Málstofa 6

Stofa L102

Úttektir á framhaldsskólum

Bragi Guðmundsson, prófessor við HA
Trausti Þorsteinsson, dósent við HA

Framhaldsskólar hafa margir unnið reglubundið sjálfsmat (innra mat) síðasta áratuginn og jafnvel lengur. Með framhaldsskólalögunum (92/2008) var þetta mat lögfest og sama er að segja um ytra mat. Hvoru tveggja var fylgt eftir með reglugerð (700/2010). Þar segir meðal annars að markmið mats og eftirlits með skólastarfi séu „að veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda [og] auka gæði skólastarfs, stuðla að umbótum og aukinni ábyrgð skóla á eigin starfi.“

Í samræmi við þetta hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið falið óháðum aðilum að gera úttektir á skilgreindum þáttum í starfsemi framhaldsskóla undanfarin ár. Matsskýrslurnar eru birtar á vefsíðu ráðuneytisins ásamt viðbragðsáætlun viðkomandi skóla og með því er stuðlað að auknu gegnsæi um íslenskt skólastarf. Matið er umbótamiðað og því er ætlað að veita tilteknar upplýsingar um leið og það stuðlar að starfsþróun og auknum gæðum skólastarfs.

Stjórnendur málstofunnar hafa annast ytra mat af þessu tagi um árabil. Þeir munu greina frá starfsaðferðum sínum og helstu niðurstöðum um það hvernig framhaldsskólum hefur gengið að aðlaga sig að því starfsumhverfi sem framhaldsskólalög, reglugerðir og aðalnámskrá segja til um.


 

Viðmið um gæði náms

Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnisstjóri hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar

Árið 2007 hófst samstarf grunnskóla í Reykjavík og Ardleigh Green Junior School í London. Síðan hafa samtals 10 grunnskólar í borginni unnið að þróunarverkefninu Viðmið um gæði náms undir handleiðslu skólastjórans, John Morris. Samhliða því hafa yfir 200 grunnskólakennarar farið í skólaheimsóknir og á námskeið í Ardleigh Green. Haustið 2013 opnaði skrifstofa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vef með námsefni sem kennarar í borginni hafa unnið undir áhrifum frá Ardleigh Green og myndböndum sem draga fram einstaka þætti í starfi Ardleigh Green skólans. Vefurinn er aðgengilegur fyrir alla kennara og stjórnendur í grunnskólum borgarinnar.

Afrakstur þessa þróunarstarfs er sýnilegur í mörgum skólanna. Faglegar samræður kennara eru stór þáttur verkefnisins. Hugmyndir hafa þróast, kennsluhættir verið ígrundaðir og endurbættir og sameiginlegur skilningur skapast á hvað sé gott skólastarf í hverjum skóla sem er talin mikilvæg forsenda fyrir þróun náms og kennslu. Viðmið um gott skólastarf má þegar sjá á heimasíðum sumra skólanna. Verkefnið varð til vegna áhuga kennara og skólastjórnenda og hefur vakið skólasamfélagið til umhugsunar og umræðu um kennslufræði og haft veruleg áhrif á þróun skólastarfs. Á ráðstefnunni verður nánar sagt frá verkefninu og sýnd dæmi um myndböndin sem orðið hafa til.


 

Heiltæk nálgun að umbótum

Anna Kristín Sigurðardóttir, lektor við HÍ 

Kynnt er líkan að þróun skóla eða menntakerfa sem nefnt er Heiltæk nálgun að umbótum (e. systemic improvement). Hugmyndin að baki byggir á því að hver eining/stofnun sé annarri háð til að ná árangri, því er nauðsynlegt að beina sjónum að menntakerfinu í heild og stuðla að  samvirkni á öllum stigum. Líkanið getur því átt við um kennarann sem þróar starfið með sínum nemendahópi jafnt sem skólayfirvöldum í sveitarfélaginu eða á landsvísu og allt þar á milli. Markmiðið er sjálfbærar umbætur,  þ.e. að byggja upp hæfni samfélagsins til að læra og þróast og bættur árangur til lengri tíma litið. Áhersla er á samhengi í stefnumótun, nýtingu gagna, stöðuga starfsþróun, teymisvinnu og sveigjanleika til að bregðast við breytingum, sem í mörgum rannsóknarniðurstöðum hafa  jákvæð tengsl við árangur. Þættirnir eru samofnir og eru leiðbeinandi fyrir þróunarstarf hvort sem unnið  að námskrárgerð, læsi eða bættum stjórnunarháttum svo dæmi séu tekin. Þar sem líkanið nær til margra þátta skólastarfsins er leitað fanga víða varðandi kenningalegan bakgrunn en grunnhugmyndin byggir á  kenningum um lærdómssamfélagið og sjálfbæra skólaþróun. Líkanið hefur hagnýtt gildi fyrir alla þá sem taka þátt í eða leiða þróunarstarf en getur einnig nýst rannsakendum á sviði skólaþróunar.