Málstofa 3

Stofa M202

Ævintýralegt jafnrétti. Þróunarverkefni um jafnrétti í leikskólastarfi

Hólmfríður Þórðardóttir, leikskólakennari á Iðavelli
Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor við HA

Í erindinu er fjallað um þróunarverkefnið Ævintýralegt jafnrétti sem unnið er með fjögurra ára börnum í leikskólanum Iðavelli, Akureyri. Markmið verkefnisins er að vinna með og efla jafnréttisvitund leikskólabarna. Börnum og kennurum er skapað tækifæri til að takast saman á við viðteknar hugmyndir um kynjahlutverk og unnið er að því að efla gagnrýna hugsun barna í gegnum sögugerð og leik. Börnin æfast í að semja sögur á skapandi hátt út frá jafnréttis- og kynjasjónarmiðum en einnig er lögð áhersla á að greina og vinna með möguleika og takmarkanir í hugmyndum þeirra um kynjahlutverk. Greint er frá undirbúningi og skipulagningu verkefnisins, þeim árangri sem hefur náðst og helsta lærdómi sem draga má af vinnunni við verkefnið. Niðurstöður sýna að það er þörf á markvissri vinnu í jafnrétti með leikskólabörnum. Umræða skilar árangri, meðal annars aukinni færni barna í að ræða um hugmyndir, skoðanir og viðhorf  en einnig hafa börnin eflst í að standa á skoðunum sínum. Verkefnið hefur haft áhrif á kennara, krafið þá um líta í eigin barm og íhuga starfsaðferðir og viðhorf.


 

Skólaþróun í samstarfi við nærsamfélag

Hjördís Finnbogadóttir, kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga

Menntaskólinn á Tröllaskaga (MTR) var fyrsti framhaldsskóli landsins til að taka upp skylduáfanga í nýsköpunar og frumkvöðlamennt. Einn annar skóli, Verzlunarskóli Íslands, hefur nú gert slíkt nám að skyldu fyrir alla nemendur. Nýsköpunaráfanginn sem öllum nemendum MTR er skylt að taka heitir Tröllaskagaáfangi og er markmið hans að örva sköpunarkraft og auka djörfung nemenda og dug til að kasta sér út í ný verkefni þar sem útkoma er ekki fyrirfram gefin. Kostur þykir að verkefnin séu fjölbreytt og nemendur velji eitthvað sem þeir hafa áhuga á og gætu hugsað sér að vinna við eða að minnsta kosti nýta sér. Áfanginn er í tveimur lotum. Í þeirri fyrri njóta nemendur fræðslu frumkvöðla á Tröllaskaga, sem hafa verið sérlega örlátir á tíma sinn. Í síðari hlutanum þróa nemendur nýsköpunarhugmynd og skila viðskiptaáætlun. Tvær útgáfur hafa verið keyrðar af áfanganum, í annarri er þemað afþreying og ferðaþjónusta en í hinni sjávarnytjar og skyld starfsemi. Á vefslóðunum hér fyrir neðan eru fréttir af þessu starfi sem birtar voru á heimasíðu skólans á haustönn 2013.

 http://www.mtr.is/is/frettir/frettayfirlit/1/vidskiptaaaetlun-kynnt  
http://www.mtr.is/is/frettir/frettayfirlit/1/mtr-vekur-athygli-fyrir-nyskopun


 

Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar

Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar

Árið 2008 fékk Grunnskóli Snæfellsbæjar styrk úr Vonarsjóði til að koma af stað námi í átthagafræði.Sá styrkur kom til vegna þess að íbúaþing markaði þá stefnu að í skólanum skyldi lögð mikil áhersla á nám nemenda í „nærumhverfisfræðum“. Styrkinn nýtti skólinn til að semja fyrstu drög að námskrá skólans þar sem skipulagt var nám nemenda frá 1. bekk til 10. bekkjar um náttúru, sögu, landafræði, fortíð, nútíð og möguleika framtíðar í Snæfellsbæ. Að þróunarverkefninu loknu var orðið ljóst að mikill áhugi var í samfélaginu, bæði innan og utan skólans, að gera námið að leiðarljósi skólastarfs í Snæfellsbæ.  Sem það hefur síðan verið.

Á undanförnum árum hefur umrædd námskrá verið unnin nánar og verkefnum verið bætt við. Allri vinnunni er stýrt af teymi starfsmanna og með reglulegum stefnufundum. Þessi vinnubrögð hafa síðan stutt verulega við alla stefnumótun í skólanum, þ.á.m. innleiðingarferli vegna nýrrar aðalnámskrár. Mikil áhersla er lögð á upplifunarnám og rannsóknarvinnu nemenda og mikið hefur verið sótt í fyrirtæki og stofnanir í bæjarfélaginu bæði stór og smá. Verkefnið hefur aukið á samstarf skólans, heimila, fyrirtækja og stofnana í sveitarfélaginu og í raun tryggt „sameign“ Snæfellsbæinga um skólastarf í bænum.