Valmynd Leit

Mįlstofa 2.6

Einkenni læsis á stærðfræði hjá Íslenskum nemendum: Atriðagreining á PISA niðurstöðum 2012
Almar Miðvík Halldórsson, verkefnisstjóri PISA

Í PISA könnun OECD árið 2012 var læsi á stærðfræði metið í yfir 70 löndum, með 84 stærðfræðiverkefnum. Í þessari rannsókn er árangur íslenskra nemenda eftir landshlutum greindur m.t.t. einkenna spurninganna, þ.á.m. þyngd þeirra, lengd, samhengi, svarformi, færnisviðum og undirþáttum læsis á stærðfræði. Leitast er við að greina styrkleika og veikleika íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburði útfrá eðli þeirra verkefna þar sem íslenskir nemendur standa sérstaklega vel og illa. Greinilegur munur kemur fram á landshlutum, sérstaklega þegar kemur að undirþáttum stærðfræðilæsis og þyngd verkefna. Til dæmis er staða nemenda í Reykjavík betri í magnútreikningum miðað við verkefni þar sem greina á breytingar og tengsl milli ólíkra þátta og betri árangur er á þyngri lengri verkefnum en stuttum auðveldum verkefnum. Í erindinu eru sýnd dæmigerð verkefni í hverju landshluta sem nemendum gengur sérstaklega vel og illa að leysa og dregin saman þau svið stærðfræðifærni sem þarf að styrkja. Niðurstöður munu hjálpa kennurum og rannsakendum að þekkja betur þarfir nemenda fyrir frekari þjálfun í stærðfræði.


 

Að verða læs á náttúrufræðitexta: Máttur málkerfa
Hafþór Guðjónsson, dósent við HÍ (hafthor@hi.is)

Eitt helsta sérkenni skóla eru námsgreinarnar. En hvað er námsgrein? Hefðin kennir okkur að hugsa um námsgrein sem fróðleik eða upplýsingar um viðkomandi svið. Með útkomu bókarinnar The Process of Education eftir Jerome Bruner árið 1960 fóru margir að hugsa um námsgreinar sem hugtakakerfi og námsbækur breyttust úr því að vera upptalningar á fróðleiksmolum í að verða hugtakamiðaðar. Þær fengu nú fastari skipan (strúktúr) og námsgreinakennsla í skólum fór í vaxandi mæli að snúast um hugtök og tengsl þeirra. Með aukinni áherslu á læsi síðasta áratuginn eða svo hefur ný sýn á námsgreinar farið að mótast: að þær séu eða megi vel skoða sem sérstakar orðræður eða málkerfi sem nemendur verða að tileinka sér eigi þeir að ná tökum á þessum greinum. Kunnir fræðimenn halda því jafnvel fram að þarna felist lykillinn að góðum námsárangri í skóla og sumir halda því fram að skóla megi vel skoða sem staði þar sem nemendum er hjálpað að þróa með sér nýjar tegundir orðræðna, þ.e. tileinka sér ný málkerfi sem fela í sér ný kort til að rata í flóknum heimi og jafnvel skapa nýja heima. Þetta hyggst ég skoða í erindi mínu og þá með sérstöku tilliti til náttúrufræðigreina. 


Mišstöš skólažróunar

Sólborg v/noršurslóš              600 Akureyri, Iceland              gunnarg@unak.is              S. 460 8590 

Fylgdu okkur eša deildu