Læsi fyrir lífið

Læsi fyrir lífið

Þróunarverkefnið Læsi fyrir lífið miðar að því að efla læsiskennslu á mið- og unglingastigi með fjölbreyttum aðferðum. Aðferðin byggir á að nýta samvirkar læsiskennsluaðferðir 
og samþætta vinnu með orðaforða, lesskilning, lesfimi, ritun, samræðu, tjáningu og hlustun í skólastarfi.   Í verkefninu Læsi fyrir lífið er unnið með læsi þvert á námsgreinar og fá kennarar leiðsögn og þjálfun í að kafa dýpra í viðfangsefni með nemendum og nota verkfæri á borð við 
gagnvirkan lestur, hugtakagreiningu, ritunarramma, samræður o.fl. til að efla skilning og nám nemenda.    

Lögð er áhersla á að kennarar og nemendur tileinki sér fjölbreyttar og hagnýtar aðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að séu árangursríkar í að efla læsi. Markhópur:
Kennarar á mið- og unglingastigi grunnskóla. 


Umfang:
Þróunarverkefni. Tíminn sem fer í verkefnið er metinn og ákveðinn í samráði við stjórnendur og starfsfólk viðkomandi skóla en reikna má með því að verkefnið sé að lágmarki til tveggja ára.


Lýsing:
Læsi fyrir lífið felur í sér að efla læsi nemenda á mið- og unglingastigi með fjölbreyttum aðferðum. Markmiðið er að efla læsisfærni nemenda ár frá ári og að læsi fléttist inn í allt skólastarf alla daga ársins. Verkefnið ýtir undir nýsköpun í kennsluháttum þar sem unnið er með læsi á nýstárlegan hátt í öllum námsgreinum eftir aðferðum sem rannsóknir hafa sýnt að séu árangursríkar. 

Í verkefninu verður lögð áhersla á læsi sem grunn að námi, læsi flæðir yfir allt nám í skólanum og inn í allar námsgreinar. Lögð verður sérstök áhersla á fjóra grunnþætti læsis: 

 • Lestur og lesskilning 
 • Lesfimi 
 • Ritun og miðlun 
 • Samræðu, tjáningu og hlustun  

Í verkefninu er lögð áhersla á að mæta þörfum nemenda þar sem þeir eru staddir námslega og stuðla að auknum áhuga, virkni og árangri þeirra. Í því felst að kennari skipuleggur námið á þann hátt að einstaklingsþörfum sé mætt innan bekkjarins með fjölbreyttu námsefni, vinnubrögðum og námsleiðum sem fela ekki í sér náms- og félagslega aðgreiningu nemenda, þ.e. allir nemendur fá kennslu við hæfi innan skólastofunnar.    

Með þátttöku í starfsþróunarverkefninu Læsi fyrir lífið taka kennarar þátt í lærdómsferli, þeir ígrunda eigið starf og tileinka sér nýja þekkingu og færni við læsiskennslu 
í samstarfi við starfsfélaga og ráðgjafa frá MSHA. Fræðilegt og hagnýtt efni er aðgengilegt þátttakendum í verkefninu, sameiginlegur gagnabanki þátttakenda er á lokuðu vefsvæði.  


Tveggja ára starfsþróunarferli
Kennarar taka þátt í fræðslufundum yfir skólaárið þar sem lögð verða inn læsisverkfæri. Kennarar nýta verkfærin í kennslu og hittast svo á samráðsfundum með ráðgjafa þar sem lagt er mat á hvernig gekk. Reglulega eru haldnir fundir þar sem ráðgjafi frá MSHA veitir kennurum stuðning og eftirfylgd. Á fjórðu önninni fá kennarar aðstoð við að koma markmiðum og verkfærum sem þeir hafa verið að vinna með inn í skólanámskrána.

  Þróunarstarf 1. ár - haustönn - Lestur, lesfimi og lesskilningur

  Þróunarstarf 1. ár - vorönn - Ritun og miðlun

 • 4 fræðslufundir - kennarar og ráðgjafi frá MSHA 
 • Stuðningur og ráðgjöf frá MSHA
 • 4 fræðslufundir - kennarar og ráðgjafi frá MSHA 
 • Stuðningur og ráðgjöf frá MSHA

  Þróunarstarf 2. ár - haustönn - Samræða, tjáning og hlustun

  Þróunarstarf 2. ár - vorönn - læsi fyrir lífiið fléttað inn í skólanámskrá

 • 4 fræðslufundir - kennarar og ráðgjafi frá MSHA 
 • Stuðningur og ráðgjöf frá MSHA
 • 4 fræðslufundir - kennarar og ráðgjafi frá MSHA 
 • Stuðningur og ráðgjöf frá MSHA

 


Markmið:

Nemendur  

 • Að efla læsi nemenda á mið- og unglingastigi með áherslu á orðaforða, lesskilning, samræðu, tjáningu, hlustun og ritun og miðlun.
 • Að efla áhuga og virkni nemenda í námi   

Kennarar  

 • Að kennarar leiti leiða til að efla læsi í öllum námsgreinum alla daga í skólastarfinu   
 • Að þróa og innleiða fjölbreyttar og áhrifaríkar aðferðir til að efla læsi og lesskilning á mið- og unglingastigi.   
 • Að kennarar leggi rækt við áhugahvöt, sjálfstæði, einstaklingsmiðun og ábyrgð nemenda á eigin námi.  

Fyrirkomulag:
Verkefnið er lagað að þörfum hvers skóla og getur náð yfir lengri eða skemmri tíma. Haldnir eru fræðslu- og vinnufundir með kennurum og öðru starfsfólki og samráðsfundi með stjórnendum/læsisteymi. Fundir með læsisteymi eru haldnir u.þ.b. mánaðarlega og haldið er utan um vinnuferlið með fundargerðum.


Að loknu innleiðingarferli
Markmið með starfsþróun í skólum er að stuðla að betri árangri í skólastarfi. Rannsóknir sýna að raunverulegar breytingar á skólastarfi taka töluverðan tíma, allt að fimm til tíu ár taki að festa þær í sessi.  Með þátttöku í þróunarstarfi um læsi taka kennarar þátt í lærdómsferli, þeir ígrunda eigið starf og tileinka sér nýja þekkingu og færni við læsiskennsluna. 

Komið hefur í ljós að tveggja ára stuðningur frá MSHA er oft varla nógu langur tími og hafa skólar því gjarnan óskað eftir áframhaldandi stuðningi við verkefnið sem getur m.a. 
farið framí formi stuttra námskeiða eða heimsókna ráðgjafa MSHA í skólann.