunnskóla. Það getur t.d. verið hluti af námsmati
(stærðfræði, bls. 11) og hluti af rækt við móðurmálið með stuðningi foreldra (íslenska, bls. 5–6). Í
þrepamarkmiðum í lífsleikni (bls. 13) segir að nemandi eigi að vera fær um að setja sér raunhæf markmið, t.d. um að ljúka
heimanámi sínu. Ekki virðist vísun í heimanám eða umfjöllun um það í öðrum námskrám grunnskólans og
í aðalnámskrá leikskóla (2011) er ekki rætt um heimanám. Heimanám er þó, og hefur lengi verið, gróinn þáttur
í námi barna og unglinga. Í almennri umræðu um heimanám virðast einkum tvær forsendur hafðar að leiðarljósi: (1) samstarf eða
samvinna milli heimila og skóla um nám barna og (2) trú á aukinn árangur í námi. Áhrifin geta þó hæglega verið
andstæð - að mikill núningur myndist milli heimilis og skóla og að áhugi, og árangur, barna í námi dvíni með neikvæðum
afleiðingum í för. Í málstofunni verður fjallað um tilgang og gildi heimanáms – ekki síst sjónarmið þess efnis að
heimanám sé „heimavinna“ sem ekki er raunverulega í þágu náms, heldur þvert á móti.
Samstarf heimila og skóla á unglingsárunum
Heimsóknir umsjónarkennara á heimili nemenda
Gísli Sigurður Gíslason og María Aðalsteinsdóttir, umsjónarkennarar í Oddeyrarskóla á Akureyri
Í málstofunni verður fjallað um heimsóknir umsjónarkennara í Oddeyrarskóla. Undanfarin 10 ár hafa umsjónarkennarar í 8. bekk
farið í heimsókn á heimili nemenda sinna í upphafi skólaárs. Upphafið var þróunarverkefni Oddeyrarskóla sem Ingibjörg
Auðunsdóttir stýrði og var hluti af meistaranámi hennar. Kennarar munu lýsa reynslu sinni og segja frá rannsókn sem unnin var á upplifun
foreldra á því að fá kennara í heimsókn. Einnig verður sagt frá því í málstofunni hvernig samstarf
umsjónarkennara í Oddeyrarskóla hefur þróast í teymisvinnu undanfarin ár þar sem tveir kennarar deila með sér umsjón í
bekk og taka sameiginlega ábyrgð á öllum hópnum.
Inntaka nýnema í framhaldsskóla: félagsleg aðgreining eða uppskeruhátíð einstaklingsvæðingar?
Þorlákur Axel Jónsson, aðjúnkt við HA og doktorsnemi við HÍ
Íslenskir framhaldsskólar ráða inntöku nýnema sinna og eru undir færri takmörk settir en sambærilegir skólar í
nálægum löndum hvað það varðar. Í opinberri umræðu er fjálglega rætt um gæði einstaka skóla án þess
að nokkrar rannsóknir liggi fyrir um í hverju þau ættu að vera fólgin. Ímynd skólanna virðist vera sterk. Sagt er frá athugun
á því hvort frelsi skólanna við inntöku nýnema leiði til aukinnar félagslegrar aðgreiningar með því að
nemendahóparnir verði einsleitari heldur en börnin voru alin upp við í grunnskóla. Rætt verður um þær forsendur sem frekari rannsóknir
á framhaldsskólastiginu sem vettvangi félagslegrar aðgreiningar hljóti að hvíla á. Spurt verður hvort frekar eigi að ganga út
frá kenningum um mótun einstaklinga á lífsferli sínum í samfélagi síðnútímans þegar endurröðunin í
upphafi framhaldsskóla er rannsökuð.
Almennt vinnustaðanám
Jóhannes Árnason, Ketill Sigurðarson, Kristín Petra Guðmundsdóttir, kennarar við VMA, Rögnvaldur Ragnar Símonarson, iðjuþjálfi og
kennari við starfsbraut VMA, Áslaug Kristjánsdóttir, stuðningsfulltrúi við starfsbraut VMA og Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri
starfsþróunar hjá starfsmannaþjónustu Akureyrarbæjar
Þrír kennarar við VMA og starfsmaður starfsmannaþjónustu Akureyrarbæjar kynna samstarf um vinnustaðanám nemenda sem eiga erfitt í
bóknámi. Áfangarnir kallast ATF195A og ATF295A (sjá www.vma.is/is/moya/page/voronn_2012 )
Verkmenntaskólinn á Akureyri og Akureyrarbær hafa haft samstarf um að bjóða nemendum sem eiga erfitt í bóknámi markvisst
vinnustaðanám. Aðrir vinnustaðir hafa einnig komið við sögu. Nemendur eru tvo hálfa daga í viku í heila önn á
vinnustað. Vinnustaðurinn tilnefnir starfsfóstra sem nemandinn leitar til. Starfsfóstrarnir sóttu námskeið sem var haldið í VMA. Sagt
verður frá aðdraganda og þróun þessa námstilboðs ásamt því að kynna hugmyndir um starfsfóstra og hvernig sú
tilhögun er frábrugðin vinnustaðanámi í fagnámi. Til að leggja grunn að þörfinni á þessu námi verða kynnt
gögn um námsferla nemenda í VMA.
