Valmynd Leit

Mįlstofa 1.4

Málstofa 1.4

Nýting lesskimunar í lestrarkennslu
Guðlaug Snorradóttir, deildarstjóri sérúrræða í Álfhólsskóla (gudlausn@kopavogur.is) og Guðný Hafsteinsdóttir, myndmenntakennari og almennur kennari í Álfhólsskóla (gudnyh@kopavogur.is)

Greiningartækið LOGOS hefur verið notað markvisst í lestrarskimun allra nemenda í 3.-7. bekk í Álfhólsskóla í Kópavogi. Lestrarkennslan byggist á einstaklingsmiðuðu lestrarnámi og fjölbreyttum lestrarkennsluaðferðum, m.a. með gagnvirku lestrarkennsluefni og kennslu í skapandi skrifum. Markmið verkefnisins er að efla lesskilning og lestrarfærni  þar sem byggt er á tölfræðilegum niðurstöðum um árangur og framfarir hjá hverjum einstökum nemanda.  Í erindinu verður sagt ítarlega frá framkvæmd verkefnisins og hvernig tölfræðilegar niðurstöður hafa verið nýttar til að bæta lestrarárangur hvers nemenda með snemmtækri íhlutun. Nemendum er skipt í lestrarhópa út frá lesskilningi og lestrarfærni þeirra. Unnið er með fjölbreyttar aðferðir til að efla lestrarfærni, lesskilning og ritun. Mælingar eru gerðar á framförum hvers nemenda með ýmsum prófunum m.a. með LOGOS og niðurstöður nýttar til enn markvissari vinnu til frekari framfara. Unnið er í nánu samstarfi við heimilin. Mælingar og greining á árangri nemenda í lestri sýna undantekningarlaust bættan lestrarárangur allra nemenda í verkefninu. Í ljós hefur komið að nemendur með lesskilning undir viðmiðunarmörkum eru ranglega taldir með góða lestrarfærni ef leshraði þeirri er viðunandi. LOGOS greiningartækið hefur þann kost að með því sést nákvæmlega hvar lestrarvandi nemandans liggur og hvað þarf að bæta.


 

Vesturbæjarlestur
Hrefna Birna Björnsdóttir, grunnskólakennari í Vesturbæjarskóla (hrefna.birna.bjornsdottir@reykjavik.is) og Margrét Ásgeirsdóttir, grunnskólakennari í Melaskóla (margret.asgeirsdottir@reykjavik.is)

Í Vesturbæ Reykjavíkur eru þrír barnaskólar og einn safnskóli á unglingastigi. Mikilvægt þykir að efla samvinnu skólanna til að mynda samfellu í námi. Vorið 2012 var skipaður starfshópur sem falið var að vinna að sameiginlegri lestrarstefnu fyrir hverfið en því lauk vorið 2014. Markmið með verkefninu Vesturbæjarlestur er að efla læsi nemenda í víðum skilningi í samræmi við áherslur nýrrar aðalnámskrár og nýrrar læsisstefnu Reykjavíkurborgar. Annað markmið verkefnisins er að efla tengsl milli skólastiga í Vesturbænum og nærsamfélagsins. Leiðum til að efla læsi, hefur fjölgað og nemendur hafa nú aðgang að ýmiss konar tækni til samskipta og náms. Því er lögð áhersla á að þeir læri að nýta sér nýjustu tækni til læsisþjálfunar auk þess sem áhersla er lögð á þjálfun lestrar og ritunar í hefðbundnum skilningi.  Auk mótunar lestrarstefnu grunnskólanna í Vesturbænum er markmið verkefnisins Vesturbæjarlestur að standa að sameiginlegum viðburðum skólanna í hverfinu tengdum læsi. Í októbermánuði hafa skólarnir varið einni viku í lestrarhátíð í samvinnu við Borgarbókasafn Reykjavíkur og nærsamfélagið. Sem dæmi um samstarfið þá liðaðist ljóðaormur milli leikskóla og yfir í grunnskólana þar til förinni lauk á sýningu í Borgarbókasafninu.


Mišstöš skólažróunar

Sólborg v/noršurslóš              600 Akureyri, Iceland              gunnarg@unak.is              S. 460 8590 

Fylgdu okkur eša deildu