Málstofa 2

Stofa M201

Okkar mál. Samstarf um menningu, mál og læsi í Fellahverfi

Þorbjörg Þorsteinsdóttir, verkefnisstjóri hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts og HÍ
Ester Helga Líneyjardóttir, deildarstjóri samþætts skóla- og frístundastarfs í Fellaskóla
Fríða Bjarney Jónsdóttir, verkefnastjóri/ráðgjafi skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar
Gyða Guðmundsdóttir, aðstoðarskólastjóri Leikskólanum Holti
Halldóra Björg Gunnlaugsdóttir, skólastjóri Leikskólanum Holti
Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við HÍ
Nichole Leigh Mosty, skólastjóri Leikskólanum Ösp
Sigurlaug Vigdís Einarsdóttir, verkefna- og sérkennslustjóri Leikskólanum Holti

Verkefnið Okkar mál – samstarf um menningu, mál og læsi í Fellahverfi hefur það að markmiði að auka samstarf skóla í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti með það að leiðarljósi að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu.

Í erindinu verður greint frá hvernig tekist hefur að skapa virkt starfssamfélag (e. Community of Practice) í þróunarverkefni sem tengist leikskóla, grunnskóla, frístundastarfi, þjónustumiðstöð hverfis, skóla- og frístundamiðstöð borgarinnar og háskóla. Í þeim tilgangi að skilgreina verkefnið sem áhugavert módel fyrir þróunarstarf, sem sprettur upp á vettvangi en nýtur góðs af fjölbreyttu baklandi verkefnisins, verður sagt frá tilurð og mótun þess, hvernig samstarfi hefur verið háttað, hvaða fræðslu hópurinn hefur sótt sér og hvernig rannsóknarþætti og kynningu þess hefur verið sinnt. Athyglinni verður sérstaklega beint að breytingum innan hvers skóla, áherslum í samstarfi leik- og grunnskóla, áhrifum samþætts skóla- og frístundastarfs, íslenskukennslu fyrir foreldra, spjaldtölvuverkefnum, vinnu við áætlun um mál og læsi, gerjun í hverfinu og hvaða ávinningur hefur náðst á fyrstu tveimur árum þessa fimm ára þróunarverkefnisins.

Samstarfsaðilar í verkefninu eru Fellaskóli, Leikskólinn Holt, Leikskólinn Ösp, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og Þjónustumiðstöð Breiðholts.

Verkefnið hefur notið stuðnings samstarfsaðila og skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Það hlaut hvatningarverðlaun ráðsins í maí 2013 og viðurkenninguna Orðsporið í febrúar 2014.


 

Þróunarverkefni vegna innleiðingar á grunnþáttum menntunar, með sérstaka áherslu á lýðræði í skólastarfi í Grunnskólanum á Ísafirði

Jóna Benediktsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskólanum á Ísafirði

Verkefnið snýst um  þróun lýðræðis í skólastarfinu en tengist einnig öðrum grunnþáttum. Unnið var út frá skilgreiningum Dewey á lýðræði og kenningar hans og  Bernstein um forsendur lýðræðislegra vinnubragða lagðar til grundvallar við skipulagningu. Sett var upp nemendaþing fyrir nemendur 6.-10. bekkjar þar sem nemendur ræddu saman í hópum um hvernig skapa mætti skólasamfélag sem þjónaði þörfum þeirra sem best. Markmið verkefnisins voru fjögur:

  • að veita nemendum tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegri samræðu um málefni sem hefur merkingu fyrir daglegt líf þeirra og skipulag skólastarfsins. 
  • að efla vitund nemenda um eigin áhrif í skólastarfinu
  • að fá fram sjónarhorn nemenda á hlutverk aðila skólasamfélagsins
  • að fá fram tillögur frá nemendum um hvað hver og einn getur gert til að hafa jákvæð áhrif á daglegt starf í skólanum.

Umræðuefni nemenda á þinginu voru í þremur liðum:

A)    Hvaða aðilar mynda skólasamfélagið? 
B)    Hvað gætu hóparnir sem mynda skólasamfélagið gert til að gera skólastarfið betra og árangursríkara? 
C)    Hvað myndu aðilar skólasamfélagsins ,,græða“ ef allir gerðu sitt besta. 

Samantekt frá hópunum er nú í vinnslu í öllum bekkjum og hafa niðurstöður verið hengdar upp í skólanum.  Nemendaráð kynnir lokaniðurstöðurnar fyrir öllum nemendum. Þær verða einnig notaðar í sjálfsmati nemenda og sjálfsmati skólans.


 

Bæjarfélagið okkar – lýðræði og læsi

Kristín Helgadóttir, skólastjóri Leikskólanum Holti
Anna Soffía Wahlström, deildarstjóri og verkefnisstjóri Leikskólanum Holti

Bæjarfélagið okkar  - lýðræði og læsi er starfendarannsókn sem unninn var í Leikskólanum Holti skólaárið 2012-2013. Markmið verkefnisins var:

  • Að efla lýðræðisleg vinnubrögð meðal kennara og barna í starfi í anda Reggio Emilia með áherslu á læsi.
  • Að efla markvissa vinnu með skráningar með það að markmiði að gera kennurum kleift að rýna í og meta hvernig mögulegt sé að greina og bæta ákveðna þætti í starfinu.

Leikskólinn vinnur í anda Reggio Emilia þar sem uppeldisfræðilegar skráningar eru nýttar til að nálgast hugmyndir og reynslu barnanna. Í vinnu með viðfangsefnið Bæjarfélagið okkar var ætlunin að bæta skilning og nálgun sem kennarar og börn hafa varðandi lýðræði og læsi og um leið auka þátttöku og virkni allra. Börnin unnu með mismunandi þætti sem eru til staðar í bæjarfélaginu eins og t.d. ljós, vatn, tónlist, leikföng, víkinga, íþróttir, rusl og endurvinnslu. Kennarar unnu skráningar um vinnuna sem voru svo til umræðu á tveggja vikna fresti þar sem var leitast eftir að greina læsi og lýðræði. Þannig urðu skráningar betur festar í sessi sem vinnuaðferð, starfið sýnilegra og kennarar áttu auðveldara að meta og þróa jafnóðum tiltekna þætti í starfinu.

http://holt.rnb.is/resources/Files/109_baejar-2013.pdf 
http://holt.rnb.is/resources/Files/113_Lokaskýrs..pdf