Málstofa um kynjafræði
Borgar sig að vera karlkyns eða er það bara plat?
Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor og brautarstjóri kennaradeildar
HA
Það er mun ólíklegra að karl sérhæfi sig við kennslu yngri barna en kona. Hvers vegna er það og skiptir það máli?
Fjallað verður um áhrif samfélagslegra þátta á þessa staðreynd svo sem viðhorf, fordóma og staðalímyndir. Leitast er við
að ljá körlum í kennslu ungra barna rödd og heyra af þeirra reynslu.
Prúðar prinsessur og svellkaldir sjóræningjar
Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent við HA
Barnaefni á ríkan þátt í að móta sjálfsmynd barna og skilning þeirra á samfélaginu. Börn lifa sig inn
í sögur og myndir; máta ný hlutverk, læra að setja sig í spor annarra og kynnast hinum ýmsu óskráðu reglum samfélagsins -
ekki síst um hlutverk kynjanna. Það er því mikilvægt að barnaefni sé nútímalegt og viðhaldi ekki úreltum staðalmyndum. En
hvaða skilaboð hefur barnaefni 21. aldar fram að færa og hvernig mótar það og heftir bæði stelpur og stráka? Rýnt verður í
barnabækur, dótakassa og fleira skemmtilegt.
Kynlegir málfarskvistir
Finnur Friðriksson, dósent HA
Samband málnotkunar og kynferðis hefur verið ört vaxandi rannsóknasvið undanfarna áratugi. Í erindinu verður reynt að varpa ljósi
á nokkra helstu þræði þessa sviðs, hvort sem átt er við hvernig konur og karlar tala, hvernig talað er um konur og karla eða hvernig talað er
til kvenna og karla.
Jafnréttishugsun í skólum
Kristín Dýrfjörð, dósent við HA
Meðal fylgirita nýrra aðalnámskráa er rit um jafnrétti sem Þórður Kristinsson framhaldsskólakennari og Kristín
Dýrfjörð tóku saman. Í því er farið yfir bæði kenningar og hugmyndir um jafnréttismál. Þar er því
haldið fram að jafnréttismál séu mannréttindamál og undirstaða lýðræðis og sjálfbærni. Þau snerti allt
skólastarf og það sé allra sem vinna í skólum að standa vörð um og efla jafnrétti og jafnréttishugsun. Á torginu
verður ritið kynnt, fjallað um þá hugmyndafræði sem þar er lögð til grundvallar og hvernig höfundar sjá ritið
nýtast skólafólki.
Málstofa með samræðulotu
Ef það þarf þorp til að ala upp barn – hvað þarf þá til að ala upp þorpið? Hæfni nemenda sem uppskera af virkri
námskrá og námsmenningu skóla
Dr. Rúnar Sigþórsson, prófessor við HA
Í máltækinu að það þurfi þorp til að ala upp barn felst sú hugmynd að skólanum sé nauðsynlegt að eiga að
bakhjarli samfélag sem styður hann í að rækja hlutverk sitt. Um leið og þetta er viðurkennt verður að ganga út frá því
að félagsleg virkni samfélags sem getur orðið slíkur bakhjarl menntunar sé svo að segja óhugsandi án skólastarfs sem býr
þegnana út með hæfni sem gerir þeim kleift að takast á við samfélagslegt hlutverk sitt. Í málstofunni verður gert út
á þessa ályktun og dregnar saman nokkrar niðurstöður rannsókna sem höfundur hefur unnið að á síðustu árum og gefa
innsýn í virka námskrá og námsmenningu í efstu bekkjum grunnskóla. Í framhaldi af þessum niðurstöðum verður efnt til
samræðu við þátttakendur um hversu líkleg eða ólíkleg sú námsmenning sem niðurstöðurnar endurspegla sé til
þess að móta samfélag sem uppfyllir þær kröfur sem gera verður til þorps sem hægt er að trúa fyrir því að ala upp
barn.
