Valmynd Leit

Mįlstofa 2.7

Áhrif spjaldtölva á eflingu upplýsinga-, miðla- og tæknilæsis
Jóhanna Þorvaldsdóttir, meistaranemi við HA (johanna@arskoli.is), Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við HA (hermina@unak.is) og Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA (ge@unak.is)

Í nútíma samfélagi er mikilvægt að styðja vel við upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi því stafræn samskiptatækni skipar stóran þátt í daglegu lífi flestra. Læsi er grunnþáttur við hverskonar þekkingaröflun en tækninýjungar hafa breytt samskiptaumhverfi samtímans og valdið því að læsishugtakið hefur fengið víðari merkingu. Í upplýsinga- og miðlalæsi felst hæfni til að tileinka sér þekkingu, umskrifa hana og skapa nýja. Innleiðing spjaldtölva gæti gefið skólafólki aukin tækifæri til breytinga og bóta á skólastarfi í takt við stefnur sem stefnumótandi aðilar um nám á 21. öldinni kynna. Í þessu erindi verður sjónum beint að reynslu starfandi kennara af notkun spjaldtölva í námi og kennslu á yngsta stigi grunnskóla. Tilgangur rannsóknarinnar sem kynnt verður var að skoða hvort og þá hvernig notkun spjaldtölva geti bætt skólastarf og hvernig notkun þeirra geti stutt við upplýsinga-, tækni- og miðlalæsi nemenda. Rannsóknaraðferðin var eigindleg og gagna aflað með viðtölum og vettvangsathugunum. Niðurstöður sýna að notkun smáforrita virðist styðja við upplýsinga- og tæknilæsi en til að efla miðlalæsi þyrfti notkun Netsins, vefsíðna og samfélagsmiðla að aukast. Niðurstöður benda einnig til þess að innleiðing spjaldtölva falli að þeim kennsluháttum sem fyrir eru en breyti þeim ekki.


 

Hvítbók: Hvernig getum við aukið læsi saman?
Guðfinna S. Bjarnadóttir, Ph.D. verkefnastjóri Hvítbókar (gudfinna@lc.is)

Eitt af grunnmarkmiðum sem koma fram í Hvítbók um umbætur í menntun er að 90% grunnskólanema nái lágmarksviðmiðum í lesskilningi. Samkvæmt niðurstöðum PISA árið 2012 voru um 800 nemendur hér á landi (15 ára) undir þessum viðmiðunum, þannig að einungis 79% nemenda náðu þeim.

Þegar fjallað er um læsi og lesskilning ber m.a. að hafa í huga að:

  • Menningararfleifð söguþjóðar er tengd læsi og lestri.
  • Lestur og lesskilningur er grundvallarfærni og mikilvæg undirstaða fyrir líf einstaklinga og framþróun samfélags.
  • Lestrarörðugleikar eru hamlandi.
  • Samvinna er mikilvægur lykill að árangri

(sbr. t.d. bókina Professional Capital eftir Andy Hargreaves & Michael Fullan).

Í málstofunni verður stuttur inngangur dr. Guðfinnu S. Bjarnadóttur, verkefnastjóra, um læsisverkefnið sem hafið er á grundvelli Hvítbókarinnar. Einn mikilvægasti lykill að árangri í lestri er að ná megi fram sameiginlegum kröftum kennara, skóla, foreldra/fjölskyldna, sveitarstjórna og alls samfélagsins til að auka læsi á Íslandi, ár frá ári og um ókomna framtíð.

Nú er að hefjast undirbúningur fyrir framkvæmd verkefnisins og ráðstefnugestir sem sækja málstofuna fá stutta kynningu á upplegginu og í kjölfarið verða þeir beðnir um að ræða nálgun og leiðir í verkefninu, gefa ráð og ræða saman um verkefnið. Einnig að aðstoða við að svara spruningunni sem sett er fram: Hvernig getum við aukið læsi saman?


Mišstöš skólažróunar

Sólborg v/noršurslóš              600 Akureyri, Iceland              laufey@unak.is              S. 460 8590 

Fylgdu okkur eša deildu