Málstofa 1.6

Málstofa 1.6

Að skoða ritun í gegnum hugmyndir um fjölhátta eðli læsis
Karen Rut Gísladóttir, lektor við HÍ (karenrut@hi.is)

Félags- og menningarlegar hugmyndir um læsi (New Literacies) hafa verið að ryðja sér til rúms bæði hérlendis og erlendis. Þessar hugmyndir fela í sér að í stað þess að hugsa um læsi sem hlutlausa færniþætti sem hægt er að ná tökum á sé mikilvægt að hugsa um læsi sem félagslega iðju sem eigi rætur að rekja í félags-og menningarlega reynslu einstaklinga. Frá þessum bæjardyrum séð eru til margskonar læsi. Þeir sem vinna með hugmyndir um margskonar læsi leggja áherslu á hið fjölhátta eðli læsis sem beinir athygli að samspili ólíkra samskiptavídda í merkingarsköpun, þ.e. tungumáls, sjónar, heyrnar, rýmis og látbragðs. Þessar hugmyndir hafa áhrif á áherslur í rannsóknum og kennslu. Í þessu erindi leitast höfundur við að varpa ljósi á hvað felst í hugmyndum um margskonar læsi og fjölhátta eðli þess og hvernig megi nýta þessar hugmyndir til að skoða ritunarkennslu í skólastarfi. Höfundur starfaði sem kennararannsakandi á unglingastigi í kennslu heyrnarlausra um árabil og mun nota dæmi úr eigin ritunarkennslu til að varpa ljósi á þessar spurningar. Gögn sem byggt er á eru rannsóknardagbók höfundar og viðtöl sem tekin voru við foreldra og nemendur. Niðurstöður gefa til kynna að aukið eignarhald nemenda á ritun og val á ritunarverkefnum hvetji þá til að nýta sér ólíkar samskiptaleiðir til að koma merkingu sinni á framfæri í rituðu máli.


 

Íslenskukennsla og læsi
Kristján Jóhann Jónsson, dósent við HÍ (krjj@hi.is)

Tungumálið er verkfæri hugsunarinnar og gerir okkur kleift að geyma og mynda þekkingu. Sumir halda að hægt sé að beygja hjá þekkingu á tungumálinu og og verða fluglæs með því að styðjast við aðra miðla en um slíkar hugmyndir á tungumálið einmitt ýmis miður fögur orð. Hugtökin læsi og túlkun hafa flækst illa saman og hæpið að það bæti skilning á því hvað læsi er. Hið sívinsæla enska hugtak literacy sem merkir ýmislegt og rætt er víða, hefur verið kallað læsi á íslensku og er að yfirtaka fyrri merkingu orðsins læsi. Í kennslurannsókninni Íslenska sem námsgrein og kennslutunga er notuð þrískipting Aristótelesar sem ýmsir hafa áður rætt en löguð er að íslenskukennslu. Þrískiptingin er í þekkingu, tækni og skilning, eða sögulega þekkingu, færni til þes að nýta sér þekkingu og hyggjuvit, dómgreind og skilning á málsniði, eða þeirri þekkingu sem tungumálið geymir og myndar. Í rannsókninni er gengið út frá alkunnri skiptingu námsskrár í þætti námsgreinarinnar íslensku: Málfræði, bókmenntir, stafsetning, lestur, talað mál og hlustun og ritun. Farið verður yfir útlínur rannsóknarinnar Íslenska sem námsgrein og kennslutunga og hugað að þeim niðurstöðum sem komnar eru. Rætt um heildarviðhorf til íslenskukennslu og vikið sérstaklega að bókmenntakennslu og læsi.