Stefna um skóla án aðgreiningar og sérstakan stuðning við nemendur í grunnskólum
Hrund Logadóttir, verkefnastjóri sérkennslu á
grunnskólaskrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur
Haustið 2010 var sérstökum starfshópi falin markviss endurskoðun stefnu fræðsluráðs Reykjavíkur um sérkennslu frá 2002,
með tilliti til nýrra laga um grunnskóla og reglugerða, nýrrar aðalnámskrár, alþjóðlegra sáttmála, stefnu annarra
þjóða og niðurstaðna starfshópa og kannana. Í starfshópnum áttu sæti auk starfsmanna af skóla- og frístundasviði
Reykjavíkurborgar, fulltrúar frá Félagi skólastjórnenda í Reykjavík, Kennarafélagi Reykjavíkur,
sérfræðiþjónustu við skóla á þjónustumiðstöðvum og Samfok. Að auki komi fjölmargir aðilar beint og óbeint
að vinnu starfshópsins og sendu m.a. 13 aðilar inn umsagnir um stefnuna. Nýja stefnan fékk heitið Skóli án aðgreiningar og sérstakur
stuðningur við nemendur í grunnskólum. Megináherslan er á að leggja línur varðandi heildstætt kerfi stuðnings, kennslu og
þjónustu sem er hluti af og innifalið í heildarskipulagi skólanna, nær til allra þátta skólastarfsins og til allar nemenda hans. Í
stefnunni er fjallað um hugmyndafræði skóla án aðgreiningar og sett fram skilgreining sem tekur til viðhorfa, félagslegs samspils og
þátttöku, sveigjanleika og fjölbreytni, besta mögulega árangurs hvers nemanda og til stuðnings í skólastarfi. Annars vegar er fjallað um
almennan stuðning í skólastarfi og hins vegar um sérstakan stuðning við einstaka nemendur og nemendahópa. Að auki er fjallað um sérskóla
og sérúrræði, ráðgjöf og sérfræðiþjónustu, úthlutun fjármagns og innleiðingu stefnunnar.
„Lestur í takt við tónlist“
Anna Jóna Guðmundsdóttir, leikskólastjóri Ársala Sauðárkróki
Góður undirbúningur fyrir lestrarnám er öllum nauðsynlegur og afar mikilvægt fyrir allt nám á seinni stigum að börn búi yfir
ákveðinni lestrarfærni. Hvatning til dáða í lestrarhvetjandi umhverfi þar sem allt er gert til að örva áhuga barna á lestri þarf
að vera fyrir hendi svo að vel takist til. Þegar talað er um lestrarhvetjandi umhverfi í leikskóla er átt við umhverfi þar sem unnið er markvisst
með málörvun, áhugi barna er vakinn á lestri bóka og þau gerð meðvituð um ritað mál. Í grunnskólanum eru það
fjölbreyttar leiðir í lestrarkennslu sem henta hverjum og einum, gott aðgengi nemenda að fjölbreyttu lesefni og góð samvinna við foreldra. Í
rannsókn Önnu Jónu Guðmundsdóttur til meistaraprófs í almennum menntunarfræðum við Háskólann á Akureyri, var rætt
við átta leikskóla-, grunnskóla- og tónmenntakennara í þeim tilgangi að varpa ljósi á afstöðu þeirra og reynslu
varðandi lestrarhvetjandi skólaumhverfi, notkun tónlistar í lestrarhvetjandi skólaumhverfi og hvernig nýta megi tónlist til að örva
lestraráhuga barna á aldrinum fjögurra til sjö ára. Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru þær að meðrannsakendur telja
fjölbreytta kennsluhætti, tónlist, ritun og samstarf kennara vera afgerandi þætti í góðu lestrarhvetjandi umhverfi. Áhrifavaldar þ.e.
væntingar frá nemendum, foreldrum, kennurunum sjálfum og samfélaginu almennt og lykilþættir sem taka verður mið af þ.e.
aðalnámskrár, lestrarkennsla og málörvun eru þættir sem hafa líka mótandi áhrif á hið lestrarhvetjandi umhverfi. Auk
þess leiddu niðurstöður í ljós að allir meðrannsakenda nota tónlist í starfi sínu með börnunum, sumir markvisst í
þeim tilgangi að undirbúa þau undir lestrarnám en aðrir nota hana meira til að fanga athygli, brjóta upp aðstæður eða einfaldlega til
skemmtunar.
