Málstofa 1 vor 2014

Stofa N102

Menntaspjall: Hópumræður á Twitter til að styðja við starfsþróun og símenntun skólafólks

Tryggvi Thayer, verkefnisstjóri MenntaMiðju HÍ
Ingvi Hrannar Ómarsson, grunnskólakennari og nemi við Háskólann í Lundi.

Í erindinu verður fjallað um niðurstöður könnunar meðal þátttakenda í skipulögðum umræðum skólafólks sem fram fara á örbloggvefnum Twitter. Sérstaklega verður fjallað um viðhorf þátttakenda til Twitter sem samskiptamiðils með tilliti til starfsþróunar- og símenntunarþarfa og sjónum sérstaklega beint að ávinningi og hindrunum sem felast í notkun Twitter.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning á tæknilegum og félagslegum breytingum sem hafa töluverð áhrif á starfsumhverfi skólafólks og væntinga sem gerðar eru til þeirra. MenntaMiðja (http://www.menntamidja.is) var sett á laggirnar til að hjálpa skólafólki, þ.m.t. kennurum, skólastjórnendum, stefnumótendum og fræðimönnum, að takast á við slíkar breytingar. Í desember 2013 hófu MenntaMiðja og samstarfsaðilar að skipuleggja umræður um menntamál á Twitter sem fara fram á tveggja vikna fresti undir umræðumerkinu #menntaspjall. Á undanförnum misserum hefur notkun örbloggsvefsins Twitter aukist töluvert. Twitter er vefþjónusta sem gerir notendum kleift að senda á milli sín skilaboð sem takmarkast við 140 stafi. Umrætt verkefni er liður í því að ýta undir notkun samfélagsmiðla til að stuðla að samstarfi og miðlun upplýsinga meðal skólafólks, sem er eitt af meginmarkmiðum MenntaMiðju.


 

NORDMENT - rannsókn á stuðningi við nýja kennara í starfi

María Steingrímsdóttir, dósent við HA
Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA.

Nýir kennarar upplifa oft krefjandi starfsumhverfi og skort á skipulögðum stuðningi í upphafi kennsluferils síns. Þeir upplifa ýmsa erfiðleika í starfi og jafnvel ógnir sem geta stuðlað að uppgjöf þeirra í starfi. Því er mikils um vert að styðja mjög vel við kennara á fyrstu árum þeirra í kennslu.

Málstofuflytjendur kynna lauslega norræna rannsókn sem þeir taka þátt í en markmið hennar er að greina hvaða stuðning kennarar á Norðurlöndum býðst á fyrstu árum í kennslu og hvaða áhrif stuðningurinn hefur á upplifun þeirra og persónulega reynslu. Leitað er eftir þáttum sem eru til þess fallnir að efla kennara í starfi og gætu t.d. komið í veg fyrir að þeir dragi sig út úr kennslu. Slíkar upplýsingar geta nýst yfirvöldum menntamála, skólayfirvöldum, kennaramenntastofnunum og kennurum til stefnumótunar. Í málstofunni verða kynntar helstu niðurstöður úr rannsókninni hérlendis.

Vefslóð rannsóknar: http://www.uv.uio.no/ils/english/research/projects/nordment/


 

Haltur leiðir blindan-jafningjastuðningur

Erna Rós Ingvarsdóttir, skólastjóri Pálmholti
Inda Björk Gunnarsdóttir, skólastjóri Kiðagili

Hvað gerir jafningja að jafningja? Hvernig getur haltur leitt blindan?

Þegar tilboð kom um jafningjastuðning sem fræðslu hjá Akureyrarbæ í samvinnu við miðstöð skólaþróunar HA, vakti það forvitni. Hvað þýddi jafningjastuðningur, til hvers var jafningjastuðningur og hvað í raun ætti hann að gefa til baka? Gætum við, nýbyrjaðar í starfi með mismikla þekkingu á mismörgum hlutum veitt einhverjum stuðning? Þetta voru spurningar sem komu upp í huga okkar þegar við heyrðum af þessu tilboði. Báðar hófum við störf sem leikskólastjórar árið 2012 og vorum því nýjar sem skólastjórar í leikskólum á Akureyri. Áhuginn á verkefninu var það mikill að hvor um sig ákvað að slá til. Það var í raun tilviljum sem olli því að við lentum saman sem par í jafningjastuðningnum. Ekki var öllum spurningunum svarað en jafningjastuðningur hefur gert okkur báðar að betri stjórnendum og hefur ákvörðunin um það að slá til borgað sig fyrir okkur báðar.

Það nauðsynlegt að eiga félaga sem hægt er að leita til með erindi sem upp koma og ekki er grundvöllur til að ræða í vinnunni. Það er ómetanlegt að geta tekið upp tólið og hringt í vin þegar maður þarf hvatningu, ráðleggingu eða hugmyndir. Haltur getur því vel leitt blindan og þeir stutt hvor annan þó svo að þörfin og markmiðin séu ólík.