Málstofa 8

Stofa L202

Er til fagstétt þeirra sem mennta kennara?

Sigurjón Mýrdal, deildarstjóri í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu

Í málstofunni verður kynnt umræða á alþjóðavettvangi um breytt hlutverk kennara, um starfsþróun þeirra og nýja sýn á kennaramenntun. Aðallega verður þó fjallað um fagmennsku kennaramenntara (þeirra sem raunverulega mennta kennara) og misvísandi sjónarmið um þá. Sameining HÍ og KHÍ, ný lög um kennaramenntun og vandræðagangur með vettvangsnám kennaranema sýna að skipuleggja mætti starfsmenntun kennara á ólíkan hátt.

Ég mun kynna nýja skýrslu Evrópusambandsins, Supporting Teacher Educators for better learning outcomes, þar sem kvatt er til aukinnar fagmennsku kennaramenntara.


 

Frá stjórnunarnámi til framkvæmdar. Skólastjórar í fámennum skólum á Íslandi og í Ástralíu

Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor við HA

Kynntar verða niðurstöður eigindlegrar tilviksrannsóknar sem unnin var í Ástralíu og á Íslandi og byggir á fyrri rannsóknum höfunda á aðstæðum skólastjóra í fámennum skólum. Bornir voru saman skólastjórar í fámennum skóla á Íslandi og í Ástralíu sem nýlokið höfðu meistaranámi í skólastjórnun. Markmið rannsóknarinnar var að greina hvernig nám þeirra endurspeglaðist í tungutaki þeirra, viðhorfi og athöfnum og hvaða áhrif námið hafði haft á störf þeirra sem skólastjóra. Farið var í einn skóla í hvoru landi og gagna safnað með viðtölum við skólastjóra, vettvangsathugunum, óformlegum samtölum við starfsfólk og skjalarýni. Niðurstöður sýndu að námið gerði skólastjórum betur kleift að forma og orða sýn sína á skólastarfið og hjálpaði þeim að læra gildi þess að beita mismunandi stjórnunaraðferðum. Þeim veittist þó enn erfitt að taka á „erfiðum“ málum sem upp komu og hefðu þurft meiri stuðning í starfi en þeim stóð til boða. Niðurstöður benda til þess að svo að námið hafi áhrif inn í kennslustofuna og á árangur nemenda þurfi meira að koma til. Rannsóknin vekur því bæði upp spurningar um uppbyggingu stjórnendanáms og hvernig stuðningi við starfsþróun stjórnenda er háttað, sérstaklega í fámennum skólum.


 

Heiðarleg tengsl - opið hjarta. Forysta á tímum alþjóðavæðingar

Inga Sigrún Atladóttir, skólastjóri Valsárskóla

Síðustu áratugi hefur samfélagið tekið miklum breytingum sem einkennast af auknum samskiptum, alþjóðlegum áhrifum og tækninýjungum. Breytingarnar hafa haft mikil áhrif á íslenska grunnskóla, enda sýna samanburðarrannsóknir að Ísland er eitt alþjóðavæddasta land í heimi. Rannsóknir benda einnig til að íslenskt skólastarf hafi ekki fyllilega náð að aðlagast breytingunum. Til að takast á við þessar breytingar þurfa skólastjórar að nýta sér stjórnunarhætti sem byggja á heiðarlegum samskiptum, sveigjanleika, skilvirkum starfsháttum og góðum tengslum.

Rannsóknin sem ég gerði náði til allra skólastjóra á landinu og var markmið hennar að meta hve vel stjórnunarhættir íslenskra skólastóra falla að nútíma samfélagi og skólastarfi. Niðurstöðurnar sýna að íslenskir skólastjórar beita fjölbreyttum forystuaðferðum, leggja mikla áherslu á heiðarleika og almennt er forysta þeirra vel til þess fallin að leiða skólastarf í nútíma samfélagi. Niðurstöður bentu einnig til þess að íslenska skólastjóra skorti forystuaðferðir til að taka á samskiptavanda og fá starfsfólk til að takast á við flókin vandamál.

Gæti vandi íslenskra grunnskóla við að aðlagast breyttu umhverfi verið falinn í þessum niðurstöðum?