Á vit djúphyggjunnar
Ólöf Helga Pálmadóttir, leikskólastjóri Sunnuási Reykjavík
Vorið 2011 lauk síðasta áfanga í þróunarverkefninu, Á vit djúphyggjunnar, í leikskólum Seljahverfis í
Reykjavík. Markmið verkefnisins var að skoða þróun samstarfs leik-og grunnskóla Seljahverfis í Reykjavík. Viðtöl voru tekin
við 89 elstu börn í fimm leikskólum hverfisins. Tilgangur viðtalanna var að leita eftir skoðunum barnanna á leikskólaárunum og um
væntingar þeirra að byrja í grunnskóla. Spurning sem upp kom meðal leikskólastjóra og leikskólakennara í tengslum við skilin
þegar elstu börn hætta í leikskólanum var; hvort nægjanlega væri litið til skoðana barnanna um líf sitt á þeim
tímamótum. Fagaðilar skiptu með sér verkum í rannsóknarferlinu og komu saman að því að túlka gögn og
niðurstöður. Í erindinu verður gerð grein fyrir tilurð verkefnisins og sameiginlegri ábyrgð fagaðila í rannsóknarstarfinu og um
þær væntingar sem reynslan af verkefninu vekur um áherslur fram á veg. Niðurstöður sýna að börnin eru örugg og hafa
jákvæða skoðun á dvöl sinni í leikskólunum og að eftirvæntingar gætir hjá þeim að byrja í grunnskóla.
Börnin eiga að fá tækifæri til að skyggnast inn í heiminn sem bíður þeirra en samt að fá að vera í friði í
nútímanum.
,,Leikum og lærum saman”
Hólmfríður Björk Pétursdóttir, leikskólakennari Lundarseli Akureyri og
Margrét Rún Karlsdóttir, grunnskólakennari Lundarskóla Akureyri
Leikum og lærum saman er þróunarverkefni sem leikskólarnir Lundarsel og Pálmholt ásamt Lundarskóla eru að vinna saman. Aðalmarkmiðin
með þróunarverkefninu er að auðvelda leikskólabörnum flutning yfir í grunnskólann, að börnin kynnist innbyrðis og að vinátta
sem myndaðist í leikskóla glatist ekki. Einnig er unnið að því að samræma kennsluaðferðir þannig að meiri samfella verði
í námi barnanna. Í málstofunni verða kynnt þrjú þemaverkefni, sem unnið var með á ólíkan hátt, milli elsta
árgangs leikskólanna og 1. bekkjar. Í þemaverkefnunum vinna skólarnir með eitt þema hverju sinni, bæði hver í sínu lagi og saman.
Ákveðið var að vinna með íslenskar þjóðsögur og sem dæmi má nefna að börnin unnu með söguna. Á
Skipalóni í sínum skóla en einnig í blönduðum hópum í Lundarskóla. Börnin unnu ýmis verkefni saman í
stöðvavinnu: smíða hús, þæfa ísbirni, spila tónlist, búa til spil, baka lummur og skoða Nonna kassann frá Minjasafninu.
Foreldrum var boðið að fylgjast með börnunum að verki. Verkefnahópur var myndaður til að halda utan um þessa þemavinnu. Einn kennari úr
hverjum skóla sat í hópnum ásamt ráðgjafa við HA. Rýnihópur foreldra, skipaður foreldrum úr hverjum skóla var einnig
myndaður og hefur tekið þátt í uppbyggingu verkefnisins og mati.
Á heimaslóð ‒ grenndarsamfélagið nýtt til náms
Eygló Björnsdóttir, dósent við HA
Samkvæmt nýrri aðalnámskrá grunnskóla snúast grunnþættir menntunar um samfélag, menningu, umhverfi og náttúru.
Lögð er áhersla á að skólar byggi upp virk tengsl við nærsamfélagið og stuðli að jákvæðum samskiptum og samstarfi
við einstaklinga og stofnanir þess. Slík grenndarnálgun í skólastarfinu tengir nám nemandans veruleikanum í nærumhverfi hans og gerir
það merkingarbærra. Nemandinn sér umhverfi sitt í betra samhengi en hann annars hefði gert en þekking á eigin umhverfi og menningu styrkir
sjálfsvitund okkar og er forsenda þess að við skiljum og virðum menningu annarra. Í þessu erindi verður fjallað um hvernig vinna má með
menningu, sögu og atvinnuhætti nærsamfélagsins í skólastarfinu og efla þannig sögu-, samfélags- og umhverfis¬vitund nemenda. Okkar
nánasta umhverfi er sá heimur sem við að öllu jöfnu þekkjum best og það má nýta sem nokkurs konar þungamiðju til að
tileinka sér þekkingu á öllum sviðum og í öllum námsgreinum. Kynnt verður námsefni á vef fyrir miðstig grunnskóla
þar sem áherslan er á viðfangsefni sem tengjast grenndarsamfélaginu.
