Málstofa 2.1

Málstofa 2.1

 

Ritun til náms
Baldur Sigurðsson, dósent við HÍ (balsi@hi.is) 

Umdeild forsenda í heimspeki tungumála er hvort tungumálið sé tæki hugsunar eða öfugt. Tungumálið er að minnsta kosti eitt tæki til hugsunar og ein leið til að tjá hugsanir. Lengi hefur verið litið svo á að ritun sé öflug leið til að skýra og skerpa hugsun, og hafi það fram yfir talað mál að hún henti sérstaklega til að þróa æðri hugsun. Ritun hefur einnig verið talin góð leið til hvers konar náms, ritun festir efni í minni og skýrir hugmyndir höfundar um viðfangsefni sitt. Þessi hugmynd um gildi ritunar liggur til grundvallar einum meginþætti í lestrarkennsluaðferðinni Byrjendalæsi. Þriðji fasi í vinnu hverrar viku, allt frá fyrstu vikum lestrarnáms, felur í sér endursköpun merkingar, úrvinnslu þess lesefnis sem unnið hefur verið með í vikunni, í ritun. Frá upphafi lestrarnáms er einnig unnið  með ritun undir öðrum formerkjum og smám saman glímt við stærri og flóknari verkefni. Í þessu erindi verður fjallað um hugmyndafræði þeirrar kennslustefnu sem kölluð er ritun til náms (e. Writing to learn) og hvernig hún birtist í framkvæmd Byrjendalæsis í fáeinum íslenskum skólum. Gagnrýni á stefnuna verður mátuð við Byrjendalæsi og framkvæmd þess.


 

Leiðir til eflingar lesskilnings í 1. og 2. bekk grunnskóla
Halldóra Haraldsdóttir, dósent við HA (hh@unak.is)

Lesskilningur barna og unglinga hefur verið ofarlega á baugi í umræðu um skólamál meðal annars í kjölfar niðurstaðna PISA-rannsókna. PISA-rannsóknin 2012 sýndi að þriðji hver íslenskur fimmtán ára drengur getur ekki lesið sér til gagns og fyrri rannsóknir hafa sýnt að þrátt fyrir að stúlkur standi sig betur hefur lesskilningi hrakað hjá báðum kynjum síðasta áratuginn. Lítið er um rannsóknir á þessu sviði í íslensku skólastarfi en í rannsókninni á Byrjendalæsi var sjónum að hluta til beint að lesskilningi. Gagnaöflun fór fram með vettvangsathugunum, viðtölum og úrvinnslu ritaðra gagna í sex þátttökuskólum. Jafnframt var unnið úr svörum við spurningalista um aðferðir við læsiskennslu á yngsta stigi í 121 skóla á landinu; 68 skólum sem innleitt hafa Byrjendalæsi og 53 skólum sem ekki nota þá aðferð. Í þessu erindi verður greint frá niðurstöðum um leiðir sem kennarar í 1. og 2. bekk notuðu til að efla lesskilning nemenda. Meðal annars var unnið úr gögnum sem tengjast aðferðum kennara við val og úrvinnslu á texta, eflingu orðaforða, notkun lesskilningsaðferða, samvinnu nemenda og stuðning við nemendur. Niðurstöður benda til að kennarar beini athygli með ákveðnum hætti að lesskilningi yngstu nemenda grunnskólans en víða skorti marvissari vinnubrögð, s.s frekari dýpt í úrvinnslu skilningsþátta.


  

Tilhögun læsiskennslu á yngsta stigi: Niðurstöður úr spurningalistakönnun meðal kennara í grunnskólum á Íslandi
Kjartan Ólafsson, lektor við HA (kjartan@unak.is)

Undanfarin ár hefur vaxandi umræða verið um aðferðir og árangur í læsiskennslu. Niðurstöður mælinga á lesskilningi unglinga við lok grunnskóla hafa meðal annars átt þar hlut að máli og leitt í ljós umtalsverðan kynjamun en lítinn mun milli skóla. Þrátt fyrir áherslu íslenskra stjórnvalda á að efla læsi eru rannsóknir á læsi íslenskra grunnskólanemenda fáar, þegar PISA- og PIRLS-rannsóknunum sleppir, og fátt í raun vitað um hvernig læsiskennsla í íslenskum skólum fer fram. Í þessu erindi verður greint frá niðurstöðum spurningalistakönnunar sem gerð var vorið 2014 meðal kennara á yngsta stigi (1.–4. bekk) í 121 grunnskóla á Íslandi; 68 skólum sem innleitt hafa Byrjendalæsi og 53 skólum sem ekki nota þá aðferð. Í könnuninni voru þeir meðal annars spurðir um tilhögun læsiskennslu. Í erindinu verður byggt á svörum frá um 395 kennurum. Í fyrsta lagi verður leitað svara við því hvað einkennir læsiskennslu á yngsta stigi í grunnskólum og í öðru lagi hvort og þá hversu mikill munur er á aðferðum kennara annars vegar milli skóla sem nota Byrjendalæsi og hins vegar skóla sem ekki nota það. Enn fremur verður skoðað hvort mikill munur er á aðferðum kennara innan hvors hóps skóla fyrir sig.