Nemendur af erlendum uppruna – viðhorf og væntingar til skóla og samfélags
Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við HA og doktorsnemi við menntavísindasvið HÍ og Þóroddur Bjarnason, prófessor við
HA
Í erindinu verður greint frá niðurstöðum íslensks hluta alþjóðlega rannsóknarverkefnisins Heilsa og lífskjör
skólanema (Health Behaviour in School-Aged Children, HBSC) hvað varðar nemendur af erlendum uppruna. Gögnum var safnað veturinn 2009–2010. Íslenskar
rannsóknir á stöðu og aðstæðum innflytjenda benda til þess að staða unglinga af erlendum uppruna á Íslandi sé á margan
hátt verri en jafnaldra þeirra af íslenskum uppruna. Eftir efnahagshrunið 2008 fjölgaði börnum undir átján ára aldri með erlendan
ríkisborgararétt um 10% milli áranna 2009-2011 og í ársbyrjun 2011 var nærri fimmta hvert barn á Íslandi annað hvort fætt erlendis
eða átti foreldra sem fæddust erlendis. Sjónum verður m.a. beint að bakgrunni og uppruna nemenda og viðhorfum þeirra til skóla og
samfélags. Sérstaklega verður rýnt í hvaða vísbendingar þau viðhorf gefa varðandi aðlögun nemendanna að íslensku
skólakerfi og samfélagi.
Iðnnámsdanska ‒ Hvabehar!
Rita Didriksen, dönskukennari við FNV og Björn Sighvatz, kennari málmiðnaðargreina við FNV
Kennarar við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki hafa þróað leið í dönskukennslu sem kölluð er
iðnnámsdanska. Eins og flestir kannast við sem eitthvað hafa komið við sögu dönskukennslu í iðnnámi hérlendis, þá hefur
danska löngum verið þyrnir í augum þessa nemenda. Í FNV hafa kennarar reynt að koma til móts við nemendur og sett saman áfanga þar sem
dönskukennslan tekur mið af því námi sem nemendur stunda. Í áfanganum er lögð áhersla á þverfaglega kennslu sem byggist
á samvinna milli kennara fjögurra deilda og dönskukennara. Áfanginn fellur að þeirri hugmynd að menntun er samspil skólans við m.a. atvinnuumhverfi
nemenda. Hann fylgir þeirri menntastefnu sem birtist í nýrri aðalnámskrá og stuðlar að merkingarbæru námi fyrir nemendur á
nýhafinni öld.
Frá einni námskrár til annarrar
Upplýsinga- og samskiptatækni í leikskólastarfi
Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor og brautarstjóri kennaradeildar HA
Útkoma aðalnámskrár markar alltaf ákveðin tímamót og hefur áhrif á skólastarf, sérstaklega ef áherslur taka
miklum breytingum. Árið 1999 fékk leikskólinn fyrstu aðalnámskrá sína og var hún í grundvallaratriðum frábrugðin
uppeldisáætluninni sem hún leysti af hólmi. Skilgreind voru ný námssvið, lífsleikni fékk mikið rými og ákvæði
voru um tölvur og tölvunotkun með börnunum. Tólf árum síðar komu út nýjar aðalnámskrár (2011) fyrir öll
skólastig og þar hefur enn margt breyst, námssvið eru önnur og ný hugtök og viðfangsefni eru kynnt til sögunnar. Lögð er mikil
áhersla á læsi í víðum skilningi, „svo sem stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi“ og gert ráð fyrir að
„Tölvur og stafræn samskiptatæki ... þykja orðið sjálfsögð verkfæri í skólastarfi“ (Aðalnámskrá
leikskóla almennur hluti, 2011). Í erindinu verður rætt um áherslur og leiðir í upplýsinga- og samskiptatækni í leikskólum
frá námskránni 1999 til nýrrar námskrár 2011. Fjallað verður um hlutverk tölvutækni í menntun ungra barna út frá
kenningum og rannsóknum, hvar tæknin og menntun, mætast, skarast eða takast á, bæði í faglegri umræðu og almennri umræðu í
samfélaginu.